Fyrirliði Aron Pálmarsson á að baki 169 landsleiki fyrir Ísland þar sem hann hefur skorað 647 mörk en hann leikur með FH í úrvalsdeildinni.
Fyrirliði Aron Pálmarsson á að baki 169 landsleiki fyrir Ísland þar sem hann hefur skorað 647 mörk en hann leikur með FH í úrvalsdeildinni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Þetta mót leggst virkilega vel í mig og ég hef sjaldan verið jafn spenntur fyrir stórmóti,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson í samtali við Morgunblaðið. „Ég er í góðu standi og hef fengið að halda mínu striki, hvað æfingar varðar, með landsliðinu sem er mjög jákvætt

Fyrirliðinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þetta mót leggst virkilega vel í mig og ég hef sjaldan verið jafn spenntur fyrir stórmóti,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson í samtali við Morgunblaðið.

„Ég er í góðu standi og hef fengið að halda mínu striki, hvað æfingar varðar, með landsliðinu sem er mjög jákvætt. Mér líður vel og ég hef mikla trú á þeim áherslubreytingum sem Snorri Steinn Guðjónsson hefur komið með inn í þetta síðan hann tók við þjálfun liðsins. Hann hefur líka mikla trú á okkur og ég er sannfærður um það að þetta sé góð blanda.

Það er svo okkar leikmannanna að sýna það á vellinum, á stóra sviðinu, þegar þangað er komið. Undirbúningurinn hefur verið mjög góður, bæði fyrir þetta mót og eins þegar við komum saman í nóvember fyrir vináttulandsleikina gegn Færeyjum. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu öllu saman og er virkilega spenntur að hefja leik,“ sagði Aron.

Lítil skref til að byrja með

Snorri Steinn tók við þjálfun íslenska liðsins síðasta sumar og er strax farinn að setja mark sitt á liðið.

„Til að byrja með voru þetta lítil skref, í nóvemberglugganum, en skrefin hafa verið að stækka í undirbúningi okkar fyrir EM ef svo má segja. Það er nú einu sinni þannig að þú gjörbreytir ekkert leik liðs bara einn tveir og bingó og ég tala nú ekki um þegar þú ert landsliðsþálfari og hefur ennþá styttri tíma með leikmönnunum en þjálfarar hjá félagsliðum sem dæmi.

Mér finnst Snorri samt hafa komið inn með þónokkrar breytingar á stuttum tíma og þetta eru breytingar sem ná yfir öll svið handboltans ef svo má segja. Ég kann vel við þessar breytingar sem hann er að koma með og mér finnst þær henta liðinu mjög vel. Það er mitt mat að þessar breytingar eigi eftir að gera okkur minna fyrirsjáanlega.“

Meira flæði í sókninni

En hverjar hafa helstu áherslubreytingarnar verið?

„Í sóknarleiknum vorum við gjarnir á það að fara fullgeyst í allar sóknir, það er að segja við vorum mikið í því að reyna að ljúka öllum sóknum í fyrstu aðgerðum kerfanna sem spilum. Núna erum við búnir að ná upp meira flæði og þó við séum vissulega með marga leikmenn sem eru mjög sterkir maður á mann þá þarf ekki alltaf að spila 20 sekúndna sóknir.

Varnarleikurinn hefur líka breyst mikið finnst mér. Við erum ekki alveg jafn grimmir og við vorum, að því leytinu til að við erum ekki endalaust að stíga út í sóknarmennina. Hans einkenni er svo að hlaupa mikið og hlaupa hratt, sem við erum að gera, og það er að mínu mati skemmtilegast að spila handboltann þannig.“

Snorri smitar út frá sér

Aron hefur verið fyrirliði karlalandsliðsins frá árinu 2020 og á að baki 169 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 647 mörk en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2008.

„Hann er mjög ástríðufullur og eldmóður hans smitar gríðarlega mikið út frá sér. Auðvitað brennum við líka fyrir þetta og allt það en þú þarft alltaf þjálfara sem gerir það líka og hans ástríða gefur okkur þessi auka 10-15% sem þú þarft á að halda þegar komið er inn í þessi stórmót. Það skín algjörlega í gegn hversu mikið hann elskar þetta og hversu mikið hann vill ná árangri.

Það er ekkert kjaftæði í gangi hjá honum. Við fáum frjálsræði til þess að gera og framkvæma hlutina og ef það klikkar þá bara klikkar það. Það er ekkert verið að dvelja við einhver mistök eða neitt slíkt, það er bara áfram gakk og þannig á það að vera. Það er mjög gott að spila undir þannig þjálfara svo ég sé nú bara hreinskilinn með það.“

Vitum hvað við getum

Það voru miklar væntingar gerðar til liðsins fyrir síðasta stórmót, HM í Svíþjóð og Póllandi, en áran er önnur yfir liðinu í ár.

