EM 2022 Bjarki Már Elísson og leikmenn íslenska liðsins þakka fyrir stuðninginn eftir tap gegn Noregi í Búdapest.
EM 2022 Bjarki Már Elísson og leikmenn íslenska liðsins þakka fyrir stuðninginn eftir tap gegn Noregi í Búdapest. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
Íslenska liðið er á leið á sitt 13. Evrópumót en liðið tók fyrst þátt í lokakeppni EM árið 2000 þegar mótið fór fram í Króatíu

Ísland á EM

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska liðið er á leið á sitt 13. Evrópumót en liðið tók fyrst þátt í lokakeppni EM árið 2000 þegar mótið fór fram í Króatíu.

Ísland kom öllum á óvart á síðasta Evrópumóti sem fram fór í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar 2022 þegar liðið hafnaði í sjötta sæti eftir dramatískt tap gegn Noregi í framlengdum leik um fimma sætið í Búdepest en Guðmundur Þórður Guðmundsson hafði þá stýrt liðinu frá 2018.

Íslenska liðið lék þá í B-riðli keppninnar ásamt Hollandi, heimamönnum í Ungverjalandi og Portúgal en Ísland vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni, í fyrsta sinn á stórmóti, og fór með fullt hús stiga inn í millariðlakeppnina sem fram fór í Búdapest.

Frækinn sigur gegn Frökkum

Áður en keppni í milliriðlinum hófst greindist hver leikmaðurinn á fætur öðrum með kórónuveiruna í íslenska hópnum, leikmenn á borð við landsliðsfyrirliðann Aron Pálmarsson, Bjarka Má Elísson, Gísla Þorgeir Kristjánsson, Björgvin Pál Gústavsson, Ólaf Andrés Guðmundsson, Elvar Örn Jónsson og Arnar Frey Arnarsson svo einhverjir séu nefndir.

Liðið tapaði sínum fyrsta leik í milliriðlakeppninni fyrir Danmörku, naumlega, en Danir enduðu að lokum í þriðja sæti mótsins. Eftir það vann Ísland svo frækinn sjö marka sigur gegn Frakklandi, 29:21, en svo fylgdi eins marks tap gegn Króatíu, 23:22, og reyndist það tap dýrt þar sem íslenska liðið missti naumlega af sæti í undanúrslitunum en liðið vann 10 marka sigur gegn Svartfjallalandi í lokaleik milliriðilsins.

Margir óreyndir leikmenn fengu óvænt tækifæri á mótinu vegna kórónuveirufaraldursins og öðluðust þar með dýrmæta reynslu. Ómar Ingi Magnússon endaði sem markahæsti leikmaður mótsins og því mörg jákvæð teikn á lofti eftir síðasta Evrópumót en liðinu tókst hins vegar ekki að fylgja því eftir á HM í Svíþjóð og Póllandi í janúar 2023 þar sem Ísland hafnaði í 12. sæti.

Hópurinn verið lengi saman

Kjarninn í íslenska hópnum hefur mikið til verið sá sami frá árinu 2018 þegar Guðmundur Þórður tók við þjálfun liðsins í þriðja sinn. Hann lét hins vegar óvænt af störfum í febrúar eftir heimsmeistaramótið og Snorri Steinn Guðjónsson var ráðinn í hans stað.

Af þeim 18 leikmönnum sem voru í lokahópi Íslands fyrir HM 2023 eru 15 þeirra í lokahópnum fyrir Evrópumótið í ár. Leikmennirnir sem um ræðir eru markverðirnir Björgvin Páll Gústavsson og Viktor Gísli Hallgrímsson, hornamennirnir Bjarki Már Elísson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson, skytturnar Aron Pálmarsson, Kristján Örn Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson og leikstjórnendurnir og línumennirnir Arnar Freyr Arnarsson, Elliði Snær Viðarsson, Elvar Örn Jónsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Ýmir Örn Gíslason.

