Landsliðsæfing Þjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við Loga Geirsson og aðstoðarþjálfarann Arnór Atlason á æfingu í München í Þýskalandi.
Landsliðsæfing Þjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við Loga Geirsson og aðstoðarþjálfarann Arnór Atlason á æfingu í München í Þýskalandi. — Ljósmynd/HSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stemningin er virkilega góð og það eru allir léttir,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Ólympíuhöllinni í München í gær

Í München

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Stemningin er virkilega góð og það eru allir léttir,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Ólympíuhöllinni í München í gær.

„Við tökum létta æfingu núna og svo er það fundur eftir æfingu. Maður skynjar það aðeins núna að það er stutt í fyrsta leik og það eru allir að bíða eftir leiknum á móti Serbíu. Sjálfum líður mér mjög vel og fiðringurinn er alltaf að verða meiri og meiri sem er alls ekki óeðlilegt. Það verða alls konar tilfinningar í gangi á morgun, eins og alltaf á þessum stórmótum, og það er okkar að búa til eitthvað gott úr þeim fyrir leikinn gegn Serbunum,“ sagði Snorri Steinn.

Serbarnir með hörkulið

Snorri Steinn er á sínu fyrsta stórmóti sem þjálfari liðsins og er spenntur fyrir leiknum gegn Serbíu.

„Þessi leikur gegn Serbíu leggst virkilega vel í mig og annað væri óeðlilegt held ég. Við erum búnir að greina þá mjög vel og þetta er hörkulið, það er engin spurning.

Það er klárt mál að við þurfum að vera með kveikt á öllum perum gegn þeim, bæði í vörn og sókn. Ég hef áður sagt það að ég hef mikla trú á þessu liði og ef við náum upp okkar besta leik og erum beinskeyttir þá er ekki tilefni til neins annars en að vera bjartsýnn.“

Margt sem þarf að fara yfir

Þjálfarateymi íslenska liðsins byrjaði að kortleggja serbneska liðið milli jóla og nýárs og leikmenn mæta því vel undirbúnir til leiks í München í dag.

„Við byrjuðum að fara yfir Serbana milli jóla og nýárs, það er bara það margt í gangi hjá þeim að ég ákvað að fara þá leið.

Það er margt sem þarf að fara yfir í þeirra leik og ég hef gert það í skorpum. Margt sem við vorum að gera í vináttulandsleikjunum gegn Austurríki miðast við þennan Serbaleik.

Við munum fara stuttlega yfir þá líka á leikdegi og svo er það líka þannig að strákarnir þurfa að vera móttækilegir fyrir þeirra taktík sem við erum að leggja upp með og framkvæma hlutina almennilega, ásamt því að vera auðvitað einbeittir þegar þeir mæta til leiks.“

Hraðinn helsta vopnið

Íslenska liðið þarf að nýta sína styrkleika vel ef það ætlar sér sigur gegn serbneska liðinu.

„Okkar styrkleiki er fyrst og fremst hraðinn, að mínu mati, og ég held að það verði gegnumgangandi, allt mótið, að við verðum ekki stóra og þunga liðið í þeim leikjum sem við spilum. Við þurfum að glíma við það og þetta eru meira og minna stórir og þungir leikmenn sem við erum að fara að glíma við.

Við þurfum að geta glímt við þessa erfiðu línumenn og fundið leiðir til þess að reyna að stoppa þá. Það munu klárlega koma upp augnablik þar sem við verðum í vandræðum með þá, það er alveg viðbúið, en ég tel okkur vera vel í stakk búna til þess að svara því inni á vellinum,“ sagði Snorri.

Betri í því en önnur lið

Landsliðsþjálfarinn ræddi aðeins veikleika og styrkleika serbneska liðsins á æfingunni í gær.

„Ég held að veikleikar Serbanna felist að mörgu leyti í því að ef við náum upp okkar leik, sem ég vil að einkenni mitt lið, þá gætu þeir lent í vandræðum. Ef við gerum það vel þá tel ég okkur vera betri í því en önnur lið.

Markmiðið er að ná því fram gegn Serbunum en við þurfum líka að vera á varðbergi fyrir því að þeir gætu reynt að hægja mikið á leiknum og náð því. Þá þurfum við að brjóta leikinn upp, en eins og ég sagði áðan er ég fyrst og fremst að hugsa um okkur og að við náum upp okkar helstu styrkleikum og þá hef ég minni áhyggjur af þessu.“

Einn dagur í einu

Mikil eftirvænting ríkir fyrir fyrsta leik íslenska liðsins en þjálfarinn, sem lék sjálfur 257 landsleiki, hefur bæði upplifað það á stórmótum að byrja vel og byrja illa.

„Auðvitað viltu alltaf byrja mótið vel og fá góða tilfinningu en ég hef svo sannarlega upplifað bæði það að byrja vel og byrja illa. Maður vann stóra sigra í fyrsta leiknum og svo var maður allt í einu mættur út í rútu á leiðinni út á flugvöll nokkrum dögum síðar.

Ég ætla að bíða með allar yfirlýsingar sem snúa að því að byrja vel. Það eru bæði hæðir og lægðir á svona stórmóti og þú ferð hátt upp og langt niður líka. Þetta snýst um að finna hinn gullna meðalveg og þú þarft að taka þessu með jafnaðargeði, einn dag í einu,“ bætti hann við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason