Ari Skúlason
Ari Skúlason
Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), segir í pistli á vef samtakanna að eftir seinustu samningalotu hafi orðið ljóst að árangur myndi ekki nást í samningaviðræðum nema með því að vera vel vopnum búinn

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), segir í pistli á vef samtakanna að eftir seinustu samningalotu hafi orðið ljóst að árangur myndi ekki nást í samningaviðræðum nema með því að vera vel vopnum búinn. Fyrsta skrefið í nauðsynlegum vígbúnaði hafi verið að segja upp svokölluðu heiðursmannasamkomulagi um framkvæmd verkfalla, sem var gert síðastliðið sumar.

Samkomulagið sem Ari vísar til var undirritað af fulltrúum félagsins og viðsemjenda í fjármálafyrirtækjum og fjármálastofnunum árið 2004 og fól m.a. í sér að SSF mætti ekki fara í verkfall nema það næði til allra félagsmanna.

Tilbúin í átök ef svo ber undir

Ari segir við Morgunblaðið að eftir uppsögn samkomulagsins sé það ekki lengur í gildi. „Nú heyrum við beint undir vinnulöggjöfina og getum framkvæmt alls konar vinnustöðvanir. Svo voru þarna alls kyns undanþágur sem ekki gilda lengur. Uppsögn samkomulagsins setur okkur á sama stað og önnur stéttarfélög eru á.“

Fram kemur í pistlinum að starfshópur trúnaðarmanna félagsins hafi á síðustu mánuðum kortlagt möguleika á aðgerðum, „bæði stórum og smáum“, til að auka þrýsting undir kröfur samtakanna.

„Samhliða uppsögninni var skipaður hópur reyndra trúnaðarmanna SSF til þess að undirbúa jarðveginn fyrir möguleg átök. Verkföll eru ekki óskastaða fyrir neinn, en engu að síður sýnir reynsla síðustu samningaviðræðna að við verðum að vera undirbúin fyrir slíkt. Tónninn sem kemur úr Karphúsinu þessa dagana um sömu krónutöluhækkun fyrir alla og að allir eigi að fylgja þeirri línu sem kemur mögulega þaðan sýnir okkur líka að SSF þurfa að búa sig undir það versta og vera tilbúin í átök ef svo ber undir,“ skrifar Ari.

Launakönnun SSF sýni að félagsmenn séu á sama máli. 54% félagsfólks töldu líklegt að þau myndu vilja fara í verkfall en 30% töldu það ólíklegt.