Öll stórmót í handbolta eiga að fara fram í Þýskalandi. Um þetta vorum við sammála á sínum tíma, íslensku íþróttafréttamennirnir sem vorum á heimsmeistaramóti karla þar í landi árið 2007. Handboltinn er eflaust hvergi eins hátt skrifaður og í Þýskalandi, kannski að Íslandi undanskildu

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Öll stórmót í handbolta eiga að fara fram í Þýskalandi.

Um þetta vorum við sammála á sínum tíma, íslensku íþróttafréttamennirnir sem vorum á heimsmeistaramóti karla þar í landi árið 2007.

Handboltinn er eflaust hvergi eins hátt skrifaður og í Þýskalandi, kannski að Íslandi undanskildu.

Þar voru troðfullar hallir á öllum leikjum, og gilti þá einu hvort heimamenn voru að spila eða hvort Ísland átti leik gegn Túnis.

Alls staðar voru áhugasamir þýskir áhorfendur mættir og sáu til þess að umgjörð keppninnar var sú langbesta sem ég hafði upplifað á þeim tíma.

Mótið sjálft var líka eftirminnilegt vegna góðrar frammistöðu íslenska liðsins sem vann m.a. ótrúlegan yfirburðasigur á Frökkum og tapaði 42:41 fyrir Dönum í lygilegum leik í átta liða úrslitum.

Þar skoraði núverandi landsliðsþjálfari, Snorri Steinn Guðjónsson, 15 mörk og mátti samt sætta sig við naumt tap. Ísland endaði að lokum í sjötta sæti.

Alfreð Gíslason stýrði íslenska landsliðinu á þessu móti og nú er hann við stjórnvölinn hjá landsliði Þýskalands.

Það er ekki eins sterkt í dag og það var árið 2007 þegar það stóð uppi sem heimsmeistari en Alfreð og hans menn mæta Íslandi í milliriðli, svo framarlega sem bæði liðin komast þangað.

Þjóðverjar hófu EM á heimsmeti í áhorfendafjölda í gærkvöld og við eigum eflaust von á skemmtilegu móti. Þar hefur umgjörðin mikið að segja og á þessu Evrópumóti verður handboltinn á heimavelli.