Pálmi „Í seinni tíð hef ég verið að spila jöfnum höndum á þessi hljóðfæri, rafbassann og kontrabassann.“
Pálmi „Í seinni tíð hef ég verið að spila jöfnum höndum á þessi hljóðfæri, rafbassann og kontrabassann.“ — Ljósmynd/Daníel Starrason
„Ég er búinn að lifa tímana tvenna þegar kemur að tónlist,“ segir Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður sem blæs til tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði 19. og 20. janúar næstkomandi og 23. febrúar á Sviðinu, Selfossi

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Ég er búinn að lifa tímana tvenna þegar kemur að tónlist,“ segir Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður sem blæs til tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði 19. og 20. janúar næstkomandi og 23. febrúar á Sviðinu, Selfossi.

„Foreldrar mínir voru músíkalskir. Pabbi söng í kór og þótti góður og ég ólst upp við mömmu sísyngjandi með tónlist sem hún hlustaði á í útvarpinu heima á Vopnafirði. Þegar ég var átta ára var ég farinn að spila á harmónikku sem mér hafði verið gefin, en kunnáttan var að mestu sjálfsprottin því það var enginn tónlistarskóli á Vopnafirði. Ég lærði mest af körlunum sem spiluðu á böllum. Ég ólst upp í tónlist undir handleiðslu harmónikkuleikarans Róberts Nikulássonar, en hann var pabbi besta vinar míns. Ég minnist hans með hlýju fyrir að leyfa okkur strákunum að spila með, gefa okkur tækifæri. Fyrsta alvörugiggið mitt var með Róberti á 1. des.-balli heima á Vopnafirði, en þá var ég kornungur. Þessir karlar héldu uppi fjörinu í bænum og mér finnst gaman að hugsa til þess að þeir hafi pikkað okkur yngri út sem höfðum einhverja músíkhæfileika og leyft okkur að vera með,“ segir Pálmi sem fékk gítar í fermingargjöf, en þá var áhuginn heldur betur kominn á fullt.

„Að búa á austurhorni Íslands voru ákveðin forréttindi, því við vorum í beinu sambandi við tónlistina sem þá var heitust, náðum frekar auðveldlega erlendum útvarpsstöðvum, Radio Luxemburg og Radio Caroline voru þær þekktustu. Ég hertók snarlega gamla Telefunken-útvarpið hennar mömmu og lá undir sæng þegar ég átti að fara að sofa á kvöldin og leitaði að þessum stöðvum. Með þessu höfðum við aðgang að þeirri tónlist sem þá var að koma fram, á undan öðrum hér á landi,“ segir Pálmi sem ólst upp á þeim tíma sem Bítlarnir slógu í gegn og önnur fræg bönd þess tíma. „Með þessari tónlist opnaðist nýr heimur fyrir mér og þegar ég eignaðist gítar byrjaði ég að plokka, herma eftir þessum böndum, og við strákarnir stofnuðum hljómsveitir sem enduðu uppi á sviði í Miklagarði, félagsheimili Vopnfirðinga. Annar áhrifaþáttur var þegar frægar íslenskar hljómsveitir komu að sunnan til að spila á Vopnafirði, Hljómar og Dátar til dæmis. Þetta voru þekktustu böndin á Íslandi og ég hékk alveg dolfallinn fyrir framan þessi ædol. Þannig byrjaði þetta, ég lifði og hrærðist í þessum heimi og þegar ég fór í gagnfræðaskólann á Laugum stofnuðum við hljómsveit þar nánast um leið og við vorum komnir inn fyrir dyrnar,“ segir Pálmi sem hefur verið viðloðandi tónlist allar götur síðan fyrir utan smá tíma þegar hann var í lýðháskóla í Danmörku.