Þeir Björgvin Páll, Viktor Gísli, Arnar Freyr, Aron, Bjarki Már, Elliði Snær, Elvar Örn, Gísli Þorgeir, Janus Daði, Kristján Örn, Ómar Ingi, Sigvaldi Björn, Viggó og Ýmir Örn voru einnig í leikmannahópi Íslands á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu árið 2022 og þeir Arnar Freyr, Bjarki Már, Björgvin Páll, Elvar Örn, Gísli Þorgeir, Ómar Ingi, Sigvaldi Björn og Ýmir Örn voru líka í lokahópi Íslands á HM í Egyptalandi árið 2021.

Gengið betra á EM en HM

Íslenska liðinu hefur gengið talsvert betur á Evrópumótum en á heimsmeistaramótum í gegnum tíðina þrátt fyrir að Evrópumótið sé talið sterkara mót en heimsmeistaramótið. Bestum árangri náði íslenska liðið á Evrópumótinu 2010 í Austurríki þar sem Ísland hafnaði í þriðja sæti eftir sigur gegn Póllandi í leik um þriðja sætið í Vínarborg, 29:26.

Þeir Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson voru einu leikmennirnir í núverandi leikmannahópi Íslands sem tóku þátt í mótinu en landsliðsþjálfarinn, Snorri Steinn Guðjónsson, var einnig í leikmannahópi Íslands í Austurríki og stýrði þar sóknarleiknum. Þá var Óskar Bjarni Óskarsson einnig í þjálfarateyminu líkt og nú.

Þá hafnaði Ísland í fjórða sæti á EM 2002 í Svíþjóð þar sem liðið tapaði fyrir Danmörku í leik um þriðja sætið í Stokkhólmi, 29:22. Ísland hafnaði í fimmta sæti á EM 2014 í Danmörku þar sem liðið hafði betur gegn Póllandi, 28:27, í leik um fimmta sætið í Herning þar sem Björgvin Páll stóð á milli stanganna hjá Íslandi og Snorri Steinn skoraði átta mörk í leiknum.

Yfirlýst markmið Íslands

Yfirlýst markmið íslenska liðsins fyrir Evrópumótið í ár er að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fara í París næsta sumar en Ísland tók síðast þátt á Ólympíuleikunum í London 2012.

Undankeppni Ólympíuleikanna fer fram dagana 14.-17. mars þar sem leikið verður í þremur fjögurra liða riðlum og verða þrjú evrópsk landslið í tveimur riðlanna. Ekki hefur verið gefið út hvar keppnin muni fara fram en á Ólympíuleikunum fer handboltakeppnin fram frá 25. júlí til 11. ágúst og verður leikið í bæði París og Lille.

Eins og sakir standa eru Noregur, Spánn, Svíþjóð, Þýskaland og Ungverjaland örugg með sæti í undankeppninni eftir góða frammistöðu á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi. Þá fær Króatía sæti í undankeppni Ólympíuleikanna ef Egyptaland verður Afríkumeistari en Afríkumótið fer fram í Kaíró í Egyptalandi 17.-27. janúar. Slóvenar þurfa svo að treysta á að Egyptaland verði Afríkumeistari og að annaðhvort Danmörk, Frakkland, Spánn, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland eða Ungverjaland verði Evrópumeistari.

Tvö sæti í boði á EM

Ísland er því að berjast við Austurríki, Bosníu, Færeyjar, Georgíu, Grikkland, Holland, Norður-Makedóníu, Portúgal, Rúmeníu, Serbíu, Svartfjallaland, Sviss og Tékkland um þau tvö sæti sem verða í boði í undankeppni Ólympíuleikanna.

Danmörk og Frakkland hafa bæði tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum, Danir sem heimsmeistarar og Frakkland sem gestaþjóð Ólympíuleikanna. Þá hafa Japan og Argentína einnig tryggt sér keppnisrétt á leikunum sem Asíumeistarar og Suður-Ameríkumeistarar. Liðið sem fagnar sigri á Evrópumótinu tryggir sér einnig keppnisrétt á Ólympíuleikunum og ef Danmörk eða Frakkland verða Evrópumeistarar fer liðið sem endar í sætinu á eftir þeim til Frakklands.