Þjálfari Spánverjinn Toni Gerona hefur stýrt serbneska landsliðinu frá árinu 2020 en hann hefur tröllatrú á sínum mönnum gegn íslenska liðinu.
Þjálfari Spánverjinn Toni Gerona hefur stýrt serbneska landsliðinu frá árinu 2020 en hann hefur tröllatrú á sínum mönnum gegn íslenska liðinu. — AFP/Henning Bagger
Ísland mætir Serbíu í upphafsleik sínum í C-riðli Evrópumóts karla í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München í dag klukkan 17 að íslenskum tíma. Svartfjallaland og Ungverjaland, sem mætast í kvöld, leika einnig í sama riðli en efstu tvö lið…

Í München

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Ísland mætir Serbíu í upphafsleik sínum í C-riðli Evrópumóts karla í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München í dag klukkan 17 að íslenskum tíma.

Svartfjallaland og Ungverjaland, sem mætast í kvöld, leika einnig í sama riðli en efstu tvö lið riðilsins tryggja sér sæti í milliriðli 1 þar sem mótherjarnir koma úr A-riðli og B-riðli keppninnar.

Þetta er í 13. sinn sem Serbar taka þátt í Evrópumótinu en liðinu gekk ekkert sérstaklega vel á síðasta Evrópumóti, sem fram fór í Ungverjalandi og Slóvakíu árið 2022, og enduðu í 14. sæti. Þar léku Serbar í C-riðli keppninnar í Szeged í Ungverjalandi og unnu aðeins einn leik í riðlakeppninni, gegn Úkraínu, 31:23, en töpuðu hins vegar nokkuð naumlega fyrir Króatíu, 23:20, og fyrir Frakklandi 29:25.

Liðinu gekk betur á síðasta heimsmeistaramóti í Svíþjóð og Póllandi í janúar 2023, þar sem það lék í E-riðli keppninnar í Katowice. Þar unnu Serbar sigur gegn Alsír, 27:26, töpuðu svo naumlega fyrir Þýskalandi, 34:33, og unnu svo stórsigur gegn Katar, 34:24. Serbar fóru áfram í millriðlakeppnina þar sem liðið tapaði fyrir Noregi, 31:28, en liðið vann svo Argentínu, 28:22, og Holland, 32:30, og endaði að lokum í 11. sæti mótsins.

Jafnasti riðillinn á EM

„Riðillinn okkar á EM er líklega sá jafnasti af þeim öllum,“ sagði Toni Gerona landsliðsþjálfari Spánverja á heimasíðu serbneska handknattleikssambandsins í gær.

„Þetta eru fjögur lið sem gera öll tilkall til þess að komast áfram í milliriðlakeppnina. Það geta allir unnið alla í riðlinum á meðan sterkustu liðin í hinum riðlunum eru talsvert sterkari en lakari liðin,“ sagði Gerona.

Sterkir sóknarmenn Íslands

„Ég hef mikla trú á mínu liði en við erum að mæta mjög sterku íslensku liði og Ísland er mögulega það land sem er með sterkustu sóknarleikmenn mótsins. Þeir eru líka með marga leikmenn sem eru mjög sterkir maður á mann og þetta er lið sem vill keyra upp hraðann og hlaupa mikið. Á sama tíma erum við mjög meðvitaðir um eigin styrkleika og vonandi getum við nýtt okkur þá sem allra best gegn íslenska liðinu,“ bætti landsliðsþjálfari Serba við.

Gerona hefur stýrt serbneska liðinu frá árinu 2020. Hann starfaði lengst af hjá Barcelona á Spáni þar sem hann var aðstoðarþjálfari frá 2004 til 2008 og þá stýrði hann einnig B-liði félagsins frá 2008 til 2014. Hann var landsliðsþjálfari Túnis frá 2017 til 2020 og gerði liðið að Afríkumeisturum árið 2018 í Gabon. Þá hafnaði liðið í öðru sæti á Afríkumótinu 2020 þegar mótið fór fram í Túnis en tapaði þá fyrir Egyptalandi í úrslitaleik.

Vinstri skyttan Petar Djordjic, leikmaður Benfica í Portúgal, er lykilmaður í liði Serba, en hann hefur lengst af leikið í Þýskalandi á ferlinum með bæði Flensburg, Wetzlar og Hamburg. Þá er hægri hornamaðurinn Bogdan Radivojevic einnig mikilvægur hjá Serbum en hann er samningsbundinn Pelister í Norður-Makedóníu. Hann hefur einnig leikið með Flensburg í Þýskalandi, sem og Rhein-Neckar Löwen á ferlinum.

 Nánar er fjallað um Serbana á bls. 16 í EM-blaðinu sem fylgir Morgunblaðinu í dag.