„Ég var á Seyðisfirði á síldarárunum og þar stofnuðum við félagarnir popphljómsveit og spiluðum fyrir dansi í Herðubreið. Þetta var magnaður tími, ef það voru landlegur þá voru dansleikir í Herðubreið þrjú til fjögur kvöld í viku. Þegar síldin hvarf flutti ég til Hornafjarðar um tíma en flutti síðan suður til Reykjavíkur, þá 19 ára. Ég sótti um stöðu bassaleikara í hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar sem spilaði á Röðli, og fékk djobbið. Þar með var ég orðinn atvinnutónlistarmaður.“

Pálmi spilaði fyrst aðallega á gítar en var þó byrjaður að plokka bassann í þeim böndum sem hann var í á þessum tíma.

„Það var helst þegar vantaði bassaleikara að ég hljóp í skarðið. Þegar ég sótti um stöðuna í hljómsveit Magnúsar var ég ekkert að skafa utan af hæfileikum mínum sem bassaleikara, sem voru samt frekar takmarkaðir,“ segir Pálmi og hlær.

„Magnús sá í gegnum fingur sér við mig og sagði að ef ég stæði mig fengi ég ráðningarsamning, sem ég fékk þremur vikum eftir að ég kom suður. Ég þurfti að fá lánaðan bassa til að taka með mér suður, því ég átti ekki slíkt hljóðfæri.“

Pálmi segist alla tíð hafa haft áhuga fyrir alls konar tónlist.

„Ég er alæta og nokkrum árum eftir að ég kom suður fór ég að spila djass með Guðmundi heitnum Ingólfssyni og spilaði með honum í mörg ár. Í einu samtali okkar á milli eftir djasskvöld niðri í Djúpi sagði Guðmundur með sinni rámu rödd við mig: Hvenær ætlar þú að fara að spila á kontra? Ég sagðist ekki kunna á kontra en hann sagði að ef ég gæti spilað á rafbassa gæti ég alveg eins spilað á kontra. Þetta varð til þess að ég fór í hljóðfæraverslun Pauls Bernburgs og fann þar pólskan kontrabassa sem kostaði ekki mikið, fór með hann í Djúpið og byrjaði að spila á kontrabassa. Kontrinn hefur verið viðloðandi mig síðan fyrir utan nokkur ár þar sem rafbassinn tók völdin, en í seinni tíð hef ég verið að spila jöfnum höndum á þessi hljóðfæri.“

Pálmi hefur verið í mörgum hljómsveitum yfir ævina, m.a. Mannakornum, Brunaliðinu, Friðryki, Blúskompaníinu og Póker.

„Ég hef líka hoppað inn í alls konar gigg í gegnum tíðina þar sem ég hef fengið að einbeita mér að bassaleiknum, en ég hef alltaf haft óhemju mikinn áhuga fyrir hljóðfærinu mínu og leit á mig til að byrja með fyrst og síðast sem bassaleikara. En það átti eftir að breytast. Ég á mér hliðarsjálf, spunaband sem við nokkrir félagar höfum haldið úti í mörg ár, við hittumst af og til en æfum aldrei, mætum bara á tónleika og spinnum. Mér finnst gott að vera ekki fastur í sömu sporunum. Ég hef líka þá lífsstefnu að hvíla fólk reglulega á popparanum Pálma, svona til að forðast að það verði leitt á mér,“ segir Pálmi og hlær.

„Ég er heppinn og þakklátur að eiga minn fasta hlustendahóp sem mætir á tónleika hjá mér. Í lagavali tónleika reyni ég að blanda saman þekktasta stöffinu og lögum sem sjaldnar heyrast, sem eru oft fín tónleikalög, og svo líka nýrri tónlist. Það eru klassagaurar með mér á tónleikunum núna, hljómborðsleikarinn Þórir, sonur fyrsta hljómborðsleikarans í Mannakornum, Úlfars Sigmarssonar, trommuleikarinn Maggi júníor, sonur Magga Eiríks, gítar- og hljómborðsleikarinn Helgi Reynir Jónsson, barnabarn gamla hljómsveitarstjórans míns, Magnúsar Ingimarssonar, og gítarleikarinn Pétur Valgarð Pétursson.“ Miðar á tónleikana fást á tix.is.