Köln Lanxess Arena í Köln tekur tæplega 20.000 manns í sæti en milliriðill 1 og úrslitahelgin sjálf verða leikin í höllinni sögufrægu.
Köln Lanxess Arena í Köln tekur tæplega 20.000 manns í sæti en milliriðill 1 og úrslitahelgin sjálf verða leikin í höllinni sögufrægu. — AFP/Ina Fassbender
Íslenska landsliðið leikur í C-riðli Evrópumótsins ásamt Ungverjalandi, Serbíu og Svartfjallalandi. Riðillinn verður leikinn í München í Suðaustur-Þýskalandi. Allir leikir C-riðils fara fram í Ólympíuhöllinni í München en höllin tekur 12.150 manns í …

Keppnishallirnar

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska landsliðið leikur í C-riðli Evrópumótsins ásamt Ungverjalandi, Serbíu og Svartfjallalandi. Riðillinn verður leikinn í München í Suðaustur-Þýskalandi.

Allir leikir C-riðils fara fram í Ólympíuhöllinni í München en höllin tekur 12.150 manns í sæti og er uppselt á alla leiki íslenska liðsins í riðlakeppninni.

Ólympíuhöllin var byggð sérstaklega fyrir Ólympíuleikana í München árið 1972 þegar fyrsta handboltakeppnin á Ólympíuleikunum fór fram. Ísland var á meðal þátttökuþjóða á mótinu og hafnaði í 12. sæti en Júgóslavía varð þá ólympíumeistari eftir sigur gegn Tékkóslóvakíu í úrslitaleik í München. Þá var einnig leikið í höllinni á heimsmeistaramótinu árið 2019 þegar mótið fór fram í Þýskalandi og Danmörku.

Ráðist var í endurbætur á Ólympíuhöllinni árið 2009 þar sem meðal annars veitingastað og VIP-aðstöðu var bætt við hana. Þá var öðrum leikvangi bætt við höllina, Litlu Ólympíuhöllinni, en hún tekur 4.000 manns í sæti. Einnig var ráðist í endurbætur til þess að gera höllina tónleikavænni.

Í febrúar árið 2020 var nýtt loftræstikerfi sett upp í höllinni og allur ljósabúnaður uppfærður og þá var ráðist í lagfæringar utan á höllinni til þess að varðveita upprunalegan byggingarstíl hennar frá árinu 1972.

München er mikil íþróttaborg með mikla sögu en Bayern München, stærsta knattspyrnufélag Þýskalands, er með aðsetur í borginni. Þá hafa margir stórir íþróttaviðburðir farið fram í Ólympíuhöllinni í München eins og til dæmis heimsmeistaramótið í íshokkíi og heimsmeistaramótið í listdansi á skautum. Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar í körfuknattleik hefur einnig farið fram í Ólympíuhöllinni.

F-riðill Evrópumótsins, með Danmörku, Portúgal, Tékkland og Grikkland innanborðs, verður einnig leikinn í München og því ljóst að það verður mikið líf og fjör í borginni á meðan riðlakeppnin stendur yfir.

Köln bíður íslenska liðsins

Takist íslenska liðinu að komast áfram í millriðla verða mótherjarnir þar úr A-riðli og B-riðli keppninnar. Frakkland, heimamenn í Þýskalandi, Norður-Makedónía og Sviss leika í A-riðlinum og Spánn, Austurríki, Króatía og Rúmenía í B-riðlinum en tvö efstu lið hvers riðils fyrir sig komast áfram í milliriðla.

Milliriðill I, þar sem liðin úr A-, B- og C-riðli verða, verður leikinn í Köln en borgin er í vesturhluta Þýskalands. Leikið verður í Lanxess Arena. Höllin tekur 19.500 manns í sæti og er þekkt stærð í handboltaheiminum en úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer fram þar á hverju sumri, sem og úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar.

Höllin var byggð árið 1998 en leikið var í Lanxess Arena á HM 2007 í fyrsta sinn þar sem meðal annars úrslitaleikur keppninnar fór fram. Það var einnig leikið í höllinni á HM 2019 sem fram fór í Danmörku og Þýskalandi en þar milliriðill I leikinn þar sem Ísland mætti Þýskalandi, Frakklandi og Brasilíu um 13.-16. sæti mótsins.

Lanxess Arena tekur 19.750 manns í sæti en bæði undanúrslitin, leikurinn um fimmta sætið, leikurinn um þriðja sætið og úrslitaleikurinn sjálfur fara fram í Köln.

Höllin er meðal annars heimavöllur þýska fyrstudeildarfélagsins Gummersbach þar sem Elliði Snær Viðarsson leikur og er Guðjón Valur Sigurðsson, fyrrverandi fyrirliði landsliðsins, þjálfari Gummersbach. Þá mun Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson ganga til liðs við þýska félagið í sumar. Höllin er einnig heimavöllur íshokkíliðsins Kölner Haie og körfuknattleiksliðsins Köln Rheinstars.

Þá hafa tónlistarmenn á borð við Elton John, Prince, Kiss, Aerosmith, Whitney Houston, Cher, U2, Justin Timberlake, Metallica, Celine Dion, Coldplay, Tinu Turner, Eagles, Lady Gaga, Justin Bieber, Rihönnu, Beyoncé, Madonnu, Adele, Robbie Williams og Dua Lipa troðið upp í höllinni.

Leikið í sex borgum

Alls verður leikið í sex borgum á Evrópumótinu í ár: Berlín, Düsseldorf, Hamburg, Köln, Mannheim og München.

A-riðillinn verður leikinn í Berlín í Mercedes-Benz Arena sem tekur 14.800 manns í sæti, sem og D-riðillinn, og í Düsseldorf í Merkur Spiel-Arena sem tekur 54.600 manns í sæti og er það jafnframt stærsti leikvangurinn sem notast verður við á EM.

B-riðillinn verður leikinn í SAP-Arena í Mannheim sem tekur 13.200 manns í sæti, sem og E-riðill, og C-riðillinn og F-riðillinn verða leiknir í Ólympíuhöllinni í München eins og áður hefur komið fram. Milliriðill 2 verður leikinn í Barclaycard-Arena í Hamburg sem tekur 13.300 manns. Milliriðill 1 og úrslitaleikirnir verða í Köln líkt og áður sagði.