París Stórskyttan Dominik Máthé er lykilmaður Ungverja en hann leikur með París SG.
París Stórskyttan Dominik Máthé er lykilmaður Ungverja en hann leikur með París SG. — AFP/Khaled Elfiqi
Ungverjaland tekur þátt í Evrópumótinu í 14. sinn alls og mætir Íslandi í þriðja og síðasta leik sínum í riðlinum hinn 16. janúar í München. Spánverjinn Chema Rodríguez hefur stýrt ungverska liðinu frá árinu 2022 en hann lét af störfum hjá…

Ungverjaland tekur þátt í Evrópumótinu í 14. sinn alls og mætir Íslandi í þriðja og síðasta leik sínum í riðlinum hinn 16. janúar í München.

Spánverjinn Chema Rodríguez hefur stýrt ungverska liðinu frá árinu 2022 en hann lét af störfum hjá portúgalska stórliðinu Benfica á síðasta ári eftir að liðið fagnaði sigri í Evrópudeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2022 eftir sigur gegn Magdeburg í framlengdum úrslitaleik. Hann lét af störfum hjá Benfica til þess að taka við þjálfun ungverska liðsins sama ár en hann hefur verið aðstoðarþjálfari Ungverja frá árinu 2019.

Ungverjar hafa lagt mikla áherslu á þróun ungra handboltamanna á undanförnum árum og er það að skila sér. Margir af leikmönnum ungverska liðsins spila fyrir stærstu lið Evrópu og stórskyttan Dominik Máthé er samningsbundinn París SG í Frakklandi þar sem hann er lykilmaður. Miklos Rosta er samningsbundinn Dinamo Búkarest í Rúmeníu og Gorgö Fazekas er í lykilhlutverki hjá pólska stórliðinu Wisla Plock.

Ungverjar eru hungraðir í árangur eftir mögur síðustu ár en liðið fór síðast í undanúrslit á stórmóti á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012, eftir sigur gegn Íslandi í framlengdum leik í 8-liða úrslitunum. Ungverjar ollu miklum vonbrigðum á síðasta Evrópumóti, árið 2022, þegar liðið lék á heimavelli og mistókst að komast upp úr B-riðli keppninnar eftir töp gegn bæði Hollandi og Íslandi en Ungverjar enduðu í 15. sæti.

Ungverska liðið á ágætis möguleika í riðlinum en Ungverjaland tapaði einungis einum leik í undankeppni EM og það var á heimavelli gegn Georgíu. Þjálfarinn Rodríguez hvíldi marga lykilmenn í þeim leik og gaf ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri þar sem liðið hafði tryggt sér sæti á EM áður en kom að leiknum gegn Georgíu. Ungverjar eru með lið sem getur farið langt á EM í ár og þeir eru alltaf líklegir þrátt fyrir að hafa ekki náð markmiðum sínum síðustu ár.