Á Boðnarmiði yrkir Jón Gissurarson um ríkisstjórnina: Uppi góðum heldur hag hennar mæt er fórnin. Breytir nótt í bjartan dag blessuð ríkisstjórnin. Magnús Halldórsson brást við: Engum verður alveg rótt, enda hálir skórnir

Á Boðnarmiði yrkir Jón Gissurarson um ríkisstjórnina:

Uppi góðum heldur hag

hennar mæt er fórnin.

Breytir nótt í bjartan dag

blessuð ríkisstjórnin.

Magnús Halldórsson brást við:

Engum verður alveg rótt,

enda hálir skórnir.

Senda dag í svarta nótt,

svona ríkisstjórnir.

Limra eftir Eyjólf Ó. Eyjólfsson:

Illa sauð matinn hún Auður

át hann þó húsbóndinn rauður

með þverrandi lyst

en þá sá hún fyrst

að þorskurinn var ekki dauður.

Jón Arnljótsson segir að eins og fram hafi komið þurfi 1.500 meðmælendur til að komast í forsetaframboð og telji margir að það sé alltof lág tala, en það eru fleiri hliðar á þessum peningi:

Fínt ef yrði fækkun á

fjölda sem í kjörið lyftir.

Hvar á mikið fífl að fá

1.500 undirskriftir?

Halldór Halldórsson tíundar það sem sem karl á áttræðisaldri hugsar þegar hann sér fallega konu á óræðum aldri!

Í leyni enginn laumar sér

í ljúfa þanka mína;

í elli hárri óska mér

inn í drauma þína!

Á Leir segir frá því að Hjálmar Freysteinsson læknir hafi hugleitt efnahagsmálin – og sá ljós í myrkrinu!

Ljót er nú staða landans;

umfang efnahagsvandans,

það eina sem hér

til huggunar er:

Það fer aldrei lengra en til fjandans.

Limran Kveðið um nótt eftir Eyjólf Óskar Eyjólfsson:

Ó, Drottinn ég dásama yður

því Dauðinn er himneskur friður

kveður um nótt

í kraumandi sótt

hinn lánsami líkkistusmiður.

Hrólfur Sveinsson kvað um hindúisma:

Hún Indíra gamla Gandí

við gigtinni drekkur brandí,

og til þess að betur

það bragðist þá setur

hún heilagra kúa hland í.

Fuglalimra Páls Jónassonar í Hlíð um listsköpun frambjóðenda:

Hæst sungu á framboðsfundi

þeir félagar Skúmur og Lundi.

þó var Hávellan best

og hrifningin mest

er hún dillaði stélinu og stundi.