Hermann Auðunsson fæddist í Reykjavík 15. október 1947. Hann lést 31. desember 2023.

Foreldrar hans voru Auðunn Sigurður Hermannsson, f. 24. ágúst 1911, d. 7. janúar 2002, og Unnur Guðbergsdóttir, f. 7. maí 1912, d. 26. desember 1985.

Systkini Hermanns eru: Guðrún Jóhanna, f. 16. júní 1940; Guðbergur Hermann, f. 18. júlí 1942; Herborg, f. 15. febrúar 1952.

Hermann giftist 14. maí 1983 Guðlaugu Nielsen, þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Svavar Ingi, f. 23. nóvember 1978, kona hans er Klaudia Migdal. 2) Gunnar Már, f. 6. apríl 1987, kona hans er Ingrid Nielsen. Fyrir átti Hermann soninn Auðun Sigurð, f. 22. maí 1975, móðir hans er Hjördís Sigurgeirsdóttir. Kona Auðuns er Magdalena Helgadóttir, börn þeirra eru Elísa Ester, f. 15. nóvember 2010, og Sóley, f. 20. febrúar 2017. Sonur Auðuns er Kári Steinn, f. 22. janúar 2007, móðir hans er Álfrún Harðardóttir.

Hermann ólst upp á Hverfisgötu í Reykjavík. Hann vann m.a. sem sölumaður hjá Herrahúsinu í Austurstræti, Bristol í Bankastræti og lengst í hljómtækjaversluninni Nesco á Laugavegi. Þegar Kringlan var opnuð í ágúst 1987 stofnaði Nesco dótturfyrirtækið Nesco Kringlan og var Hermann valinn til að veita versluninni forstöðu. Hermann keypti síðar verslunina ásamt Láru Guðmundsdóttur og ráku þau hana undir nafninu Heimskringlan allt til ársins 2000 þegar þau seldu hana.

Um þetta leyti eða árið 1999 stofnaði Hermann fyrstu íslensku leitarvélina, www.Leit.is. Í kjölfarið kom Hermann að ýmsum verkefnum innan lands sem utan þangað til hann stofnaði fyrirtækið Ledlýsingu í Hlíðasmára í Kópavogi.

Útför Hermanns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 12. janúar 2024, klukkan 13. Streymi:

https://streyma.is/streymi/

Haustið 1966 hóf RÚV sjónvarpsútsendingar. Þar sem vænta mátti mikillar sölu á sjónvarpstækjum í framhaldinu ákvað undirritaður 1967 eða 1968 að stofna fyrirtækið Nesco, Laugavegi 10, til að flytja inn og selja m.a. sjónvarpstæki.

Nesco fékk svo umboð fyrir ýmis helstu vörumerki þess tíma, eins og Grundig-sjónvarpstæki og Akai-, Bose-, Clarion-, Marantz- og Thorens-hljómtæki.

1971/1972 kom til mín ungur maður, hávaxinn, grannur með dökkt liðað hár, laglegur og fágaður, Hermann Auðunsson. Þá 23-24 ára.

Pilturinn vildi selja mér einhverja auglýsingaþjónustu ef ég man rétt. Hermann gerði þetta svo skipulega og vel, hóflega en sannfærandi, að mér þótti mikið til um. Sneri ég því málinu við og bauð honum sölumannsstarf í Nesco. Það er auðvelt að selja góðum sölumönnum.

Fóru mál svo að Hermann varð sölumaður okkar og síðan verslunarstjóri í hljómtækjadeild Nesco, svo lengi sem fyrirtækið starfaði, eða fram til 1989. Nesco náði því að verða eitt helsta, eða helsta fyrirtæki landsins á sínu sviði. Þegar litaútsendingar hófust, 1977, efldist fyrirtækið enn frekar.

Verulegan þátt þessa uppgangs og velgengni get ég þakkað okkar frábæru verslunarstjórum, Hermanni og reyndar líka Birgi Helgasyni, og þeirra fínu sölumönnum. Það er ekki ofsögum sagt að þeir hafi verið landsþekktir fyrir sölumennskusnilli sína.

Þegar elsti sonur minn, Óli Anton, átti að koma í sölumennskulæri í Nesco bað ég Hermann að taka drengstaulann fyrir.

„Aldrei þrengja að viðskiptavini, byggðu upp tengslin hægt og varlega, með jákvæðum en hóflegum staðreyndum, og þegar góð tengsl hafa myndast leggðu þá höndina lauslega á öxl hans.“ Þetta var allt útspekúlerað, vísindalega og sálfræðilega, og sluppu fæstir úr greipum Hermanns og lærisveina hans án kaupa. Óli hefur nú gert þetta í 45 ár.

Þessi góði og snjalli drengur er nú genginn á vit feðra sinna.

Það var mér gleðiefni, Hermann, að kynnast þér og fá þig til liðs við mig í nær tvo áratugi. Hjartans þakkir fyrir það sem þú gerðir fyrir mig og mína; alla fjölskylduna. Ég veit að þú hefur farið létt með Lykla-Pétur.

Ole Anton Bieltvedt.