Hjörtur J. Guðmundsson
Hjörtur J. Guðmundsson
Formlegt vægi ríkja innan Evrópusambandsins fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra.

Hjörtur J. Guðmundsson

Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði formlegt vægi landsins, og þar með möguleikar Íslendinga til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku í þeim stofnunum sambandsins þar sem ríki þess eiga fulltrúa, í langflestum tilfellum á við það að hafa einungis hálfan þingmann á Alþingi. Þar á meðal og ekki sízt þegar ákvarðanir væru teknar um mjög mikilvæg íslenzk hagsmunamál eins og sjávarútvegsmál og orkumál.

Hið ágætasta tilefni til þess að rifja þessa staðreynd upp, sem eðli málsins samkvæmt er algert grundvallaratriði þegar kemur að umræðu um það hvort innganga í Evrópusambandið telst fýsileg eða ekki, kom með skrifum Róberts Spanó lagaprófessors í Morgunblaðið á dögunum þar sem hann talaði meðal annars fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið í þeim tilgangi að hafa áhrif á lagasetningu sambandsins.

Formlegt vægi ríkja innan Evrópusambandsins fer þannig fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana sambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess á einhverjum tímapunkti að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það sem allajafna yrði aðeins 0,08%.

Fjölmennustu ríkin með tögl og hagldir

Langflestar ákvarðanir í ráðherraráði Evrópusambandsins eru háðar því að 55% ríkjanna standi að baki þeim með 65% íbúa sambandsins en fjögur stærstu ríki Evrópusambandsins, Þýzkaland, Frakkland, Ítalía og Spánn, hafa 58% íbúanna á bak við sig. Jafnvel þótt öll hin ríkin 23 tækju sig saman þyrftu þau engu að síður að minnsta kosti eitt af stærstu ríkjunum fjórum í lið með sér til þess að hægt væri að taka ákvarðanir.

Viðmiðið er að sama skapi fyrst og fremst íbúafjöldi ríkjanna í tilfelli þings Evrópusambandsins. Þannig hefur Þýzkaland til að mynda 96 þingmenn af yfir 700 en til samanburðar hefði Ísland sex þingmenn innan þess. Í atkvæðagreiðslum í þinginu gildir einfaldlega meirihlutinn. Ljóst er að vægi fulltrúa Íslands yrði aðeins dropi í hafið við slíkar aðstæður og margfalt minna en fámennasti þingflokkurinn hefur á Alþingi.

Hvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins varðar eiga ríki ekki eiginlega fulltrúa í henni eins og stundum hefur verið haldið fram. Hið rétta er að þótt ríkin tilnefni einn fulltrúa hvert er tekið skýrt fram í Lissabon-sáttmála sambandsins að þeim sé óheimilt að draga taum heimaríkja sinna. Með öðrum orðum gæti Íslendingur sem sæti ætti í framkvæmdastjórninni ljóslega engan veginn talizt málsvari íslenzkra hagsmuna.

Versnandi staða fámennustu ríkjanna

Vaxandi áherzla á það að vægi ríkja Evrópusambandsins taki mið af íbúafjölda þeirra hefur eðli málsins samkvæmt komið sér verst fyrir fámennustu ríkin. Eldra fyrirkomulag í ráðherraráðinu fól í sér mun meira vægi þeirra en nú er þótt það hafi engu að síður verið hverfandi. Þá var einróma samþykki áður almenna reglan innan ráðsins en heyrir nú í raun til undantekninga og nær hvorki til sjávarútvegs- né orkumála.

Fram kemur í grein Róberts að Ísland sé þiggjandi regluverks í gegnum EES-samninginn án þess að taka beinan þátt í mótun þess. Spyr hann hvort við Íslendingar stjórnum „í reynd vegferð okkar við þessar aðstæður?“ Værum við hins vegar í raun við stjórnvölinn í þeim efnum innan Evrópusambandsins þar sem svo gott sem öll okkar mál væru undir, þar á meðal sjávarútvegurinn, og vægi okkar tæki almennt mið af íbúafjölda landsins?

Með inngöngu í Evrópusambandið væri einfaldlega farið úr öskunni í eldinn. Á hinn bóginn væri um að ræða stórt skref í rétta átt í þessu sambandi að skipta EES-samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning eins og ríki heimsins kjósa alla jafna að semja um í dag. Líkt og við gerðum í tilfelli Bretlands, annars stærsta viðskiptalands okkar, án þess að nokkuð færi á hliðina og án þess að vera þiggjendur regluverks.

Höfundur er sagnfræðingur og MA í alþjóðasamskiptum.

Höf.: Hjörtur J. Guðmundsson