Petrea Gróa Finnbogadóttir fæddist á Hellissandi 10. júní 1931. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 25. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Sigríður Kristinsdóttir húsfreyja og Finnbogi Kristjánsson sjómaður.

Eiginmaður Petu var Ólafur Guðmundsson, f. 1.11. 1927, d. 21.7. 2002. Peta og Óli bjuggu lengst af í Bröttukinn 27 í Hafnarfirði. Peta og Ólafur eignuðust sjö börn. Afkomendur Petreu og Ólafs eru alls 61 og eru 60 enn á lífi.

1) Sigríður, f. 1951, eiginmaður Pálmi Larsen. 2) Sæbjörg, f. 1952, eiginmaður Gunnar Pétur Pétursson, d. 23.8. 2016. 3) Kristján Finnbogi, f. 1953, eiginkona Jóna Hjördís Sigurðardóttir. 4) Júlíana, f. 1955. 5) Alda, f. 4. maí 1959, lést af slysförum 26. júlí 1960. 6) Ólafur Fjalar, f. 1962, eiginkona Frigg Þorvaldsdóttir. 7) Guðmundur Jóhannes, f. 1965, eiginkona Eyrún Gísladóttir.

Petrea, eða Peta eins og hún var alltaf kölluð, sleit barnsskónum á Hellissandi ásamt systkinum sínum tveimur, Finnboga sem lést ungur að árum og Kristjönu sem einnig er nú látin. Peta flutti ung að árum til Reykjavíkur, eða árið 1945, og hóf vistarstörf hjá Björgu Ásgeirsdóttur í Reykjavík, Björg var dóttir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Sambandið á milli Petu og Bjargar var ávallt náið og heimsóknir Bjargar í Hafnarfjörðinn voru tíðar eftir að vistinni lauk. Peta gerðist húsfreyja í Hafnarfirði og hóf störf hjá fiskvinnslunni Sjóla þegar yngstu börnin voru komin á skólaaldur.

Peta flutti nokkrum árum eftir andlát Ólafs á Sólvangsveg 3 í Hafnarfirði og þaðan á Hrafnistu þar sem hún dvaldi til dauðadags.

Útför Petu fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 11. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku amma, aðfaranótt jóladags kvaddir þú þennan heim. Elsku afi, sem var svo mikið jólabarn, hefur ákveðið að sækja þig á þessum degi og þótt það hafi verið erfitt að kveðja þig elsku amma þá hlýnar mér um hjartarætur vitandi að nú ertu komin í sumarlandið til afa og Öldu. Síðustu dagana þína þegar þú varst sem veikust þá hugsaði ég svo mikið til þín og rifjaði upp margar yndislegar minningar sem ég átti um þig. Minnisstæðustu minningarnar eru frá jólunum þegar allir ættingjarnir hittust heima hjá þér og afa í Bröttukinn á aðfangadagskvöld, þar var alltaf líf og fjör og það var alltaf hlaðborð með alls konar kræsingum sem þú varst búin að baka, mitt uppáhald var ljúffenga perutertan þín, flatkökur með hangikjöti og allar smákökurnar sem þú bakaðir, allt sem þú bakaðir eða eldaðir gerðir þú svo extra vel. Rétt fyrir jólin fékk ég líka oft heiðurinn af því að skrifa á jólakort fyrir þig og í þá daga voru ekki farsímar þar sem maður gat farið á netið til að finna heimilisföng hjá fólki heldur þurfti maður að fletta símaskrá til að finna heimilisföng, já mjög sérstakur og fallegur tími.

Það var alltaf svo gaman að koma í fallega kotið ykkar í Bröttukinn enda man ég að ég heimsótti ykkur afa reglulega því þar var gott að vera, svo mikil hlýja og kærleikur, þú varst alltaf svo ljúf og góð og aldrei fór ég svöng heim því þar var alltaf eitthvað á boðstólum. Þegar þú bjóst á Sólvangsvegi kom ég reglulega til þín og ég fékk að setja í þig rúllur og lakka neglurnar og við hlustuðum á Ellý eða Hauk Morthens. Mér fannst svo yndislegt að vera hjá þér elsku amma, svo mikil hlýja og kærleikur og þú varst alltaf svo þakklát fyrir allt sem ég gerði fyrir þig. Í hvert sinn sem þú kvaddir okkur þá labbaðir þú alltaf með okkur fram og veifaðir okkur svo í glugganum, þú varst svo mikið yndi.

