Ragnar Hauksson fæddist í Vestmannaeyjum 22. mars 1962. Hann lést á Landspítalanum 31. desember 2023.

Foreldrar Ragnars eru Haukur Sigurðsson, f. 11. desember 1934 í Vestmannaeyjum, og Úrsúla Barbel Regine Thiesen, f. 20. júlí 1937, í Þýskalandi. Systkini Ragnars eru Ágúst Friðrik Hauksson, f. 11. september 1960, og Anna Lísa Thiesen Hauksdóttir, f. 7. október 1971.

Ragnar kvæntist í Hafnarfjarðarkirkju árið 1999 Mörtu Ruth Guðlaugsdóttur, dansara og danskennara, f. 23. júlí 1971. Börn þeirra eru: 1) Mikael Jafet, f. 19. september 1998, 2) Stefanía Konráð, f. 19. september 2002, og 3) Enok Kristinn, f. 24. október 2004.

Ragnar flutti ungur með foreldrum sínum frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur og gekk í Vogaskóla. Ragnar var við nám í Myndlista- og handíðaskólanum um skeið, enda komu listrænir hæfileikar hans snemma í ljós. Ragnar var hæfileikaríkur myndlistarmaður og smiður af guðs náð og góður handverksmaður við allt sem hann tók sér fyrir hendur, hvort sem það var húsasmíði, járnsmíði, leðuriðja eða myndlist. Hann lærði húðflúrlistina hjá Helga Aðalsteinssyni (Helga tattoo) og opnaði húðflúrstofu á Selfossi árið 2006 sem hann starfrækti í 10 ár, eða þar til hann flutti til Reykjavíkur og kom stofunni fyrir í stærra og betra húsnæði. Ragnar vann við húðflúrun þar til hann þurfti að taka sér hlé vegna veikinda og varð síðan að loka stofunni er hann hélt til Svíþjóðar í stofnfrumuskipti. Ragnar vildi ekki sitja auðum höndum og síðustu mánuðina hannaði hann og handgerði hágæðaleðurbelti og aðra muni úr leðri.

Útför Ragnars verður gerð frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 11. janúar 2024, klukkan 15.

Ég kynntist Ragnari fyrir tæpum þremur áratugum þegar þau Marta Ruth Guðlaugsdóttir, systurdóttir mín, felldu hugi saman og gengu síðar í hjónaband. Ragnar kom mér strax fyrir sjónir sem ákveðinn, frakkur og skemmtilegur ungur maður. Mér er minnisstætt þegar augasteinar þeirra Mörtu og Ragnars, Mikael Jafet, Stefanía Konráð og Enok Kristinn, fæddust hver á fætur öðrum hve systir mín, Guðlaug Konráðsdóttir (Gulla) amma barna Ragnars og Mörtu, var stolt af barnabörnum sínum. Sigtryggur eiginmaður Gullu gekk börnunum í afastað frá því hann kom inn í fjölskylduna og þau áttu sínar fallegu samverustundir hjá ömmu Gullu og afa Sigtryggi í Barmahlíðinni. Ég tók snemma eftir því hversu handlaginn og útsjónarsamur Ragnar var við smíðar og viðgerðir, hvort sem var á timbur, járn, stál, leður eða hvers kyns efnivið. Það lék allt í höndunum á þessum þúsundþjalasmiði. Ljóst var að þarna fór mikill listamaður, enda kom það berlega í ljós þegar Ragnar stofnaði húðflúrsstofu og bauð upp á flókin og listræn flúr af þeim toga sem ég hafði aldrei áður séð, enda varð hann strax vinsæll og eftirsóttur flúrari. Fjölmargir sóttust eftir listrænu handbragði Ragnars, bæði Íslendingar og erlendir borgarar sem gerðu sér ferð til Íslands til að fá flúr hjá meistaranum.

Ragnar veiktist af alvarlegum sjúkdómi fyrir nokkrum árum og langvinn barátta við þann vágest hófst. Ragnar sýndi mikið æðruleysi á þessari vegferð og Marta Ruth stóð þétt við hlið eiginmanns síns allan þann tíma og setti sig djúpt inn í sjúkdómseinkenni, lyfjagjöf, meðferðarúrræði og töluleg sjúkdómsgögn um þróun og batahorfur, allt í nánu samstarfi við lækna og hjúkrunarfræðinga Landspítalans. Raunar hef ég vart orðið vitni að annarri eins elju ástvinar til stuðnings lífsförunauti sínum við að leita leiða til bjargráða meðan nokkur von var fyrir hendi og allt til enda. Í þessari baráttu naut Marta Ruth órofa stuðnings barna þeirra hjóna og ástvina.

Með trega kveð ég Ragnar Hauksson og votta Mörtu, Mikael, Stefaníu og Enoki og fjölskyldu innilega samúð við fráfall eiginmanns, föður, bróður og sonar.

Sverrir Hans
Konráðsson.