Vinir Hér eru þau saman á ferðalagi á Fljótsdalshéraði árið 1930, Halldór Laxness, Ingibjörg Laxness, Hrafnhildur Einarsdóttir systir hennar og Erlendur í Unuhúsi (með skegg). Við blæjubílinn, eða „Litlu gulu hænuna“.
Vinir Hér eru þau saman á ferðalagi á Fljótsdalshéraði árið 1930, Halldór Laxness, Ingibjörg Laxness, Hrafnhildur Einarsdóttir systir hennar og Erlendur í Unuhúsi (með skegg). Við blæjubílinn, eða „Litlu gulu hænuna“. — Ljósmynd/Gljúfrasteinn/Úr albúmi Ingibjargar Laxness
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unuhús er skemmtilegt dæmi um það sem á erlendu máli hefur verið kallað saloon, en þau skutu upp kolli víða um Evrópu fyrr á öldum. Þetta voru íbúðir eða hús þar sem efri stéttar fólk, ekki síst konur, voru gjarnan gestgjafar og fengu til sín listamenn og menntafólk

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Unuhús er skemmtilegt dæmi um það sem á erlendu máli hefur verið kallað saloon, en þau skutu upp kolli víða um Evrópu fyrr á öldum. Þetta voru íbúðir eða hús þar sem efri stéttar fólk, ekki síst konur, voru gjarnan gestgjafar og fengu til sín listamenn og menntafólk. Mér þykir í sjálfu sér merkilegt að frægasta húsið af þessu tagi á Íslandi sé hús fátækrar ekkju, Unu Gísladóttur, en það var reist af manni hennar árið 1896, skömmu áður en hann féll sjálfur frá,“ segir Jón Karl Helgason, bókmenntafræðingur og prófessor, sem verður með námskeið hjá Endurmenntun í vor um Unuhús, sem stendur við Garðastræti í Reykjavík. Á námskeiðinu ætlar hann að fjalla um þetta merka hús og þau áhrif sem gestir þess höfðu á íslenskt lista- og menningarlíf, einkum á fimmta áratug síðustu aldar.

„Una missti frá sér fjögur ung börn og átti aðeins einn son sem lifði hana sjálfa, Erlend Guðmundsson, sem ævinlega var kenndur við húsið. Unuhús varð einhverskonar miðstöð og dýrmætt athvarf ótrúlega margra listamanna í þrjátíu ár, allt frá Stefáni frá Hvítadal til Nínu Tryggvadóttur. Auk þeirra voru þarna fastagestir þau Inga og Halldór Laxness, Páll Ísólfsson, Þórbergur Þórðarson og Margrét kona hans, Steinn Steinarr, Þorvaldur Skúlason, Louisa Matthíasdóttir, svo nokkur þekkt nöfn séu nefnd. Á námskeiðinu langar mig að skoða þennan hóp sem safnaðist saman í kringum þau mæðgin, Unu og Erlend, hvernig listafólkið tengist og hvernig urðu til áhugaverð verk í kringum það. Þetta eru að hluta til verk sem þetta listafólk vann að einhverju leyti innblásið af húsinu og gestahópnum, Atómstöð Halldórs Laxness er skýrasta dæmið þar um. Einnig má nefna ýmis önnur og minna þekkt verk, eins og barnabækurnar sem Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir unnu með Steini Steinarr og líka frumútgáfan af Tímanum og vatninu, sem Þorvaldur Skúlason myndskreytti.“

Leituðu til hans blankir

Jón Karl segir að á stríðsárunum hafi Unuhús orðið að merkilegu virki þeirra sem börðust gegn ofríki Jónasar frá Hriflu í menningarmálum.

„Laxness, Ragnar Jónsson í Smára, Sigurður Nordal, Steinn Steinarr og Þorvaldur voru í fararbroddi þeirra sem tóku slaginn við Jónas, en þeir áttu á þessum tíma mikla samleið með þeim Nínu og Louisu sem voru töluvert yngri. Þær voru nýkomnar úr námi í Kaupmannahöfn og París og lögðu oft leið sína í Unuhús, ekki síst Nína,“ segir Jón Karl og bætir við að hið skipulagða menningarstarf spretti að nokkru leyti upp í kringum Erlend og Ragnar.

