Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Þrenging gatnamóta Sæbrautar-Kleppsmýrarvegar er líklega hluti af þeirri stefnu meirihluta borgarstjórnar að skapa sem víðast öngþveiti í umferðinni

Kjartan Magnússon

Ófremdarástand hefur ríkt á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar um margra mánaða skeið þar sem þau anna hvorki mikilli umferð frá atvinnuhverfinu austan Sæbrautar né ört vaxandi íbúabyggð þar. Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar, að þrengja gatnamótin og fækka vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs, leiðir til mikilla tafa og hefur mjög slæmar afleiðingar fyrir umferð um þessi fjölförnu gatnamót.

Brýnt er að leiðrétta þessi mistök sem fyrst og fjölga áðurnefndum vinstribeygjuakreinum í tvær á ný. Um leið þarf að tryggja öryggi skólabarna og annarra gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut með sérstökum aðgerðum.

Umrædd gatnamót eru helsta tenging vegakerfisins við atvinnuhverfið austan Sæbrautar, sem er eitt mikilvægasta atvinnu- og þjónustuhverfi landsins. Fjöldi fólks sækir daglega atvinnu eða þjónustu til þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem þar eru starfrækt. Þar eru vinsælar byggingarvöruverslanir, verkstæði og nýsköpunarfyrirtæki svo eitthvað sé nefnt. Þar er einnig stærsta innflutningshöfn landsins ásamt vöruhúsum og vöruflutningamiðstöðvum. Fjölmennt íbúahverfi hefur að undanförnu sprottið upp í Vogabyggð, sem eykur enn á umferðina um svæðið, sem þó var mikil fyrir.

Á hverjum degi fer fjöldi vöruflutningabifreiða úr hverfinu með vörur, sem dreift er um allt höfuðborgarsvæðið og út um land. Hverfið er því mikilvægur innviður og ómissandi hlekkur í vöruflutningakerfi landsins. Svo mikilvægt atvinnuhverfi verður að vera vel tengt við stofnbrautir og þjóðvegi. Gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar eru ein helsta tenging hverfisins við vegakerfið og um þau fer stór hluti vöruinnflutnings landsmanna.

Framkvæmdir án samráðs

Í byrjun síðasta árs sáu forsvarsmenn fyrirtækja á svæðinu í fjölmiðlum að Reykjavíkurborg hygðist fækka beygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi yfir á Sæbraut úr tveimur í eina. Slíkar fyrirætlanir komu þeim mjög á óvart því umræddar tvær beygjuakreinar önnuðu vart umferð af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut, ekki síst eftir að umferð íbúa úr hinu nýja Vogahverfi bættist við.

Fyrirtækin brugðust skjótt við, höfðu samband við Reykjavíkurborg og komu því skýrt á framfæri að þrenging gatnamótanna myndi hafa mjög neikvæð áhrif á starfsemi fyrirtækjanna á svæðinu. Jafnframt var óskað eftir því að borgin hefði samráð við fyrirtækin um málið áður en ráðist yrði í framkvæmdir. Borgin hét samráði en réðst þó í þrengingu gatnamótanna í haust án samráðs og síðan hefur ríkt þar ófremdarástand.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu því til í október sl. að vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi, inn á Sæbraut til suðurs, yrði fjölgað í tvær á nýjan leik. Jafnframt yrði öryggi gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut aukið, t.d. með hnappastýrðu og/eða snjallstýrðu gangbrautarljósi. Lögðum við þannig til leiðréttingu á þeim mistökum sem voru gerð með þrengingu gatnamótanna.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar, gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, 29. nóvember sl.

Greinilegt er að vinstri meirihlutinn telur engin mistök hafa verið gerð með þrengingu gatnamóta Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar, sem leitt hefur til mikilla umferðartafa og óviðunandi tengingar heils atvinnuhverfis við vegakerfi landsins. Umrædd þrenging er því líklega hluti af þeirri skýru stefnu meirihlutans að skapa sem víðast öngþveiti í umferðinni.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.