Fjölskyldan Frá vinstri: Styrmir Snær, Kolbeinn Sturla, Sigríður Hrund, Snæfríður Ísold, Baldur og Starkaður Snorri síðasta sumar.
Fjölskyldan Frá vinstri: Styrmir Snær, Kolbeinn Sturla, Sigríður Hrund, Snæfríður Ísold, Baldur og Starkaður Snorri síðasta sumar. — Ljósmynd/Silla Páls
Sigríður Hrund Pétursdóttir fæddist 12. janúar 1974 í Reykjavík og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur frá fimm ára aldri, en bernskuárin voru í austurbæ Kópavogs. Skólagangan var hefðbundin fyrir Vesturbæing; Melaskóli, Hagaskóli, MR

Sigríður Hrund Pétursdóttir fæddist 12. janúar 1974 í Reykjavík og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur frá fimm ára aldri, en bernskuárin voru í austurbæ Kópavogs. Skólagangan var hefðbundin fyrir Vesturbæing; Melaskóli, Hagaskóli, MR. Hún var ári á undan í skóla og þar sem hugurinn stefndi á læknisfræðinám í Frakklandi ákvað hún að fara og læra frönsku beint eftir stúdentspróf. Eftir tveggja ára dvöl í Frakklandi, annars vegar í Perpignan og hins vegar í L’Universite de Stendhal í Grenoble, haga örlögin því þannig að botnlanginn springur á Sardiníu vorið 1996, árið sem háskólagangan átti að hefjast. „Faðir minn bjargar lífi mínu með því að sækja mig með beinu sjúkraflugi og teningunum er kastað.

Ég hitti Baldur manninn minn síðla sumars sama ár, við fellum hugi saman og er hægt að telja dagana sem við höfum verið aðskilin síðan þá. Ég er metin inn í frönskudeild Háskóla Íslands og lýk B.A.-prófi, held áfram í viðskiptafræði og fer beint í M.Sc. í stjórnun og stefnumótun þá barnshafandi að tvíburum. Sama ár tek ég 6. stig í söng við Söngskólann í Reykjavík en tónlist hefur ávallt verið stór hluti af mínu lífi. Við hjónin vorum tvö ár í Danmörku með tvíburana að klára mitt nám við CBS og hefja nám Baldurs í verkfræði við DTU, en flytjum heim rétt fyrir hrun 2008.

Það var sérstakt að flytja heim með tvær hendur tómar og tvö börn stuttu fyrir hrun, en á móti kom að við töpuðum engu af því við áttum ekkert nema kærleiksríka fjölskyldu.

Á þessum tíma var hart í ári hjá okkur eins og öðrum en ég var heppin að fá vinnu hjá MEST árið 2007 og síðar Norðuráli árið 2008. Þegar þriðji drengurinn mætir og mikill uppgangur er í mannvirkjageiranum tökum við ákvörðun um að ég láti af störfum sem launþegi og fari í atvinnurekstur með Baldri. Það hefur reynst okkur gæfurík og gjöful vegferð en markast af mikilli elju og vinnusemi. Árið 2013 útskrifast ég með MBA-gráðu frá HR og árið 2017 stofnum við saman Vinnupalla ehf. með hendur tómar en sterka hugsjón og óbilandi drifkraft. Vinnupalla rak ég fram til september 2023, með Baldur mér til stuðnings í hvívetna og framúrskarandi starfsfólk.

Styrkar stoðir formæðra og -feðra minna bera mig upp og áfram í hvívetna. Þeirra list til handverks, ljóða, skrifa og að lifa slær taktfast í mínu hjarta og þar sem allir mínir dagar eru ritaðir og ég þarf einungis að lifa þá, get ég staðfest að mín eftirmæli, þegar ég flýg 95 ára, verða svohljóðandi:

Óhrædd, mild, sterk, djörf, næm, ljúf, breysk, mennsk. Vegferðin var farin með gleði og kærleika að leiðarljósi í sífellu. Það er aðeins eitt kyn – mannkyn og Sigríður Hrund iðkaði mennskuna til fulls á sínu æviskeiði. Næm samsál með æðri tilgang, lýsir henni best. „Ég er andleg vera á líkamlegu ferðalagi,“ varð henni endranær að orði. Hún lifði sinn tilgang, sem var að þjóna, og iðkaði og leiðbeindi sína ævi á enda sífelldar endurbætur á líkama, anda og sál með hreyfingu, næringu og hvíld og að leiðarljósi visku, styrk og fegurð. Sigríður Hrund var trúföst kona, hlustaði á orð dagsins á RÚV á hverjum degi hvar sem var í heiminum og mátti illa missa af vikulegri messu. Ef svo bar við fór hún á trúarsamkomu þess staðar þar sem hún var stödd hverju sinni og ræktaði þannig sína trú innan um annað fólk í sama tilgangi, en ekkert endilega með sömu trú. Samfélagsleg tíund í mannúðar- og líknarstörfum var sérstakt hugðarefni Sigríðar Hrundar en hún gaf einatt til baka samferðafólki sínu hvar sem hana bar niður, alveg sama hvort um var að ræða foreldrastarf, félagsstarf, kirkjustarf, ráðgjöf og fjárfestingar í nýsköpun kvenna (t.d. www.hugmyndasmiðir.is), Vísindasmiðju Ísaksskóla – reynslu sem hún miðlaði til kennara landsins og hvatti þannig til grósku og grunns að auknum vísindum á fyrstu stigum grunnskólans.

