Kristín „Með frásagnaraðferðinni ögrar höfundur kröfunni um röklega þekkingu og setur í staðinn tilfinningagreind og skynjun,“ skrifar rýnir.
Kristín „Með frásagnaraðferðinni ögrar höfundur kröfunni um röklega þekkingu og setur í staðinn tilfinningagreind og skynjun,“ skrifar rýnir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Móðurást: Oddný ★★★★· Eftir Kristínu Ómarsdóttur. Benedikt, 2023. Kilja, 138 bls.

Bækur

Kristján Jóhann Jónsson

Í tileinkun framan við söguna segir höfundur að Oddný Þorleifsdóttir hafi verið langamma hennar og Móðurást: Oddný sé fyrsta bókin í skáldaðri sögu hennar. Oddný er sögumaðurinn í verkinu og er bæði raunveruleg og skálduð persóna en þykist ekki vera annað hvort. Hún er sannsöguleg persóna í skáldaðri sögu. Vegna þess að frásögnin er byggð á langömmu er verkið líka að nokkru leyti fjölskyldusaga en með óvenjulegu sniði. Kristín Ómarsdóttir hefur eins og alþjóð veit tök á mismunandi skáldskaparformum, er ekki síðra leikskáld og ljóðskáld en sagnaskáld. Frásögn Oddnýjar hefur sterk leikræn einkenni en þó enn frekar ljóðræn.

Sögumaður í því skáldverki sem hér liggur fyrir er átta ára að aldri. Það hefur margvísleg áhrif á frásögnina og er ef til vill haft þannig til þess að réttlæta frásagnarháttinn. Tímamörk eru óljós og fljótandi, staðsetningar og vegalengdir óskýrar en tilfinningaleg nánd sterk. Sögumaður hefur takmarkaða þekkingu á aðstæðum vegna þess að hann er barn og leitar skilnings en hugmyndaflugið er lausbeislað. Barnið Oddný er sívinnandi, mjólkar kýrnar ásamt með öðrum og tengist þeim sterkum böndum. Hún ræðir til dæmis ýmis hjartans mál við kúna Ídu Pfeiffer sem svarar á blendingi af færeysku og íslensku. Það tungumál lærðu þær Oddný og kýrin af færeyskri vinnukonu sem er farin þegar sagan byrjar. Ída Laura Pfeiffer var austurrísk kona, fædd 1797, sem kom til Íslands og var gagnrýnin á íslenskt samfélag. Hún kemur ekki við þessa sögu að öðru leyti en kýrin heitir í höfuðið á henni og þær nöfnurnar verða tákn alþjóðlegrar visku og gagnrýni sem er nauðsynleg til þess að skilja veröldina. Oddný lifir að nokkru leyti í ímynduðum veruleika þrátt fyrir hinn áþreifanlega sveitaveruleika, erfiðið og lífsbaráttuna og hún er stöðugt að reyna að ná valdi á heimsmynd sinni og ímyndunarafli. Einmitt þess vegna er það snilldarhugmynd að hafa sögumanninn á barnsaldri. Sá heimur sem að telpunni snýr er ókunnuglegur fyrir allan þorra nútímalesenda og aldurinn réttlætir spurningar hennar og skynjun sem tekur ekkert sem gefið. Oddný er greind og glöggskyggn þó að hún sé sjóndöpur. Hún er fædd 1863 og sá tími er svo fjarlægur að við sem nú lesum bækur spyrjum barnslegra spurninga um hann. Það er að segja þau okkar sem grunar að þessi tími hafi verið til.

Oddný dáir Þuríði móður sína og sér ekki nokkurn galla í fari hennar. Henni er lýst sem sterkri konu, víðsýnni og þroskaðri. Systkinin eru henni líka kær. Sum þeirra deyja að vísu áður en hún nær að kynnast þeim vel en þau sem deyja eru henni samt í huga og þau sem lifa eru dýrmæt. Faðirinn er ólánsgerpi, telur að hann sé í krafti feðraveldisins yfir aðra heimilismenn hafinn en finnur ekki röksemdir sem duga til að sanna það. Hann setur fram ýmsar reglur sem eiga það helst sameiginlegt að vera út í hött og þusar um drepleiðinleg tímatalsfræði yfir fólkinu í baðstofunni, líklega til þess að sanna gáfur sínar. Það skiptir litlu hvort tímatalsfræðin eru rétt skilin því enginn nennir að hlusta. Heimilisfaðirinn er bláfátækur og virðist standa neðarlega í goggunarröð sveitarinnar að svo miklu leyti sem sögumaður skynjar það, en honum er mikið í mun að halda valdastöðu á heimilinu. Það verður enn nöturlegra vegna þess að móðirin virðist honum að öllu leyti miklu fremri í því að halda heimilinu gangandi. Þegar hann finnur til vanmáttar síns, sonurinn hlær að óhappi hans og konan hafnar skoðunum hans, lemur hann heimilisfólkið og sýnir þannig og sannar að hann á ekki heima í því „ósýnilega hásæti“ sem hann telur sig eiga með réttu. Hann er ofbeldismaður og lemur til þess að halda ímyndaðri virðingu. Samt er hann eiginlega ekki beinlínis vondur maður, frekar fórnarlamb afar vondra hugmynda feðraveldisins.

Þessi saga af tímabilinu um og rétt eftir 1870 er skrifuð af þekkingu og skilningi á mannskepnunni. Með frásagnaraðferðinni ögrar höfundur kröfunni um röklega þekkingu og setur í staðinn tilfinningagreind og skynjun. Það er afar öflugt! Án þess að orða það beinlínis segir saga Kristínar okkur að uppsprettu alls ills í mannlífinu megi rekja til þess að fólk er aldrei látið í friði til að hugsa og þroskast eins og andinn innblæs því. Hin átta ára gamla Oddný bendir kannski á einkennilega hætti í fari feðraveldisins á stundum, en það gerði strákurinn í ævintýri H.C. Andersens líka þegar hann ljóstraði upp um klæðaburð (eða ekki klæðaburð) keisarans í ævintýrinu alkunna.