„Það er alltaf sama sama gamla tuggan í þessu; við vitum hvað við getum og við þykjumst líka vita hvað hin liðin geta. Við teljum það hafa verið mjög jákvætt skref að fá Snorra Stein inn í þetta sem þjálfara en það má ekki gleymast að við erum að fara inn í mjög sterkan riðil með Serbíu, Svartfjallalandi og Ungverjalandi.

Ef okkur tekst að komast upp úr riðlinum og í milliriðila, þá erum við að tala um sterkasta milliriðil í sögu EM held ég bara, líklegast með Frakklandi, Spáni og Þýskalandi. Við viljum samt vera á þessum stað og bera okkur saman við bestu lið heims. Við höfum sagt það áður að við viljum verða eitt af sex bestu landsliðum heims og ég myndi ekkert grenja það ef við náum því frekar fyrr en seinna.“

Einfaldast að vinna

Yfirlýst markmið íslenska liðsins fyrir komandi Evrópumót er að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna en til þess þarf liðið að komast áfram í milliriðla og helst enda í einu af átta efstu sætunum.

„Við þurfum að ná toppárangri á Evrópumótinu í ár ef við ætlum okkur að komast í undankeppni Ólympíuleikanna. Það er svo bara þannig á þessum stórmótum að markmiðin koma svo upp eitt af öðru, eftir því sem líður á. Maður hefur sagt það áður að fyrsti leikurinn er alltaf mikilvægastur til þess að byrja með og svo er það bara einn leikur í einu.

Þegar fyrsti leikurinn er afstaðinn þá er það bara næsti leikur og það eru engin önnur lið í þessu, sérstaklega ef horft er til mótafyrirkomulagsins þar sem þú getur velt þér endalaust upp úr einhverjum reikningsdæmum um það hvaða leiki þú þarft að vinna til að ná ákveðnu sæti. Það er einfaldast að vinna þá leiki sem maður spilar en svo er bara spurningin hvort það gengur upp.“

Gengur ekki til lengdar

Aron hefur verið óheppinn með meiðsli á undanförnum stórmótum og ekki getað beitt sér að fullu.

„Í gegnum tíðina hefur maður ekki þekkt neitt annað en að spila bara fyrsta leik og svo kemur annar leikur þar sem maður spilar líka og þú spilar í raun bara þangað til eitthvað gefur sig. Augljóslega, á síðustu tveimur, þremur mótum, þá hefur það bara sýnt sig og sannað að það gengur ekki í nútímahandbolta og á þessum stórmótum þar sem er leikið annan hvern dag.

Það engin mínúta auðveld á stórmóti og þú sérð það bara á sterkustu liðum heims að þar eru ekki fimm, sex eða sjö leikmenn sem spila allar mínúturnar. Þú verður að dreifa leikjaálaginu og Snorri Steinn er mjög meðvitaður um það. Við höfum rætt það í nokkur ár að við séum með stóran og góðan hóp og ég tel okkur þurfa að nýta það.“

Gátu ekki hreyft sig

Á hann von á því að verða í öðruvísi hlutverki á mótinu í ár?

„Það segir sig sjálft að það hentar bæði mér og liðinu betur ef ég er ekki búinn á því í seinni hálfleik í síðasta leik riðilsins. Ef við spólum aðeins aftur í tímann þá sást það mjög glögglega gegn Ungverjalandi í síðasta leik riðlakeppninnar á HM í Svíþjóð og Póllandi að á síðasta korterinu gat nánast enginn leikmaður sem var inni á vellinum hreyft sig.

Við vorum allir gjörsamlega búnir á því og þetta snýst ekki bara um mig heldur allt liðið líka. Það er ekki hægt að leggja það á leikmenn að spila alla leiki og eins og ég sagði áðan þá erum við bara með það góðan og stóran hóp að við verðum að nýta hann. Ég hef líka mjög mikla trú á öllum í liðinu, þetta eru allt strákar sem geta átt stórleik, og það er frábær tilfinning að hafa, þetta eru strákar sem geta skorað tíu mörk í leik gegn hvaða liði sem er.“

Stærsta sem þú kemst í

Eins og áður sagði er yfirlýst markmið liðsins að komast á Ólympíuleikana í París 2024 en Aron og Björgvin Páll Gústavsson eru einu leikmennirnir í hópnum í dag sem hafa leikið á Ólympíuleikum.

„Ég er það heppinn að hafa farið á eina Ólympíuleika og það er það stærsta sem þú kemst í í handboltaheiminum í dag að mínu mati. Til þess þurfum við að ná toppárangri í Þýskalandi. Ég kom inn á það áðan að það er svo alltaf hægt að setja sér ný markmið, þegar komið er inn í svona mót og ég tala nú ekki um það þegar vel gengur.

Ef möguleikinn er fyrir hendi, að komast í undanúrslitin til dæmis, þá erum við langt frá því að vera saddir þar og við ætlum ekkert að sætta okkur við undankeppniÓlympíuleikanna ef okkur gengur vel og við erum að vinna leiki. Við erum fyrst og fremst að horfa í það að ná góðum árangri og það er bara sama gamla góða klisjan, við tökum einn leik fyrir í einu,“ bætti Aron Pálmarsson við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason