Framkvæmdir Atvinnulausum fjölgaði í flestum atvinnugreinum.
Framkvæmdir Atvinnulausum fjölgaði í flestum atvinnugreinum. — Morgunblaðið/Eggert
Atvinnuleysi á landinu mældist 3,6% í seinasta mánuði og jókst úr 3,4% í nóvember. Það var einnig lítið eitt meira en í desembermánuði á árinu 2022 þegar það var 3,4%. Nokkur stígandi var á skráðu atvinnuleysi í hverjum mánuði á síðari helmingi nýliðins árs

Atvinnuleysi á landinu mældist 3,6% í seinasta mánuði og jókst úr 3,4% í nóvember. Það var einnig lítið eitt meira en í desembermánuði á árinu 2022 þegar það var 3,4%. Nokkur stígandi var á skráðu atvinnuleysi í hverjum mánuði á síðari helmingi nýliðins árs. Vinnumálastofnun (VMST) spáir því að atvinnuleysið gæti orðið á bilinu 3,6 til 3,8% í yfirstandandi mánuði en árstíðabundið atvinnuleysi hefur alla jafna verið mest á fyrstu mánuðum ársins og var 3,7% í janúar í fyrra.

Að jafnaði voru 6.848 einstaklingar atvinnulausir í seinasta mánuði, samkvæmt yfirliti VMST sem birt var í gær. 3.978 karlar og 2.873 konur.

Atvinnuleysi jókst í desember á flestum stöðum á landinu nema á Vestfjörðum og Austurlandi þar sem það stóð í stað. „Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í desember eða 5,6% og hækkaði úr 5,3% frá nóvember. Næstmest var atvinnuleysið 3,6% á höfuðborgarsvæðinu í desember og hækkaði úr 3,5% frá nóvember. Atvinnuleysi var 3,5% á landsbyggðinni í desember og hækkaði úr 3,2% frá nóvember.

Minnst var atvinnuleysi á Norðurlandi vestra 1,6%, á Austurlandi 2,3% og eins 2,8% á Vestfjörðum,“ segir í skýrslu VMST.

Töluvert hefur fækkað í hópi þeirra sem hafa verið án atvinnu í ár eða lengur. Þeir voru 1.127 um seinustu áramót en 1.786 í lok desember árið 2022 fækkaði því um 659 á milli ára. Á hinn bóginn fjölgaði örlítið í hópi þeirra sem höfðu verið atvinnulausir í 6 til 12 mánuði. Þeir voru 1.481 í lok desember sl. en 1.441 fyrir ári. omfr@mbl.is

Breytingar milli mánaða

  • Atvinnulausum fjölgaði í flestum atvinnugreinum í desember, mest í byggingariðnaði.
  • Atvinnulausum fækkaði lítillega í lok desember í opinberri þjónustu, farþegaflutningum með flugi og í listum.
  • Atvinnulausir erlendir ríkisborgarar eru nú um 55% af heildarfjölda á atvinnuleysisskrá.