Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
„Nei, það hefur ekki komið til álita og ég tel að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Schengen en utan,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið. Hún var spurð hvort efni væru til að endurskoða aðild…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Nei, það hefur ekki komið til álita og ég tel að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Schengen en utan,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Hún var spurð hvort efni væru til að endurskoða aðild Íslands að Schengen-samstarfinu í ljósi ummæla lögreglustjórans á Suðurnesjum í blaðinu í gær, þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af umferð um innri landamærin hér á landi, sem hann segir tiltölulega greiðfær fyrir erlenda brotamenn.

Guðrún segir að frjáls för á milli ríkja og þau réttindi sem Schengen fylgja séu gríðarlega mikilvæg í viðskiptum sem og fyrir ferðamenn.

„Ég tel okkur í ágætis færum til að verja okkar landamæri, þar sem yfir 95% þeirra sem koma til landsins koma í gegnum Keflavíkurflugvöll, en þetta er áskorun og við verðum að vera með öfluga löggæslu og landamæraeftirlit sem ég vil styrkja. Það þarf að vera fyrir hendi geta hér á landi til að fara með þær trúnaðarupplýsingar sem ganga á milli landa innan Schengen,“ segir Guðrún og bætir við:

„Við erum eina ríkið sem uppfyllir ekki þá skyldu að vera með lokuð búsetuúrræði. Ef við ætlum að vera fullgild í þessu samstarfi, þá verðum við að vera það á öllum sviðum og verðum að tryggja að þeir sem fengið hafa synjun yfirgefi landið og Schengen-svæðið líka. Þar hefur verið brotalöm, og þetta er eitt af því sem ég legg höfuðáherslu á að bæta.

Við getum verið ánægð með að lögreglan á Suðurnesjum stendur sig vel í því að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi og það sýnir okkur að við erum ekki eyland hvað það varðar. Við njótum mikils ávinnings af Schengen-samstarfinu hvað þetta varðar og værum við ekki hluti af því hefðum við ekki sama aðgang að upplýsingum frá embættum annarra ríkja og gætum þannig ekki varist jafn vel á landamærunum eins og lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir að við höfum gert á síðasta ári,“ segir Guðrún.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson