Sigríður Stefánsdóttir réttarfélagsfræðingur fæddist í Reykjavík 18. apríl 1951. Hún lézt á líknardeild Landspítalans 31. desember 2023.

Sigríður var dóttir hjónanna Elínar Guðmundsdóttur húsmóður, f. 16. júlí 1912, d. 12. júní 2003 og Stefáns Ögmundssonar prentara, f. 22. júlí 1909, d. 3. apríl 1989 og var yngst fjögurra eftirlifandi systra, þeirra Ingibjargar, Steinunnar og Bergljótar. Börn Sigríðar eru Sunna Snædal nýrnalæknir, f. 22. september 1971, Drífa Snædal, talskona Stígamóta, f. 5. júní 1973 og Ögmundur Jónsson verkamaður, f. 22. nóvember 1979. Ögmundur er kvæntur Ólöfu Öndru Proppé verkakonu. Börn Sunnu og Sigurðar Yngva Kristinssonar eru Kristinn Sigurðarson Snædal, Katla Sigurðardóttir Snædal og Vala Sigurðardóttir Snædal. Dóttir Drífu er Silja Snædal Drífudóttir. Kristinn er í sambúð með Heru Gautadóttur og Silja er í sambúð með Kára Snæ Kárasyni.

Sigríður var alin upp í Þingholtunum í Reykjavík og síðar í Kópavogi og lauk stúdentsprófi úr fyrsta árgangi Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1970. Hún nam lögfræði við HÍ og fluttist til Lundar í Svíþjóð árið 1979 og lauk þar prófi í réttarfélagsfræði. Um árabil kenndi Sigríður við Háskólann í Lundi ásamt því að stunda doktorsnám með áherzlu á vinnuvernd og réttindi vinnandi fólks. Til að mynda vann hún rannsókn á áhrifum skjávinnu þegar tölvur voru að ryðja sér til rúms á vinnumarkaði. Meðfram kennslu og doktorsnámi starfaði Sigríður sem túlkur fyrir Hið íslenzka prentarafélag og síðar Félag bókagerðarmanna. Í Svíþjóð vann hún einnig við móðurmálskennslu fyrir íslenzk börn. Þá kenndi hún í mörg ár hjá Námsflokkum Reykjavíkur og einnig kynjafræði við Háskóla Íslands þegar sú fræðigrein var að ryðja sér til rúms og þýddi Drottnunaraðferðirnar eftir Berit Ås á íslenzku. Sigríður var fyrsti framkvæmdastjóri Hollvinasamtaka Háskóla Íslands árin 1996-2002. Þá venti hún kvæði sínu í kross og flutti á Austfirði, fyrst til Reyðarfjarðar þar sem hún starfaði í eitt ár sem æskulýðs- og íþróttafulltrúi, og síðar í Neskaupstað þar sem hún var forstöðumaður félagsmálasviðs Fjarðabyggðar til 2010.

Sigríður flutti aftur í miðbæ Reykjavíkur 2010 þar sem hún hóf störf hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og starfaði þar til loka starfsævinnar, fyrst sem forstöðukona við þjónustuíbúðir og dagvistun aldraðra á Vitatorgi og síðar sem forstöðukona búsetuúrræða fyrir fólk með fíknivanda.

Sigríður var alla tíð virk í félagsmálum og róttækum stjórnmálum. Hún tók þátt í störfum Kvennalistans og stýrði kosningabaráttunni í Reykjavík 1990. Hún var einn stofnenda Stefnu – félags vinstrimanna og tók síðar þátt í stofnun Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Sigríður var fyrsti formaður Reykjavíkurfélags hreyfingarinnar en sagði sig síðar úr henni. Sigríður tók þátt í að stofna Siðmennt – félag siðrænna húmanista og gegndi þar stjórnarstörfum fyrstu ár félagsins. Þá sat hún einnig í stjórn Samtaka um kvennaathvarf.

Haldin verður minningarathöfn í Iðnó í dag, 11. janúar 2024, klukkan 15.

Sigríður Stefánsdóttir frænka mín og vinur kvaddi á kyrrlátri aðfaranótt gamlársdags í hlýjum faðmi þeirra sem hún elskaði mest, barnanna sinna þriggja, Sunnu, Drífu og Ögmundar. Barnabörnin voru ekki langt undan enda alltaf efst í huga ömmu sinnar og hún í þeirra huga.

Líf Siggu hafði ekki alltaf verið gárulaus sigling á lygnum sjó enda vildi hún gjarna hreyfa við ýmsu sem staðið hafði kjurrt. Hún var róttæk bæði í hugsun og verkum sínum, vildi jöfnuð og jafnrétti, var í fararbroddi kvennabaráttunnar og átti drjúgan þátt í að hefja rannsóknir í jafnréttismálum til vegs. Hún lagði stund á réttarfélagsfræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð og kenndi við þann skóla að loknu námi í fræðigrein sinni. Og þegar farið var að kenna kynjafræði við Háskóla Íslands var leitað til hennar.

Sigríður Stefánsdóttir sinnti ýmsum störfum um dagana en alltaf tengdust þau á einhvern hátt viðleitni til að rétta hlut þeirra sem stóðu höllum fæti, hvort sem starfsvettvangurinn var á vegum félagsþjónustu eða annarra aðila. Þeir sem engan málsvara áttu gátu alltaf reiknað með að finna hann í Siggu Stefáns. Þá gat hún líka orðið harðdræg enda ekki fisjað saman. Hef ég grun um að hjá hinum ýmsu kærunefndum og umboðsmönnum liggi ófá erindi frá Sigríði Stefánsdóttur að krefja yfirvaldið um réttlæti.

Í pólitíkinni áttum við samleið. Sigga var einn af stofnendum Stefnu, félags vinstrimanna, sem kom til sögunnar undir aldarlokin. Það var þegar stefndi í að smalað yrði öllu félagslega þenkjandi fólki í eins konar safnrétt. Stefna var félag sem vissulega vildi samstarf á vinstri væng stjórnmálanna, héldum reyndar fastar í þá hugsun en flest annað félagshyggjufólk að flokkar sem vildu leggja rækt við félagsleg sjónarmið ættu að starfa saman, en ekki þó þannig að vatnað yrði út öllu sem kalla mætti róttækan sósíalisma, baráttu gegn hernaðarhyggju og alþjóðaauðvaldinu. Þarna vorum við Sigga frænka mín sammála og fylgdumst vel að ásamt mörgu góðu fólki sem var sama sinnis.

Siggu Stefáns var umhugað um að verða ekki viðskila við samvisku sína. En sambýlið við samviskuna er ekki alltaf auðvelt. Stundum kallar það á fórnir sem kosta veraldlegan ávinning. Líf hennar hefði án efa getað orðið auðveldara hefði hún verið eftirgefanlegri í prinsippfestu sinni. En þá hefði hún líka hætt að vera Sigga Stefáns. Það hefðum við vinir hennar og félagar aldrei viljað.

Sigríður Stefánsdóttir lifir áfram í verkum sínum og þá ekki síður í öflugri sveit barna og barnabarna. Þau kveðja nú kæra móður og ömmu. Öllum þeim sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur um leið og ég kveð frænku mína og góðan vin.

Ögmundur Jónasson.

Gæfa okkar í lífinu er góð fjölskylda og góðir vinir.

Fólk sem tekur virkan þátt í lífi okkar, mótar okkur og tengir. Veitir okkur bæði styrk og hamingju.

Við vorum nánar vinkonur, komum hver annarri við og vináttan var djúp og einlæg. Við ræktuðum vináttuna og bjuggum til dýrmætar minningar, ferðir innan lands og utan, leikhús, tónleikar, gjöful samvera.

Hún var traustur vinur og vinamörg. Við vinkonur hennar höfum kynnst ótal vinum hennar í opnu húsi að hætti Siggu. Það er ómetanlegt.

Sigga var engum lík og það var ævintýri að vera vinkona hennar. Hún var stór kona með sterka nærveru og einstaka útgeislun. Hún var fluggreind og mikil íslenskumanneskja. Hún neitaði til dæmis að hætta að nota bókstafinn z. Mörg voru samtölin okkar eftir nístandi málvillur í fjölmiðlum.

Enginn var lánlaus sem var vinur hennar. Þar gaf hún allt, með ástríki, tryggð og samhygð. Sigga hafði djúpa innsýn í mannlegt eðli og líðan fólks. Oft gat hún dimmu í dagsljós breytt með brosinu einu. Þegar Sigga veitti einhverjum fylgi sitt brást hún ekki.

Bernskan mótar okkur og þau gildi sem ungur nemur eru ætíð nærri. Áhrif bernskuheimilisins á Siggu voru mikil og varanleg. Hún var stolt af uppruna sínum og trú þeim viðhorfum og gildum sem hún var alin upp við. Hún var pólitísk og réttsýn.

Mannréttindabaráttan naut þessara eiginleika hennar í ríkum mæli. Hún brann fyrir bættum hag þeirra sem minna mega sín og jafnréttisbaráttan var henni í blóð borin.

Rauði liturinn var hennar – engin tilviljum því hún var óhrædd að sýna fyrir hvað hún stóð.

Sigga var mikil fjölskyldumanneskja, kærleiksrík móðir og amma sem studdi þau í öllu. Hún ræktaði sambandið við fólkið sitt og verndaði takmarkalaust. Mikið var hún hreykin af þeim öllum.

Spontanítetið, hið eðlilega og óþvingaða, var ríkt í fari hennar. Hún hafði góðan húmor, sem gat verið kaldhæðinn en aldrei meinhæðinn.

Sigga vandaði sig við allt sem hún gerði og kunni svo vel listina að lifa og njóta stundarinnar. Hún var fagurkeri og fáir stóðu henni framar í matargerð.

Hún var sannur lífskúnstner. Það kom ekki síst í ljós þegar heilsan tók að láta undan og hún gat ekki gert allt eins og áður. Þá lét hún nýja drauma rætast. Sterkur persónuleiki og jákvæð lífssýn voru þar í öndvegi sem mætti vera okkur öllum til eftirbreytni.

Síðast en ekki síst var hún afburða skemmtileg og það var aldrei leiðinlegt í návist Siggu. Lífsgleðin og húmorinn voru ríkjandi.

Við söknum einstakrar vinkonu og lífið er tómlegt án hennar.

Við vottum börnum hennar Sunnu, Drífu og Ögmundi, systrum hennar og fjölskyldu allri djúpa samúð.

Megi minningin um ógleymanlega konu lifa.

Guðríður Guðmundsdóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir.

Sigga Stef. var einhvern veginn ekki miðlungs í neinu. Hún var lágvaxin en stór í hugsun og stórvel gefin. Hún var hugmyndarík, sagði skemmtilega frá, með afbrigðum minnug og stríðin. Sumir sögðu hana ráðríka. Aðrir töldu hana ákveðna. Í pólitík var hún alltaf til vinstri. Ekki til vinstri eins og flestir í hópnum voru. Nei, hún var alltaf lengst til vinstri eins og hún átti ættir til.

Sigga Stef. flutti í Kópavoginn þegar við vorum þar í landsprófsbekknum. Hún kláraði sitt landspróf í höfuðborginni en varð hluti af Kópavogshópnum þegar Menntaskólinn við Hamrahlíð var stofnaður haustið 1966 og stjórnendur skólans urðu við beiðni Kópavogsbúanna um inngöngu. Í MH nutum við kennslu afburðakennara eins og Guðmundar Arnlaugssonar, Jóns Böðvarssonar og Vigdísar Finnbogadóttur svo nokkrir séu nefndir.

Í nýjum skóla þótti róttæk lífsskoðun nánast sjálfgefin. Og auðvitað var Sigga Stef. róttækust allra. Í þessu umhverfi blómstraði hún. Ekki bara í pólitíkinni heldur líka sem félagsvera á göngum skólans. Hvellur hláturinn heyrðist um allt. Besta leiðin til að finna drottninguna var að nota eyrun og leggja við hlustir.

Vinahópurinn úr Kópavoginum sundraðist eftir útskriftina frá MH og menn fóru hver í sína áttina. Bönd menntaskólaáranna eru samt ótrúlega sterk. Sigga fór í nám til Svíþjóðar og bjó þar ásamt eiginmanni sínum Jóni Snædal skólabróður okkar úr MH. Þau eignuðust Sunnu, Drífu og Ögmund sem öll eru myndarfólk. Eftir heimkomu og skilnað flutti hún um tíma í Fjarðabyggð en lengst af starfaði hún og bjó í Reykjavík. Tengslin við skólafélagana úr MH rofnuðu aldrei og voru sem fyrr uppspretta skemmtunar, gleði og rökræðu. Rökræðu sem aldrei leiddi til sameiginlegrar niðurstöðu.

Menningunni var líka sinnt og seinni árin fór Sigga með vinahópi úr MH í aðventuferðir til heimsborga þar sem farið var á a.m.k. eina óperu í hverri ferð. Berlín, London, Madrid, New York, Prag og Róm. Og svo heimsóttum við Færeyjar í ógleymanlegri ferð.

Heilsu Siggu hrakaði síðustu árin og meinið sem hrjáði hana hafði að lokum betur. Við kveðjum kæra vinkonu.

Hennar verður sárt saknað.

Margrét Geirsdóttir,
Ari Ólafsson,
Gestur Jónsson.