Vilhjálmur Valdimarsson fæddist 2. mars 1926 í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lést á heimili sínu 3. janúar 2024.

Foreldrar Vilhjálms voru Valdimar Stefánsson, f. 1. ágúst 1896, d. 25. apríl 1988 og Guðrún Vilhjálmsdóttir, f. 13. febrúar 1901, d. 2. september 1935. Valdimar var þriðji í systkinahópnum og lifir Erla Valdimarsdóttir (1929) ein bróður sinn. Hin systkini Vilhjálms, voru Þráinn (1923), Hörður (1925), Stefán (1926), Ásdís (1927), Hrafnhildur (1931), Stefán Jóhann (1934), Haukur (1935) og Sverrir (1935).

Vilhjálmur flutti með fjölskyldu sinni í Garðastræti ungur að árum og þaðan á Hornbjargsvita 1932 þar sem faðir hans gerðist vitavörður. Eftir að hafa misst móður sína og tvö systkini fluttist hann í fóstur til hjónanna Haraldar Halldórssonar og Ólafíu Sigurþórsdóttur á Efri-Rauðalæk.

Vilhjálmur fór í Íþróttaskólann í Haukadal og svo í Héraðsskólann á Laugarvatni og lauk þar námi. Í janúar 1950 fluttist Vilhjálmur til Kirkjubæjarklausturs og gerðist útibússtjóri hjá Kaupfélagi Skaftfellinga. Þar starfaði hann til ársins 1971. Þar kynntist hann einnig eiginkonu sinni, Sigfríði Sigurðardóttur, f. 3. apríl 1925, d. 11. ágúst 2014.

Vilhjálmur og Sigfríður áttu sex börn, þau Sigurð, Ingu Björt, Valdimar, Hall, Guðrúnu og Vilhjálm.

Árið 1971 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, þar sem Vilhjálmur hóf skrifstofustörf hjá Olíufélaginu hf. (Esso) og starfaði þar það sem eftir var starfsævi hans, eða til ársins 1996.

Vilhjálmur bjó á Hjúkrunarheimilinu Eir síðustu æviárin.

Útför fer fram frá Háteigskirkju í dag, 11. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi minn.

Það er erfiðara en tárum taki að kveðja þig, ég veit varla hvað ég get sagt. Ég ætla bara þakka þér fyrir allt og allt.

Við höfum alltaf verið náin feðgin, hjálpast að í blíðu og stríðu og treyst hvort öðru. Þetta verður nú eitthvað skrýtið án þín, pabbi.

Þú varst ekki maður margra orða. Ég man til dæmis aldrei eftir því að þú hafir talað illa um neinn, þú leitaðir að því góða í fólki, það skipti þig máli.

Hvað þú varst góður afi, dætur mínar búa alltaf að því að hafa fengið að vera mikið með ykkur mömmu. Endalaus þolinmæði, spilað, gerðar krossgátur, farið í rannsóknarferðir í fjöruna, labbað út að Bakkatjörn þar sem krían var tjúlluð, þá bara áttu allir sitt kríuprik sér til varnar. Þú sagðir: Jæja, eigum við ekki að fara í fjöruna og athuga hvort við finnum ekki stígvél af dauðum Fransmanni! Þetta var tekið mjög alvarlega og fjaran kembd, engin fundust stígvélin en ýmislegt kom með ykkur heim, steinar, skeljar og fleira og fleira. Mömmu var nú ekki alltaf skemmt þegar stelpurnar tóku fjársjóðinn upp úr vösunum, en þú tókst fullan þátt í gleðinni.

Það er ótalmargt sem ég gæti skrifað og sagt, en minningarnar á ég í hjartanu og þær ætla ég að geyma.

Ég var lánsöm, pabbi, að eiga þig að, ég er þakklát fyrir að hafa fengið að annast þig fram að síðasta andartaki, þakklát fyrir að hafa fengið að njóta nærveru þinnar og vináttu í öll þessi ár.

Eins og ég sagði þá er erfitt að kveðja þig, ég er svo mikil pabbastelpa. Ég trúi því að þér líði vel, sért laus við veikindi og höft.

Það taka margir á móti þér í blómabrekkunni, og þú ert kominn til mömmu sem þú saknaðir mikið.

Farðu í friði, elsku pabbi.

Guð þig geymi.

Guðrún Vilhjálmsdóttir.

Í dag kveðjum við afa Villa með miklum söknuði.

Oft er sagt að enginn viti hvað átt hefur fyrr en misst hefur og ég finn svo sannarlega fyrir því í dag en á sama tíma er ég þakklátur fyrir allar stundirnar okkar, þakklátur fyrir að hafa fengið þig fyrir afa og stoltur að hafa borið sama nafn og þú.

Þegar maður saknar eru það minningarnar sem ylja og ég á ansi margar góðar með þér.

Allar fjöruferðirnar sem áttu það til að breytast í háskaför inn í kríuvarp, að fá að vaka fram eftir til að horfa á Mike Tyson og allar bústaðaferðirnar standa auðvitað upp úr.

Síðan varð ég eldri og þér var mjög umhugað um hvað ég ætlaði nú eiginlega að verða og setningin „Ætlarðu ekki örugglega að klára námið?“ kom alltaf – setning sem ómaði síðan í höfðinu á mér fram að námi loknu.

En eftir því sem maður eldist og áttar sig betur á hlutunum er það auðvitað afi sjálfur sem stendur upp úr. Því rauði þráðurinn í öllum mínum minningum tengdum þér er kærleikurinn og væntumþykjan sem þú sýndir mér. Mér fannst samband okkar einstakt og fannst eins og það gæti ekki verið að einhver ætti jafn gott samband við afa og ég átti.

En það var ekki rétt, þú lifðir fyrir fólkið þitt og við áttum öll okkar einstaka samband við þig. Og það gerði þig að einstökum manni, gæddum kostum sem ég vil gera allt til þess að tileinka mér út lífsleiðina.

Takk fyrir allt saman, afi minn.

Vilhjálmur Freyr.

Elsku besti afi minn.

Þá kom að leiðarlokum hjá okkur. Sorgin og söknuðurinn er mikill í dag, en minningarnar munu ylja mér að eilífu. Þær eru sem betur fer óteljandi, og hver annarri fallegri.

Þú varst svo stór hluti af barnæsku minni og ég varði flestum stundum hjá ykkur ömmu á Lindarbraut. Það voru forréttindi að alast upp með ykkur mér við hlið og samband okkar var einstakt. Heimili ykkar var minn griðastaður. Okkur sinnaðist aldrei og við töluðum alltaf við hvort annað með virðingu. Þú hafðir óbilandi trú á mér alla tíð, og fram á síðasta dag fannst þér allt sem ég snerti breytast í gull – eða þannig lést þú mér allavega líða.

Ég hugsa oft til þess þegar þú sóttir mig á ballettæfingar. Þú áttir það til að koma snemma til að geta fylgst aðeins með. Þú stóðst og „njósnaðir“ í litla glugganum, en varst fljótur að fela þig ef ég sá þig. Þú vildir ekki trufla, en í stórum speglasal var nú auðvelt að sjá þig. Þú mættir á allar sýningar með upptökuvélina og svo horfðum við á þetta í sameiningu úr hægindastólnum heima í stofu.

Við eyddum heilu kvöldunum í að spila á spil. Horfðum á Heilsubælið aftur og aftur og fórum í langar gönguferðir niður í fjöru. Ömmu var oft ekki skemmt, þegar við komum heim með skó og greiður sem við fundum í þanginu og vorum sannfærð um að hefðu tilheyrt frönskum sjóurum. Við hlustuðum á ljóð Tómasar Guðmundssonar, púttuðum á ganginum og leystum krossgátur.

Einstaka sinnum kom það fyrir að ég stalst í símann heima á kvöldin og hringdi í þig og bað þig að koma að sækja mig. Mér hundleiddist. Mamma og pabbi vissu ekkert, fyrr en þú stóðst á þröskuldinum. „Nú, hún hringdi,“ svaraðir þú og brostir, þegar mamma spurði hvað í ósköpunum þú værir að gera hérna.

Takk – og fyrirgefðu.

Ég get haldið áfram að telja upp minningar úr æsku, en þær voru líka margar í seinni tíð.

Mest þykir mér vænt um þær stundir sem við nutum saman á Jótlandi fyrir nokkrum árum, þar sem þú heimsóttir mig síðast þegar þú varst 88 ára gamall. Við nutum sólarinnar í garðinum heima, borðuðum pitsu og fengum okkur bjór. Og þú elskaðir að fylgjast með og flissa yfir „þeim dönsku“, eins og þú kallaðir börnin mín. Þau elskuðu langafa sinn og sá litli segir að núna getir þú séð hvað við erum að gera á hverjum degi, fyrst þú ert kominn til himna.

88 ára gamall ákvaðstu líka að fyrst þú værir nú á Jótlandi þyrftir þú að fá að komast upp á Himmelbjerget. Mamma mótmælti hástöfum. En á Himmelbjerget fórum við að sjálfsögðu. Tókum mynd því til staðfestingar, svo þú gætir sýnt félögunum heima. Þetta var dásamleg heimsókn og jafnframt í síðasta skiptið sem þú treystir þér til að ferðast úr landi.

Hjartað mitt er fullt af þakklæti. Fyrir þig og okkar vináttu, fyrir allt sem þú kenndir mér. Að eiga sér stuðningsmann eins og þig í gegnum lífið er ekki sjálfsagt. Ég var og er lánsöm að hafa átt þig að.

Kysstu ömmu frá mér, ég veit hún bíður eftir þér í dragt, á lágum hælum, og nýkomin úr lagningu.

Góða nótt og Guð geym'ann.

Vera Björt afastelpa.