Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Helst má líkja rafmynt við glópagull en á ensku er talað um „fool gold“.

Vilhjálmur Bjarnason

Það kann að vera að maður sem aldrei hefur séð hollenskan gulldúkat viti ekki hvað það er að hafa lifað. Það kemur mér í hug þegar rætt er um rafmynt en það er nýr hollenskur gulldúkat. En rafmynt er engrar þjóðar gulldúkat, heldur aðeins glópagull. Það kann einnig að vera að ekki sé til ekta gull, að allt gull sé óekta og að gull hafi verðmæti sitt af skini sólar, rétt eins og silfur hefur verðmæti sitt af húmi mánans. Rafmynt hefur ekkert skin og enga sýnd.

Helst má líkja rafmynt við glópagull en á ensku er talað um „fool gold“. „Fool“ er þýtt á íslensku sem kjáni, en í háðhvörfum er talað um glópa og glópagull.

Skyldur almannaútvarps

Það kemur fyrir að Ríkisútvarpið, sem hefur ýmsar skyldur sem almannaútvarp, ræði um og birti fregnir af efni líkt og um alvöru sé að ræða. Nokkrum sinnum hefur fulltrúi Myntkaupa komið til viðtals um rafmynt sem um alvöru verðmæti sé að ræða. Rafmynt hefur öll einkenni glópagulls og öll starfsemi tengd rafmyntaviðskiptum hefur einkenni pýramýdasvindls. Þeir, sem koma fyrstir inn í leikaraskapinn, fara út með verðmæti þeirra sem koma síðastir inn. Þetta heitir féfletting. Og almannaútvarp á ekki að taka þátt í kynningu á þess háttar féflettingu, án þess að vara við starfseminni. Rétt eins og RÚV sé auglýsingport án endurgjalds.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands á að viðhafa neytendavernd, en hefur aldrei nógsamlega varað við „rafmynt“. Landsvirkjun hefur nýlega áttað sig á að „rafmyntagröftur“ er svikastarfsemi og segist ekki selja orku til slíkrar starfsemi.

Hvað eru fjáreignir?

Peningar eru eignir sem almennt eru samþykktar til lúkningar skulda. Seðlar og mynt eru lögeyrir á tilteknu landsvæði og er skylda til að taka við seðlum og mynt viðkomandi lands til lúkningar skulda. Kann að vera að einstakir aðilar geti frábeðið sér að taka við seðlum og mynt, en taki þess í stað við greiðslukortum, til lúkningar skuldar sem stofnað er til í vörukaupum.

Fjáreignir eru núvirtar greiðslur sem af eignunum kunna að fást. Seðlar og mynt hafa enga framtíðarfjárstrauma umfram það sem nafnverð (e. face value) segir. Seðlar og mynt eru skuld tiltekins aðila, í flestum tilfellum er ríkissjóður tiltekins lands hinn endanlegi skuldari í gegnum þjóðbanka sinn, seðlabanka.

Í Bandaríkjunum heitir þjóðbankinn „Federal Reserve System“.

Það á ekki við um EURO, því hinn endanlegi skuldari EURO-seðla og -myntar er Evrópski seðlabankinn, ECB, en hann nýtur ekki ríkisábyrgðar aðildarríkja, en sennilega er sá banki of kerfislega mikilvægur til að falla.

Afborganir og vextir skuldabréfa eru núvirt og þannig fæst verðmæti skuldabréfsins. Á sama veg eru hlutabréf núvirtir framtíðarfjárstraumar af hlutabréfum, en það er einkum arður auk nafnverðs bréfanna.

Gengi

Verð á gjaldmiðli gagnvart öðrum gjaldmiðli ræðst af ýmsum þáttum, eins og fjárlagahalla og framleiðni hagkerfis. Vera kann að gengi gjaldmiðils gagnvart öðrum gjaldmiðli ráðist af huglægum þáttum sem felast í trausti og uppfylli þannig ekki skilyrði um núvirði fjárstrauma.

Gull hefur enga framtíðarfjárstrauma aðra en endursöluverð. Sennilega ræðst verð á gulli að nokkru leyti af fágæti sínu. Það eru til um 244.000 tonn af gulli. Mest af því er í eigu þjóðbanka. Bankarnir hafa gjöld af eigninni vegna geymslu en á móti kunna að koma leigutekjur, því gull er lánað til veðsetninga.

Gull hefur mjög takmarkaða þýðingu í iðnaðarframleiðslu. Það er á annan veg með kóbalt, liþíum og stál. Mestöll heimsviðskipti með gull eru vegna heimanmundar indverskra brúða.

Rafmynt kemur aldrei í stað gulls

Gull er þó rauneign en það veit ekki nokkur maður hver er hinn endanlegi skuldari rafmyntar og hvað verður af þeim verðmætum sem eru endurgjald í rafmyntakaupum.

Miðað við eigin lýsingar rafmyntakaupahéðna er ekki hægt að rekja neina slóð og það eflir ekki traust, sem er nauðsynlegt í viðskiptum. Það er því í raun alls ekki hægt að áætla verð á „rafmynt“ með aðferðum fjármálafræða.

Peningalegar eignir og griðastaðir

Það er aldrei um of minnst á peningalegar eignir, því peningalegar eignir eru forsenda lífeyris eldri borgara.

Það var þannig með Gyðinga fyrr á öldum að þeir áttu aldrei nema þriðjung eigna sinna í fasteignum. Annan þriðjung í auðseljanlegum og vaxtaberandi verðbréfum. Þriðji þriðjungurinn var laust fé. Þegar Gyðingar voru á flótta var gull ígildi lausafjár. En ókosturinn við gull er sá að það er erfitt í flutningum.

Því er það svo að þeir sem vilja eiga öruggt skjól fyrir eignir sínar leita í griðastað, (e. Safe heaven) með eignir sínar. Bandaríkin eru griðastaður. Þangað þorir enginn til árása. Á sama veg eru Sviss og Liechtenstein griðastaðir.

Ísland er ekki griðastaður. Á Íslandi er það útbreidd kenning að sparnaður annarra sé frjáls gæði hinna. Því er það eðlilegt að lífeyrissjóðir og einstaklingar eigi peningalegar og vaxtaberandi eignir á griðastöðum.

Vissulega eru flestar peningalegar eignir skráðar með rafrænum hætti, en það er vitað um skuldara samkvæmt skilmálum hinna rafrænu eigna. Einnig er vitað hvert er hið undirliggjandi hlutafélag sem á í hlut og einnig hver er starfsemi þess, ef eigandi hefur áhuga á að vita það. Rafmynt er ekki þessum kostum búin.

Það eru ekki allir jafn heppnir og Forrest Gump að kaupa hlutabréf í ávaxtafyrirtæki sem heitir APPLE, en APPLE er á allt öðru sviði og mun gróðavænlegra en eplasala og skapar mikla velmegun.

Gerbreyting eigna

Peningalegar eignir breytast frá ári til árs og eru eitt í sigri, annað í ósigri, því takmarkið með þeim er meira virði en baráttan.

Höfundur var alþingismaður og lektor í fjármálum.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason