Skattamál Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins.
Skattamál Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Magdalena Anna Torfadóttir magdalena@mbl.is Það þarf að vera meiri fyrirsjáanleiki í kerfinu og meiri fyrirsjáanleiki í skattamálum til að laða hingað erlenda fjárfestingu.

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Það þarf að vera meiri fyrirsjáanleiki í kerfinu og meiri fyrirsjáanleiki í skattamálum til að laða hingað erlenda fjárfestingu.

Þetta segir Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, í samtali við Morgunblaðið. Halldór flutti erindi á Skattadeginum 2024 sem haldinn var á vegum Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins.

Erindið bar yfirskriftina Erlend fjárfesting – nei takk og fór Halldór yfir deilur Íslenska kalkþörungafélagsins við skattayfirvöld sem eru nú fyrir héraðsdómi.

Fjárfest fyrir 22 milljónir evra

Íslenska kalkþörungafélagið framleiðir fóðurbæti fyrir skepnur en um 10% af heildarframleiðslunni fara í manneldi, í gegnum tvær verksmiðjur á Englandi. Fyrirtækið hefur rekið verksmiðju á Bíldudal frá 2007. Íslenska kalkþörungarfélagið var stofnað árið 2001 af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða en um nokkurt skeið hafði byggðin á Bíldudal minnkað töluvert vegna skorts á atvinnu.

Við stofnun fyrirtækisins fannst enginn íslenskur aðili til að standa að baki starfseminni en írska fyrirtækið Marigot kom inn með gífurlega reynslu. Marigot eignaðist 75% í félaginu árið 2001 og 99% árið 2009 en Marigot hefur verið í fararbroddi í rúma tvo áratugi í rannsóknum, þróun og nýtingu kalkþörunga og sölu afurða tengdra þeim. Marigot hefur síðan þá keypt nær alla framleiðslu kalkþörungafélagsins en sölunet Marigot spannar 70 lönd og yfir 100 skráð vörumerki. Frá upphafi hefur Marigot fjárfest á Íslandi í gegnum Kalkþörungafélagið fyrir rúmar 22 milljónir evra.

2,4 milljarða endurákvörðun

Halldór segir að deilurnar við skattayfirvöld hafi hafist árið 2020 þegar bréf barst frá skattinum þar sem spurt var um milliverðlagningu.

Milliverðlagning vísar til þess hvernig tengdir aðilar verðleggja viðskipti sín á milli í viðskiptum yfir landamæri, en þau skulu vera í samræmi við armslengdarsjónarmið. Telji skattayfirvöld að verð sé rangt ákveðið þeirra á milli ber þeim að skoða kjörin og leiðrétta þau, en ávallt innan þess svigrúms sem milliverðlagsreglur setja þeim.

Sögðust hafa gengið of langt

„Við svörum spurningum skattsins eftir bestu getu og þá kemur í ljós að skjölunarskýrslan okkar er að mati skattsins ekki rétt. Við ætlum að laga það en skatturinn gefur okkur ekki færi á því heldur leggur auka álag á okkur,“ segir Halldór og útskýrir að Kalkþörungafélagið hafi lagt í grunninn 50% álag ofan á tiltekinn kostnað við söluna á hráefninu til Marigot en Marigot tryggir að það kaupi upp alla framleiðslu félagsins og því er engin áhætta við framleiðsluna.

„Skatturinn taldi kostnaðargrunninn vanáætlaðan og hækkaði tekjuskattstofn félagsins um sem nam þeim viðbótarkostnaði en hélt 50% álaginu og lagði 25% álag ofan á sem þýðir 2,4 milljarða króna endurákvörðun.“

Halldór bætir við að skatturinn hafi aldrei beðið um skýrslur fyrir árin 2016-2020 þegar þau ár voru endurákvörðuð í kjölfarið heldur látið ófullnægjandi skýrslu fyrir 2018 nægja.

„Skatturinn lagði ekkert efnislegt mat á milliverðlagninguna þrátt fyrir skýr tilmæli í lögum og leiðbeiningum OECD sem lögin byggjast á og nákvæmlega eins erlent fordæmi var hunsað.“

Halldór segir að á fundi með skattayfirvöldum hafi starfsmaður skattsins sagt beinum orðum að skattayfirvöld hefðu líklega gengið of langt. Embættið lagði í kjölfarið til breytingu sem félagið átti að óska eftir þar sem ekki yrði miðað við 35% framlegð heldur eitthvað hóflegra. Skatturinn hafnaði síðar þeirri beiðni. Nú er málið fyrir héraðsdómi.

Írarnir í áfalli

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að vinna málið segist Halldór vona það besta.

„Sagan er skrifuð af sigurvegurum og ef ríkið sigrar mun það standa yfir líkinu af Íslenska kalkþörungafélaginu.“

Halldór bætir við að forsvarsmenn írska móðurfélagsins Marigot séu í áfalli yfir framgöngu íslenskra skattayfirvalda.

„Þegar Írarnir voru dregnir til landsins á sínum tíma þá mættu þeir mjög vinsamlegu viðhorfi. Nú er viðhorfið á þann veg að þeir séu einhverjir útlendingar sem eru að misnota auðlindirnar okkar og borgi ekki skatta en það er langt frá því að vera raunin. Ég hef verið að reyna að fá nýja framleiðsluþætti til landsins og þú getur rétt ímyndað þér hvort áhugi sé fyrir því.“

Halldór segir að Ísland standi illa hvað varðar samkeppnishæfni í skattamálum og að hér á landi þurfi að einfalda kerfið og hafa skýrar reglur.

„Við þurfum erlenda fjárfestingu og við fáum hana ekki nema með meiri fyrirsjáanleika. Ég vil þó segja að starfsmenn skattsins eru eflaust að gera sitt besta en ef þeir eru drifnir áfram af því að ná í sem mestar tekjur þá er eitthvað mikið að,“ segir Halldór að lokum.