Elsku amma, þú varst fallegasta sál sem ég þekkti. Þú máttir aldrei neitt aumt sjá, þá varstu mætt að rétta hjálparhönd, enda höfðu allir sem þekktu þig bara allt gott um þig að segja enda ekki annað hægt því þú varst vinur allra og þoldir ekki illt umtal. Elsku amma, þú varst hörkudugleg kona bæði í vinnu og heima fyrir og eftir að afi dó þá fórstu allt fótgangandi því þú vildir aldrei láta neitt fyrir þér hafa, þú varst vön að bjarga þér sjálf.

Hjarta mitt er í þúsund molum en ég er samt svo þakklát fyrir að hafa fengið að eyða síðasta augnablikinu þínu með þér, haldið í hönd þína og hlustað á Ellý með þér sem var ein af þínum uppáhaldssöngkonum. Einn daginn munum við sameinast á ný en þangað til hafðu það gott í sumarlandinu með afa og Öldu, elska þig endalaust mikið.

„Erfitt er, amma mín, án þín að vera. Ég sakna þín svo mikið, að í sorginni veit ei hvað ég á af mér að gera. Kærleikur til þín streymir úr mínu klökka hjarta, sem kveður með trega og tárum, en von um framtíð bjarta.“

Þitt barnabarn,

Hafdís.

Elsku amma Peta.

Nú ertu farin í draumalandið til afa Óla, Öldu dóttur þinnar og allra hinna.

Ég er nokkuð viss um að afi og Alda tóku vel á móti þér.

Þegar ég hugsa til baka og til allra minninganna sem ég á um þig sem barn þá sitja jólin mjög sterkt í hjarta mínu. Jólin voru tími ykkar afa, þið voruð mikil jólabörn og sáuð um að sameina fjölskylduna á aðfangadagskvöld heima hjá ykkur í Bröttukinn.

Amma Peta bakaði og bakaði og sá til þess að það yrði nóg til fyrir alla þetta kvöld, perukakan hennar ömmu er alltaf í uppáhaldi.

Afi og amma skreyttu allt húsið innan sem utan fyrir jólin og það var alltaf mikil tilhlökkun að koma til þeirra á aðfangadagskvöld eftir að við vorum búin að borða jólamatinn og opna pakkana.

Þegar ég varð eldri þá var það ákveðin hefð að koma til þeirra og hjálpa þeim að pakka inn jólagjöfum og skrifa á jólakort, það var ákveðin jólastemning sem fylgdi því. Maður eyddi mörgum tímum í að fletta upp í símaskránni til að athuga hvar hin og þessi bjuggu, þá var ekkert farið á netið og flett upp, það var bara gamla góða símaskráin.

Hjá ömmu var alltaf til nóg að borða og alltaf séð til þess að maður færi nú ekki frá þeim svangur.

Yngstu börnin áttu sinn stað í eldhúsinu; uppi á borði á eldhúsinnréttingunni í einu horninu, amma stóð þar við og mataði mann með alls konar gúmmelaði og þar fékk maður líka að fylgjast með ömmu brasa í eldhúsinu, baka vöfflur, hræra í búðing og alls konar, maturinn hjá ömmu var alltaf bestur.

Amma Peta var engin venjuleg kona, hún var með hjarta úr gulli og kom alltaf vel fram við alla. Amma reifst aldrei við neinn, hún var allra.

Ef amma vissi um einhvern sem var veikur eða átti erfitt þá var hún mjög dugleg að hringja upp í Klaustur og láta biðja fyrir viðkomandi.

Mín fyrsta minning af ömmu Petu er þegar ég var fjögurra eða fimm ára og bjó á Hlíðarbraut í Hafnarfirði. Þegar amma og afi komu í heimsókn fengum við Haddý systir mjög oft 50 krónur (brúnn bréfpeningur) og við vorum ekki lengi að hlaupa út í Bryndísarsjoppu og kaupa okkur nammi. Amma kom færandi hendi, hvort sem það var peningur fyrir nammi eða eitthvað matarkyns, það var alltaf eitthvað.

Amma Peta gekk í gegnum alls konar á lífsleiðinni, hún upplifði nokkur gríðarlega erfið áföll, mikla fátækt, kom sjö börnum í heiminn og vann mjög mikið til að sjá fyrir sér og sínu fólki. Allt þetta erfiði gerði hana að þeim sterka einstaklingi sem hún var, hún var algjör dugnaðarforkur og algjör hetja.

Amma átti nú líka mjög gott og hamingjuríkt líf, hún var umvafin fólki sem elskaði hana út af lífinu og svo auðvitað afi Óli, hann passaði upp á sína konu, þau tvö voru eitt, þau voru alltaf saman og gerðu allt saman og elskuðu hvort annað mjög mikið.

Elsku amma mín, ég á svo ótal margar minningar um þig sem ég mun aldrei koma í eina minningargrein, en ég mun geyma allar þessar minningar í hjarta mínu og vera duglega að deila þeim með börnunum mínum og fólkinu mínu.

Ég mun halda áfram að bera nafn þitt með stolti.

Elsku amma Peta, þangað til næst,

Petrea Dögg
Ríkarðsdóttir.

Elsku amma mín. Það voru erfiðir seinustu dagarnir þegar við vorum að kveðja þig, amma mín, og þessi stóra fjölskylda sem þú átt kom saman til að kveðja þig og fylgja þér seinustu skrefin.

Stelpurnar mínar komu til þín rétt áður en þú veiktist og það var ótrúlega gott að hitta þig og eiga yndislegt spjall við þig um heima og geima.

Það var alltaf svo ótrúlega gott að koma í heimsókn til þín, hvort sem það var á Bröttukinnina þar sem öll stórfjölskyldan safnaðist saman á jólunum í þessu litla krúttlega húsi ykkar hjóna, eða á Sólvangsveginn þar sem þitt fyrsta verk var alltaf að labba beint inn í matarbúrið að sækja veitingar enda mikill gestgjafi.

En núna ertu komin í faðm afa Óla og Öldu þinnar sem taka vel á móti þér.

Það er mikill söknuður að þér, amma mín, en við gleymum þér aldrei, heldur geymum þig í hjarta okkar að eilífu.

Kveðjum þig með þessu ljóði eftir hana Ingibjörgu Sigurðardóttur:

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Kveðja,

Ásmundur,
Bríana Birta,
Klara Kristý.

Elsku amma Peta mín.

Það er táknrænt að þú hafir farið í sumarlandið á sjálfa jóladagsnótt. Ég man hvað það var gaman og hlýlegt að koma alltaf til ykkar afa á Bröttukinnina á jólunum í kökur og með því. Þú og afi voruð mikil jólabörn.

Þú varst yndislegasta amma sem hægt er að hugsa sér. Svo full af kærleik, umhyggju og ást fyrir alla í kringum þig. Einstaklega sterk og dugleg. Passaðir alltaf að enginn væri svangur eða væri kalt.

Dagana áður en þú fórst streymdu yfir mig allar góðu minningarnar með þér. Yndislegu tímarnir á Bröttukinninni. Stundirnar þegar þú varst flutt á Sólvanginn og ég kom við á hjólinu eftir fótboltaæfingar í smá ömmumat og við hlustuðum á útvarpið saman. Það hafa líka líklegast allir sem þekkja þig séð þig á göngu með göngugrindina í Hafnarfjarðarbæ þegar þú bjóst á Sólvanginum, því þótt þú færir hægt yfir, þá fórstu. Þó bjóst alltaf yfir þessu mikla sjálfstæði, sem þú helst vildir ekki minnka. Ég er einnig þakklát fyrir að hafa unnið á Hrafnistu þegar þú komst þangað og fengið að eiga oftar með þér gæðastundir, eins og að fara með þér á tónlistarviðburði eða bara sitja saman yfir kaffibolla.

Elsku amma mín, það var sárt að horfa upp á þig fara síðustu daga en á sama tíma ylja ég mér við allar góðu minningarnar saman sem ég mun varðveita svo lengi sem ég lifi.

Þú varst svo elskuð og dáð. Nú ertu komin á betri stað með afa Óla og Öldu þinni. Þangað til næst, elsku amma mín.

Alda Ólafsdóttir.

hinsta kveðja

hinsta kveðja

Til minningar um mömmu

Til himnaríkis ég sendi

þér kveðju mamma mín.

Á því virðist enginn endi,

hve sárt ég sakna þín.

Þú varst mín stoð og styrkur,

þinn kraftur efldi minn hag.

Þú fældir burtu allt myrkur

með hvatningu sérhvern dag.

Nú tíminn liðið hefur,

enn samt ég sakna þín.

Dag hvern þú kraft mér gefur,

ég veit þú gætir mín.

Þín dóttir,

Júlíana.