— Morgunblaðið/Eggert
Öll tæki og tól hafa verið nýtt til þess að reyna að finna mann sem féll niður í sprungu í Grindavík á miðvikudag. Sprungan er um 20-30 metra djúp og settu viðbragðsaðilar landgang niður að sprungunni til að auðvelda störf

Öll tæki og tól hafa verið nýtt til þess að reyna að finna mann sem féll niður í sprungu í Grindavík á miðvikudag. Sprungan er um 20-30 metra djúp og settu viðbragðsaðilar landgang niður að sprungunni til að auðvelda störf.

Neðst í sprungunni er vatn sem talið er vera um 13 metra djúpt og hafa viðbragðsaðilar ekki kafað í því heldur er notast við neðansjávardróna. Aðstæður þykja of erfiðar fyrir kafara niðri í vatninu.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is að leitað yrði í Grindavík þar til maðurinn fyndist en leit hafði ekki borið árangur þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Á þriðja hundrað manns hafa komið að leitarstörfum frá því á miðvikudag.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við mbl.is að björgunarsveitirnar á Suðurnesjum hefðu hlotið liðstyrk frá björgunarsveitum af Faxaflóasvæðinu og Suðurlandsundirlendinu.