Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson fór fyrir sínum mönnum frá Grindavík í gærkvöld og skoraði 23 stig í sigrinum gegn Álftanesi í Smáranum.
Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson fór fyrir sínum mönnum frá Grindavík í gærkvöld og skoraði 23 stig í sigrinum gegn Álftanesi í Smáranum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Grindvíkingar komu sér betur inn í tvísýna baráttuna í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöld með því að sigra Álftanes, 87:84, í Smáranum í Kópavogi. Álftanes var fimmtán stigum yfir um tíma en Grindvíkingar höfðu betur á spennuþrungnum lokakafla

Grindvíkingar komu sér betur inn í tvísýna baráttuna í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöld með því að sigra Álftanes, 87:84, í Smáranum í Kópavogi. Álftanes var fimmtán stigum yfir um tíma en Grindvíkingar höfðu betur á spennuþrungnum lokakafla.

Ólafur Ólafsson skoraði 23 stig fyrir Grindavík og Douglas Wilson 24 fyrir Álftanes sem var búið að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.

Topplið Vals vann botnlið Hamars örugglega í Hveragerði, 111:89, og heldur tveggja stiga forystu í deildinni. Joshua Jefferson skoraði 37 stig fyrir Val og Kristófer Acox 26 en Franck Kamgain 28 fyrir Hamar.

Njarðvík var í miklu basli með Hauka í Ljónagryfjunni en vann að lokum 81:77 og komst að hlið Keflvíkinga í öðru til þriðja sætinu. Chaz Williams skoraði 28 stig fyrir Njarðvíkinga og Daniel Love 21 fyrir Hauka sem máttu sætta sig við fjórða tapið í röð og eru áfram rétt á undan Blikum í botnbaráttunni.

Höttur frá Egilsstöðum vann Breiðablik, 86:78, í Smáranum í Kópavogi og lyfti sér upp í sjöunda sætið. Matej Karlovic skoraði 18 stig fyrir Hött og Everage Richardson 27 fyrir Breiðablik.