Dreifing Bréfpokar eru ekki lengur fáanlegir á stöndum í matvörubúðum.
Dreifing Bréfpokar eru ekki lengur fáanlegir á stöndum í matvörubúðum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Tilkynning Sorpu um að fyrirkomulagi dreifingar á bréfpokum til flokkunar á matarleifum verði breytt á sér nokkurn aðdraganda. Á þriðjudag var kynnt að pokarnir yrðu nú aðgengilegir á endurvinnslustöðvum Sorpu og í Góða hirðinum í stað matvöruverslana áður. Þessi breyting var kynnt og rædd í stjórn Sorpu að morgni þriðjudags.

Fram til þessa hafa neytendur á höfuðborgarsvæðinu getað nálgast bréfpokana í sérútbúnum stöndum í matvöruverslunum. Almenn ánægja virðist hafa verið með það fyrirkomulag, svo mikil reyndar að margir hafa hamstrað pokana. Sorpa gefur einmitt upp þá ástæðu fyrir þessum breytingum að kostnaður hafi ekki lengur verið verjandi með tilliti til hömstrunar á pokunum.

Vildu dreifinguna áfram

Þegar nýtt flokkunarkerfi var innleitt í fyrra voru keyptar 20 milljónir bréfpoka. Helmingnum var dreift samhliða innleiðingu kerfisins en hinum helmingnum var svo dreift í matvöruverslunum. Þegar líða tók á árið kláruðust pokarnir enda höfðu sögusagnir verið á kreiki um að til stæði að hefja gjaldtöku fyrir notkun þeirra. Forsvarsmenn Sorpu neituðu því að til stæði að rukka fyrir pokana og boðuðu að ráðist yrði í útboð á kaupum á 20 milljónum poka til viðbótar yfir tveggja ára tímabil með möguleika á að kaupa 30 milljónir poka til viðbótar. Eftir að Morgunblaðið sagði fréttir af þessum vendingum í desemberbyrjun á síðasta ári fóru í gang viðræður milli Sorpu og forvarsmanna matvöruverslana um framhald dreifingarinnar. Á þessum fundum kom skýrt fram að verslunareigendur voru tilbúnir að halda dreifingunni áfram. Verslanirnar tóku ekkert gjald fyrir að finna pokunum besta stað beint fyrir aftan afgreiðslukassana. Þær tóku á móti heilum gámum frá Sorpu, tæmdu gámana, komu pokunum fyrir á lager, tóku til pantanir einstakra búða og keyrðu pokana í verslanir. Þrátt fyrir þetta afþakkaði Sorpa þeirra framlag og ákvað að flytja afgreiðslu pokana á endurvinnslustöðvar. Rétt er að geta þess að sex endurvinnslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu en pokarnir voru áður afgreiddir í fjölda stórra matvöruverslana. Í samskiptum forsvarsmanna verslana og Sorpu kom fram að íbúar muni geta nálgast pokana gjaldfrjálst á endurvinnslustöðum út þetta ár. Það passar ekki við fyrri yfirlýsingar fyrirtækisins um að pokarnir yrðu gjaldfrjálsir næstu tvö árin. Því virðist ljóst að íbúar á höfuðborgarsvæðinu þurfa að búa sig undir það að greiða fyrir pokana og mun það sjálfsagt ekki minnka hömstrun í ár. Gunnar Dofri Ólafsson, samskiptastjóri Sorpu, svaraði ekki fyrirspurn Morgunblaðsins um þetta í gær.

Gunnar sendi fjölmiðlum hins vegar langar útskýringar í gærmorgun um ástæður þess að ákveðið var að flytja afhendingu pokanna úr búðum. Segir hann að íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafi þegar sótt sér 24 milljónir bréfpoka á rúmu hálfu ári og dæmi séu um að heimili búi nú yfir birgðum sem dugi til nokkurra ára. Áætlanir Sorpu hafi ekki tekið til þess að sumt fólk myndi hamstra pokana.

Kostnaður 500 milljónir á ári

„Kostnaður við innkaup á pokunum var þannig orðinn meiri en svo að hægt væri að réttlæta áframhaldandi óbreytta dreifingu. Hver poki kostar íbúa tæpar 10 krónur auk virðisaukaskatts í innkaupum fyrir Sorpu og sveitarfélög. Kostnaður við þá poka sem íbúar sóttu sér á tímabilinu júní til desember á síðasta ári var því um 240 milljónir króna og ekkert sem benti til þess að búið væri að seðja hungur íbúa í bréfpoka, þar sem ekkert hægðist á eftirspurn, þrátt fyrir að það magn sem þegar hefur verið dreift ætti að endast höfuðborgarsvæðinu öllu langleiðina út þetta ár,“ segir í útskýringum Gunnars.

Hann segir jafnframt að með óbreyttri dreifingu hefði kostnaður íbúa og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við innkaup á pokum nálgast 500 milljónir á hverju ári. „Það er margfalt meiri kostnaður en gert var ráð fyrir í þessum lið verkefnisins sem er ekki fjárhagslega sjálfbært og ekki forsvaranleg nýting á fjármunum Sorpu og útsvarsgreiðenda á höfuðborgarsvæðinu og hefði að óbreyttu kallað á meiri hækkanir á gjaldskrá Sorpu.“

Ósáttur við notkun fólks

Þá lýsir Gunnar jafnframt óánægju með það hvernig almenningur hefur umgengist pokana. Segir hann að í ljós hafi komið að bæði fólk og stofnanir hafi nýtt pokana í öðrum tilgangi en þeir voru ætlaðir. „Styttur, glös og annað smálegt kom til að mynda innpakkað í poka undir matarleifar í gám Góða hirðisins, og skólar og leikskólar á höfuðborgarsvæðinu nýttu pokana í jólaföndur. Sorpa og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta erfiðlega réttlætt að tryggja íbúum poka endurgjaldslaust með því mikla aðgengi sem verið hefur þegar umgengni um þá er ekki betri en raun ber vitni,“ segir samskiptastjórinn.

Rándýr endurvinnsla

  • 20 milljónir bréfpoka voru keyptar þegar nýtt flokkunarkerfi var innleitt í fyrra.
  • Sorpa staðhæfði að ekki stæði til að rukka fyrir pokana næstu tvö ár og pantaði aðrar 20 milljónir poka.
  • Síðla árs afþakkaði Sorpa ókeypis dreifingu í matvörubúðum og hefur fært dreifinguna á endurvinnslustöðvar og í Góða hirðinn.
  • Útlit er fyrir að pokarnir verði nú aðeins ókeypis út þetta ár.