Sigríði Hrund auðnaðist framúrskarandi lífsförunautur, Baldur Ingvarsson, sem stóð henni við hlið keikur, sterkur stólpi, aumingjagóður og fullur af lífskrafti. Hjónaband þeirra var náið og farsælt þó hjónin væru afar ólík og fetuðu mismunandi slóða í starfi og áhugamálum. Samheldni þeirra hjóna, samstöðu og samvinnu var best lýst í orðum Baldurs í 20 ára endurnýjun heita þeirra hjóna „þegar VIÐ fengum fæðingarþunglyndi“ en áratugur barneigna markaði þroskaspor í þeirra vegferð þar sem rúm átta ár fóru í veikindi frú Sigríðar. Með Baldur sem sinn klett endurnýjaði frú Sigríður sig í sífellu til heilsu á líkama, anda og sál og reis upp eins og Fönix í hringrásartakti. Virðingarsamband þeirra var einstakt og aðdáunarvert.

Síðustu árin dvaldi Sigríður Hrund langdvölum á Staðarfelli á Fellsströnd en þar höfðu hjónin endurgert höfðingjasetrið að fullu, upphafið kvenlæga víkingasögu Dalabyggðar og sögu húsmæðraskóla á Staðarfelli og sinnt ferðaþjónustu til margra ára. Frú Sigríður undi sér best í nánu, kærleiksríku samfélagi, og við allar skapandi listir; lestur, skrif, tónlist, söng, prjón, útsaum og samveru við fólk.

Mennskan fellst í að vera, enda erum við mannverur, ekki manngerur. Varðveitið orkuna og nýtið hana til góðs. Kærleikurinn ríkir – svo er, var og verður.

Fönixinn er floginn.“

Sigríður Hrund fagnar upprisu og fimm áratugum með vinkonum, vinum og venslafólki að Kjarvalsstöðum í dag – í faðmi listarinnar að vera. Hennar skilaboð inn í árið eru: „Njótum dýrmætra daga með frið í opnu hjarta. Þannig fæst friður í heimi.“

Sigríður Hrund bendir á eftirfarandi styrktarreikninga: Pieta: 0301-26-041041, kt. 410416-0690, Geðhjálp: 0516-26-2648, kt. 531180-0469, og Staðarfellskirkju: 0312-03-578, kt. 610269-0369.

Fjölskylda

Eiginmaður Sigríðar er Baldur Ingvarsson, f. 21.6. 1971, húsasmíðameistari. Þau eru búsett á Kársnesi í Kópavogi. Foreldrar Baldurs voru Ragnhildur Bragadóttir, fjármálastýra á Akureyri, f. 1.2. 1944, d. 7.10. 2010, og Ingvar Baldursson, hitaveitustjóri á Hellu, f. 21.3. 1943, d. 15.10. 2018, giftur Jónínu Valdemarsdóttur bankastarfskonu. Systir Baldurs var Helga Ingvarsdóttir skrifstofustýra, f. 9.8. 1967, d. 3.7. 2016.

Börn Sigríðar og Baldurs eru Kolbeinn Sturla, í smiðsnámi, og Starkaður Snorri vélamaður, f. 4.10. 2004, Styrmir Snær, f. 2.6. 2010, og Snæfríður Ísold, f. 26.10. 2014.

Alsystkini Sigríðar eru Signý Arndísardóttir, f. 5.1. 1969, flugumferðarstýra, Kópavogi; Einar Pétursson-Staalskjold, f. 19.4. 1978, smiður, Reykjavík; Arndís Pétursdóttir, f. 2.1. 1982, ljósmóðir, Kópavogi. Hálfsystur eru Þórunn Pétursdóttir Wolfram, f. 26.10. 1967, framkvæmdastýra Loftslagsráðs, Gömlu-Borg, Grímsnesi. Móðir: Anna S. Wolfram húsmóðir, Hafnarfirði; Sigríður Theodóra Pétursdóttir, f. 8.8. 1985, markaðsfræðingur, Reykjavík; og Jóhanna Vigdís Ragnhildardóttir, f. 29.1. 1996, fatahönnuður, Reykjavík. Móðir þeirra: Ragnhildur Hjaltadóttir, fv. ráðuneytisstýra, Reykjavík.

Foreldrar Sigríðar: Arndís Björnsdóttir, f. 26.8. 1945, kennari og verslunareigandi, Reykjavík, og Pétur Einarsson, f. 4.11. 1947, d. 20.5. 2020, flugmálastjóri, Selá í Eyjafirði. Eftirlifandi kona hans er Svanfríður Ingvadóttir, 4.12. 1955, innanhússhönnuður, Selá.