Haag Dómsmálaráðherra S-Afríku, Ronald Lamola, t.h., ræðir við blaðamenn fyrir utan Alþjóðadómstólinn í gær eftir fyrsta dag réttarhaldanna.
Haag Dómsmálaráðherra S-Afríku, Ronald Lamola, t.h., ræðir við blaðamenn fyrir utan Alþjóðadómstólinn í gær eftir fyrsta dag réttarhaldanna. — AFP/Remko de Waal
Fyrsti dagur réttarhalda Alþjóðadómstólsins (ICJ) á meintu broti Ísraela gegn sáttmála um þjóðarmorð var haldinn í gær í Haag í Hollandi. Suður-Afríka lagði fram bráðakæru til dómstólsins til að reyna að koma á vopnahléi á átakasvæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Fyrsti dagur réttarhalda Alþjóðadómstólsins (ICJ) á meintu broti Ísraela gegn sáttmála um þjóðarmorð var haldinn í gær í Haag í Hollandi. Suður-Afríka lagði fram bráðakæru til dómstólsins til að reyna að koma á vopnahléi á átakasvæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Þrátt fyrir að þeir hafi fordæmt hryðjuverkaárás Hamas-hryðjuverkasamtakanna 7. október segja þeir Ísrael ekki geta réttlætt viðbrögðin.

Suður-Afríka flutti mál sitt í gær, en í dag munu Ísraelsmenn verjast ásökunum. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir málið „algjöra sturlun“ og að Ísrael sé að berjast gegn því að Hamas fremji þjóðarmorð á Ísraelum, en ekki öfugt. „Heimurinn er á hvolfi,“ sagði hann í gær.

Ronald Lamola, dómsmálaráðherra Suður-Afríku, sagði í gær að engin árás, hversu alvarleg sem hún væri, gæti réttlætt brot á sáttmálanum og hann sagði Ísrael hafa farið yfir öll eðlileg mörk og þar með brotið sáttmálann.

Lögmaður Suður-Afríku, Adila Hassim, sagði Ísraelsher hafa varpað sprengjum á Gasasvæðið til að eyðileggja líf Palestínumanna, sem nú byggju við yfirvofandi hungursneyð. Þá segir hann gögn úr stríðinu sýna „óumdeilanlegt hegðunarmynstur og ásetning“ sem styðji ásökunina um brot á sáttmálanum.

Isaac Herzog, forseti Ísraels, sagði í gær að í dag myndi Ísrael kynna með stolti mál sitt um að „beita sjálfsvörn samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum.“

Yfirleitt taka mál Alþjóðadómstólsins mörg ár, en vegna þess að um bráðameðferð er að ræða gæti dómstóllinn úrskurðað í málinu á nokkrum vikum, í það minnsta um hvort gripið verður til vopnahlés, þótt grundvallaratriði málsins gætu tekið mörg ár. Ekki er hægt að áfrýja dómum ICJ, en á sama tíma er ekki alltaf farið eftir niðurstöðunni. Til dæmis létu Rússar fyrirskipanir ICJ um að láta af innrás í Úkraínu sem vind um eyru þjóta. Þó getur úrskurður gegn Ísrael aukið pólitískan þrýsting á stjórn Netanjahús en óvíst er hverjar afleiðingarnar myndu verða.