Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún Baldursdóttir
„Það er sláandi svarið sem ég fékk við fyrirspurn minni um starfsmannaveltuna hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) frá árinu 2018,“ segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er sláandi svarið sem ég fékk við fyrirspurn minni um starfsmannaveltuna hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) frá árinu 2018,“ segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins. Hún segist hafa haft veður af því að starfsmenn hefðu hætt oft án mikils fyrirvara og að einnig hefðu verið uppsagnir. Í svarinu kemur fram að 67 manns hafi sagt upp störfum frá 2018-2023 og 22 hafi verið sagt upp. Á sama tímabili voru ráðnir 186 nýir starfsmenn, svo umfang sviðsins hefur vaxið mikið en starfsmannavelta er einnig greinilega mikil.

„Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur áður bent á að ýmislegt má betur fara hjá ÞON. Allt frá 2019 hefur gríðarlega mikið fjármagn farið til sviðsins. Miklu fé hefur verið varið í ýmiss konar stafræna tilraunastarfsemi og uppgötvanir á lausnum sem jafnvel voru þegar til og í notkun annars staðar. Það er mat okkar í Flokki fólksins að Reykjavíkurborg eigi ekki að standa í þróunarstarfi heldur sé uppgötvunar- og tilraunaverkefnum betur komið fyrir hjá einkafyrirtækjum,“ segir Kolbrún.

Óþarfi að finna upp hjólið

„Okkur hefur fundist ÞON nánast haga sér eins og það væri einkafyrirtæki með gríðarlegt fjármagn á leið á alþjóðamarkað en ekki sveitarfélag sem á fyrst og fremst að koma stafrænum lausnum í loftið til að létta álagi á starfsfólk og bæta þjónustuna. Fjölmargar lausnir eru sem dæmi ókláraðar hjá skóla- og frístundasviði. Borgin á ekki að þurfa að vera að finna upp hjólið. Það þarf að forgangsraða verkefnunum og einblína á lausnir sem einfalda rekstur borgarinnar og þjónustuna við íbúana og vinna betur með ríki og öðrum sveitarfélögum til þess að stafræn vegferð verði hagkvæm og skilvirk. Flokkur fólksins hefur ítrekað beðið Innri endurskoðun að skoða rekstur ÞON því við teljum að farið hafi verið illa með fjármagn borgarinnar í þessum málaflokki.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir