Kind Riðuveiki greindist í einu sýni frá Eiðsstöðum í vikunni.
Kind Riðuveiki greindist í einu sýni frá Eiðsstöðum í vikunni. — Morgunblaðið/Eggert
Ekki liggur fyrir til hvaða aðgerða verður gripið vegna riðuveiki sem uppgötvaðist í sýni úr fullorðnu sláturfé frá bænum Eiðsstöðum í Blöndudal í Húna- og Skagahólfi en Matvælastofnunin, Mast, greindi frá málinu á miðvikudaginn

Ekki liggur fyrir til hvaða aðgerða verður gripið vegna riðuveiki sem uppgötvaðist í sýni úr fullorðnu sláturfé frá bænum Eiðsstöðum í Blöndudal í Húna- og Skagahólfi en Matvælastofnunin, Mast, greindi frá málinu á miðvikudaginn.

„Við greindum ábúendum frá niðurstöðunum í gær [á miðvikudaginn]. Næstu skref eru að farið verði í arfgerðagreiningu á fénu og við vonumst eftir því að fá niðurstöður úr þeirri rannsókn í lok þessa mánaðar en mögulega í næsta mánuði. Þá þarf að meta stöðuna með hliðsjón af því hvort fara þurfi í niðurskurð að hluta til eða hvort nauðsynlegt verði að skera allt niður. Þá yrði það háð samþykki ábúenda hvort hluti fjárins verði skorinn niður. Ábúendurnir þurfa að undirgangast ýmis skilyrði sem fylgja því. Hvert féð má fara, hvernig skuli halda það, hversu lengi og fleira. Einnig eigum við eftir að sjá hvernig hlutfall af mögulega verndandi arfgerðum er í hjörðinni,“ segir Þorvaldur H. Þórðarson settur yfirdýralæknir.

Búrekstur á Eiðsstöðum er sameiginlegur með nágrannabænum Guðlaugsstöðum og er heildarfjöldi kinda á bæjunum um 700. Þorvaldur segir að reglan sé að fara í smitrakningu við aðstæður sem þessar og kanna hvort möguleiki sé að fé hafi farið eitthvað í nágrenninu eða verið selt. „Þarna er um að ræða tvo bæi sinn með hvort bæjarnafnið en mér skilst að féð hafi verið hýst sitt á hvað en tengsl eru milli fólksins sem er með reksturinn. Þar af leiðandi er væntanlega litið á þetta sem eina hjörð með tilliti til smitvarna.“

28 þúsund skammtar af verndandi arfgerð gegn riðu voru sendir frá tveimur hrútastöðvum en Mast hefur ekki upplýsingar um það á þessu stigi málsins hvort slíkur skammtur hafi verið sendur á Eiðsstaði. kris@mbl.is