Guðrún Sig­ríður Jóns­dótt­ir, fé­lags­ráðgjafi og fv. borgarfulltrúi, lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi sl. þriðjudag, 92 ára að aldri. Guðrún fæddist 16. júní 1931 í Vík í Mýrdal. Foreldrar hennar voru Jón Pálsson mælingafulltrúi og Jónína Magnúsdóttir húsmóðir

Guðrún Sig­ríður Jóns­dótt­ir, fé­lags­ráðgjafi og fv. borgarfulltrúi, lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi sl. þriðjudag, 92 ára að aldri.

Guðrún fæddist 16. júní 1931 í Vík í Mýrdal. Foreldrar hennar voru Jón Pálsson mælingafulltrúi og Jónína Magnúsdóttir húsmóðir.

Guðrún tók stúdentspróf frá MR 1953 og varð síðan fyrst Íslendinga til að mennta sig í félagsráðgjöf. Lauk prófi í Gautaborg 1957, var í framhaldsnámi í félagsráðgjöf í London 1973 og hóf doktorsnám í sömu fræðum við Háskólann í Sheffield 1987, varði þar doktorsritgerð árið 1992.

Guðrún starfaði sem félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg á árunum 1957-1963, hjá Sálfræðideild skóla í Reykjavík 1963-1971, Barnavinafélaginu Sumargjöf 1971-1974 og loks hjá Greiningarstöð ríkisins í eitt ár. Þá tók Guðrún til við kennslu, fyrst í Fósturskóla Íslands og var síðar kennslustjóri og kennari í félagsráðgjöf við félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1981-1991. Guðrún starfaði hjá Stígamótum 1992-1998 en hún var meðal stofnenda samtakanna.

Hún var í hópi stofnenda Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa og gegndi þar formennsku um tíma. Guðrún átti sæti í stjórnum og nefndum margs konar er tengdust hennar starfssviði. Hún var einnig meðal stofnenda Kvennaráðgjafar, Kvennaathvarfs og Samtaka kvenna á vinnumarkaði.

Guðrún var borgarfulltrúi Kvennaframboðsins í Reykjavík kjörtímabilið 1982-1986 og var í ýmsum nefndum borgarinnar, m.a. félagsmálaráði og borgarráði. Kom hún síðan að stofnun Kvennalistans 1983 og árið 1999 var hún meðal stofnenda Vinstri grænna. Þá sat Guðrún í stjórn Kvenréttindafélags Íslands sem fulltrúi VG. Hún ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og flutti fyrirlestra og erindi á ráðstefnum og í útvarpi.

Guðrún fékk fálkaorðuna árið 2007 fyrir frumherjastörf í fé­lags­ráðgjöf og fram­lag til rétt­inda­bar­áttu.

Eig­inmaður Guðrún­ar var Ólaf­ur Thorlacius lyfjafræðingur, f. 1929, en hann lést árið 2019. Eftirlifandi dóttir er Ragn­heiður Thorlacius fyrr­ver­andi héraðsdóm­ari.