[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Freyr Arnarsson – 21 Arnar Freyr, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Melsungen í þýsku 1. deildinni en hann er uppalinn hjá Fram í Safamýri. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Fram árið 2013 og lék hann með liðinu í þrjú …

Arnar Freyr Arnarsson – 21

Arnar Freyr, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Melsungen í þýsku 1. deildinni en hann er uppalinn hjá Fram í Safamýri.

Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Fram árið 2013 og lék hann með liðinu í þrjú tímabil, frá 2013 til 2016, áður en hann hélt út í atvinnmennsku til Kristianstad í Svíþjóð.

Hann lék með sænska liðinu í þrjú tímabil, frá 2016 til 2019, og varð Svíþjóðarmeistari með Kristianstad árin 2017 og 2018. Þá varð hann deildarmeistari með liðinu öll þrjú tímabilin sín í Svíþjóð.

Að tímabilinu 2018-19 loknu gekk hann til liðs við GOG í Danmörku þar sem hann lék í eitt tímabil áður en hann hélt til Þýskalands sumarið 2020 þar sem hann hefur leikið síðan.

Línumaðurinn lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2015 gegn Noregi í Osló en alls á hann að baki 87 landsleiki þar sem hann hefur skorað 94 mörk. Evrópumótið í Þýskalandi verður áttunda stórmót Arnars Freys.

Elliði Snær Viðarsson – 18

Elliði Snær, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn Gummersbach í þýsku 1. deildinni en hann er uppalinn hjá ÍBV í Vestmannaeyjum.

Línumaðurinn lék upp alla yngri flokkana með ÍBV og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2015. Hann varð Íslandsmeistari með ÍBV árið 2018, sem og deildar- og bikarmeistari. Þá varð hann einnig bikarmeistari með liðinu árið 2015 og 2020.

Að tímabilinu 2019-20 loknu gekk hann til liðs við Gummersbach sem þá lék í þýsku B-deildinni. Hann var í lykilhlutverki hjá liðinu þegar Gummersbach tryggði sér sæti í efstu deild að nýju vorið 2022.

Elliði Snær lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð árið 2019 en alls á hann að baki 39 landsleiki þar sem hann hefur skorað 77 mörk. Evrópumótið í Þýskalandi verður fjórða stórmót Elliða.

Einar Þorsteinn Ólafsson – 27

Einar Þorsteinn, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni en hann er uppalinn hjá Val á Hlíðarenda.

Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Val árið 2019 og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2021. Hann var svo í lykilhlutverki, sér í lagi í varnarleik liðsins, þegar liðið varð Íslands-, deildar- og bikarmeistari tímabilið 2021-22.

Hann gekk til liðs við Fredericia í maí 2022 og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið en var verðlaunaður á dögunum með nýjum 18 mánaða samningi.

Varnarmaðurinn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Færeyjum í nóvember á síðasta ári í Laugardalshöllinni. Hann á að baki 4 landsleiki og er á leið á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu.

Gísli Þorgeir Kristjánsson – 10

Gísli Þorgeir, sem er 24 ára gamall, er samningsbundinn þýska stórliðinu Magdeburg en hann gekk til liðs við félagið frá Kiel árið 2020.

Gísli Þorgeir er uppalinn hjá FH en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2015. Hann gekk til liðs við Kiel árið 2018 þar sem hann lék í eitt og hálft tímabil. Meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá honum á meðan hann var samningsbundinn þýska liðinu og rifti hann samningi sínum við félagið í janúar 2020.

Hann samdi síðar við Magdeburg þar sem hann varð Þýskalandsmeistari með liðinu árið 2022.

Þá var hann í lykilhlutverki hjá Magdeburg þegar liðið varð Evrópumeistari síðasta sumar í Köln og var hann meðal annars valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar eftir frábæra frammistöðu í undanúrslitaleiknum gegn Barcelona og úrslitaleiknum gegn Kielce.

Gísli Þorgeir lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð árið 2017 en alls á hann að baki 53 landsleiki þar sem hann hefur skorað 119 mörk. Evrópumótið í Þýskalandi verður fimmta stórmót Gísla Þorgeirs.

Janus Daði Smárason – 3

Janus Daði, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Magdeburg í Þýskalandi en hann er uppalinn á Selfossi.

Janus Daði flutti til Danmerkur árið 2012 og lék með Aarhus í tvö tímabil áður en hann sneri aftur heim til Íslands og samdi við Hauka í Hafnarfirði. Þar lék hann í þrjú tímabil, frá 2014 til 2017, en hann varð Íslandsmeistari með Haukum árið 2015 og 2016. Þá varð hann deildarmeistari með liðinu árið 2016. Hann var útnefndur besti leikmaður úrvalsdeildarinnar árið 2016.

Miðjumaðurinn gekk til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið Aalborg í janúar 2017 og lék með liðinu út keppnistímabilið 2019-20. Hann varð Danmerkurmeistari með Aalborg 2017, 2019 og 2020 og þá varð hann bikarmeistari með liðinu árið 2018.

Frá Danmörku lá leiðin til Þýskalands þar sem sem hann gekk til liðs við Göppingen sumarið 2020 en hann lék í þýsku 1. deildinni í tvö tímabil áður en hann gekk til liðs við Koldstad sumarið 2022 þar sem hann varð Noregsmeistari og norskur bikarmeistari á síðustu leiktíð.

Hann gekk svo til liðs við Magdeburg síðasta sumar og varð meðal annars heimsmeistari félagsliða í október en hann mun ganga til liðs við ungverska stórliðið Pick Szeged næsta sumar.

Janus Daði lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Úkraínu í undankeppni EM í Sumy árið 2016 en alls á hann að baki 74 landsleiki þar sem hann hefur skorað 118 mörk. Hann er á leið á sitt sjöunda stórmót með íslenska liðinu.

Ýmir Örn Gíslason – 11

Ýmir, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn þýska stórliðinu Rhein-Neckar Löwen en hann gekk til liðs við þýska félagið í febrúar 2020 frá uppeldisfélagi sínu Val þar sem hann hafði leikið allan sinn feril.

Línumaðurinn varð Íslandsmeistari með Val árið tímabilið 2017 eftir að liðið lagði FH að velli 3:1 í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins.

Þá varð hann tvívegis bikarmeistari með liðinu; árið 2016 eftir sigur gegn Gróttu í úrslitaleik í Laugardalshöll og árið 2017 eftir sigur gegn Aftureldingu í Laugardalnum.

Hann varð einnig deildarmeistari með Val árið 2015 þegar liðið endaði í efsta sæti úrvalsdeildarinnar með 42 stig, stigi meira en Afturelding sem endaði í öðru sætinu.

Ýmir skrifaði á dögunum undir samning við Göppingen í þýsku 1. deildinni og mun ganga formlega til liðs við félagið næsta sumar þegar samningur hans við Rhein-Neckar Löwen rennur út.

Ýmir lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi árið 2017 en alls á hann að baki 80 landsleiki þar sem hann hefur skorað 35 mörk. Hann er á leið á sitt sjöunda stórmót með landsliðinu.