Auka verður varnarviðbúnað áður en það er um seinan

Landvarnir eru ein af frumskyldum allra ríkja, varnir gegn ytri ógn í nútíð sem óvissri framtíð. Um það gilda orð Vegetíusar, að vilji menn frið þurfi þeir að búa sig undir stríð.

Til þess var Atlantshafsbandalagið (NATO) stofnað og á sinn hátt hefur það einnig verið grundvöllur stuðnings flestra vestrænna ríkja við Úkraínu. Finni Rússar enga fyrirstöðu þar muni Pútín halda áfram í vesturátt.

Í Bandaríkjunum gætir nú efasemda um stuðninginn, en Evrópuríkjunum hefur mörgum reynst ókleift að standa við stóru orðin, svo Úkraínu sárvantar skotfæri og öflugari vopnabúnað.

Ekki verður heldur séð að Evrópuríkin – vinir okkar Pólverjar eru helsta undantekningin – búi sig undir að halda friðinn á austurjaðri NATO, sem þó er full ástæða til. Rússland vígvæðist æ meir, er nú rekið sem stríðshagkerfi og getur senn ygglt sig við Eystrasaltslöndin.

Tómlæti Evrópuríkja á borð við Þýskaland og Frakkland um eigin varnir er þar mikið áhyggjuefni, hvað þá að þau hafi burði til þess að halda fjarlægum en lífsnauðsynlegum aðfangaleiðum opnum, líkt og í Rauðahafi.

Eins og Úkraínumenn þekkja er Joe Biden hikandi í hernaðarstuðningi, en Donald Trump, sem vel kann að sigra hann í haust, hefur ítrekað að Evrópa geti ekki reitt sig á hernaðarmátt Bandaríkjanna ef hún er óviljug til að kosta eigin varnir. Ef Kína léti til skarar skríða gegn Taívan er líka alls óvíst að Bandaríkin væru fær um að sinna vörnum Evrópu sem þyrfti.

Herði Evrópuríkin sig ekki í stuðningi við Úkraínu og hefji þau ekki tafarlausa uppbyggingu á eigin vörnum, kann það að reynast um seinan eftir 3-5 ár að ætla að verja friðinn.