„Erlendur verður einhverskonar bakjarl eða „patron“ einstakra listamanna. Hann var mun virkari þátttakandi á sviði bókmennta og myndlistar en margan grunar. Hann hjálpaði til dæmis Svavari Guðnasyni við að hengja upp sína fyrstu abstraktsýningu 1945 og tók þátt í að gefa sumum verkunum nöfn. Erlendur er líka maðurinn sem Steinn Steinarr og Halldór Laxness skrifa til á þriðja og fjórða áratugnum þegar þeir eru blankir í útlöndum,“ segir Jón Karl og tekur fram að Erlendur hafi átti merkan arftaka í þessu óeigingjarna starfi.

„Lærisveinn Erlendar í þessu efni var Ragnar í Smára. Hann tók við merkinu á fimmta áratugnum og fór smátt og smátt að skipuleggja sitt eigið menningarstarf, bæði með rekstri bókaforlags og seinna opnun sýningaraðstöðu sem tengdist nafni Unuhúss. Hann byggði þetta starf upphaflega upp í steinhúsi sunnan við Unuhús í Garðastræti, en þegar fram liðu stundir flutti Ragnar þessa starfsemi austur á Veghúsastíg, og hélt hann áfram á lofti Unuhússnafninu.“

Merkilegt og náið samband

Jón Karl segir að bæði Erlendur og Ragnar hafi brunnið fyrir listinni, listafólkinu og menningarlífinu.

„Þessi mikla ástríða þeirra varð nánast eins og trúarbrögð hjá þeim. Ragnar var verslunarskólanemi sem átti meðal annars smjörlíkisgerð og sápuverksmiðju. Hann tók ásamt vinum sínum í Tónlistarfélaginu þátt í að byggja Austurbæjarbíói og Tónabíói, en tilgangurinn hjá honum með öllum rekstri var alltaf að hafa skotsilfur til að efla menningarlífið og styðja listamenn,“ segir Jón Karl en honum finnist sérstaklega áhugavert skammhlaupið milli ólíkra listagreina hjá því fólki sem hittist í Unuhúsi.

„Að skoða þessa sögu er ótrúlega gefandi. Meðal þess sem þykir merkilegt er ferill Nínu og Louisu á stríðsárunum. Nína er líklega fyrsta dæmið um íslenskan kvenkyns listamann sem lætur ekki jaðarsetja sig sem konu. Nína átti ótrúlega merkilegt og náið samband við Erlend, sem styrkti hana til ferðar til Ameríku og það gerði Ragnar í Smára reyndar líka. Erlendur var með brennandi áhuga fyrir nýjustu straumum í samtímamyndlist, en um leið var hann afar praktískur maður. Hann var gjaldkeri hjá lögreglustjóraembættinu og seinna tollstjóraembættinu og líka frábær í skák. En það þurfti einmitt þennan praktíska sans í hópi þessara listamanna. Það má segja að hann og Unuhús hafi verið einhvers konar aflstöð á vettvangi menningarinnar,“ segir Jón Karl sem hefur mikinn áhuga á þeim jarðvegi sem listastarfsemin óx upp úr í Unuhúsi.

„Sögulega finnst okkur listamenn gjarnan vera einhvers konar snillingar sem verða fyrir guðlegum innblæstri, en það er í rauninni félagsskapur, vinátta, umræður um bæði pólitík og fagurfræði, sem hafa svo mikil áhrif á hvað gerist og hvers vegna. Unuhús gengur í gegnum ólík tímabil og við reynum á námskeiðinu að rekja okkur í gegnum þessa sögu. Þegar Erlendur deyr langt fyrir aldur fram 1947, þá finnur maður í umræðum þessa hóps að neistinn er horfinn. Þá er komin eyða í menningarlandslagið.“ Jón Karl tekur fram að námskeiðið verði sambland fyrirlestra, umræðna og vettvangsferða.

Nánar um námskeiðið á vefsíðunni: endurmenntun.is

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir