Sigurrós Jóhanna Sigurðardóttir fæddist 17. desember 1935. Hún lést á Brákarhlíð í Borgarnesi 31. desember 2023.

Sigurrós var dóttir hjónanna Guðnýjar Margrétar Jóhannesdóttur, f. 12. júní 1903, d. 3. mars 1979, og Sigurðar Lýðssonar, f. 7. nóvember 1908, d. 4. júní 1972. Systkini hennar eru þrjú: 1) Ingibjörg Elínborg, f. 6.5. 1933, maki Þorsteinn Elíasson og eiga þau fimm dætur. 2) Lilja f. 26.7. 1937, maki Sigurður Jónsson og eiga þau fimm börn. 3) Daníel Gunnar, f. 1.4. 1941. Lilja er ein eftir á lífi af systkinunum.

Maki Sigurrósar var Guðjón Ingvi Sæmundsson, f. 24. september 1926, d. 30. júní 2014. Börn þeirra: 1) Sæmundur Jóhann, f. 22.6. 1956, maki Valdís Þórunn Vilhjálmsdóttir, sonur þeirra er Ingvi Þór, f. 11.4. 1989. 2) Sigurður, f. 15.5. 1959, maki Magnína Guðbjörg Kristjánsdóttir, börn þeirra eru Eva Björk, f. 31.5. 1983, og Ernir Freyr, f. 9.10. 1993. 3) Guðný Margrét, f. 15.10. 1962, fyrrverandi maki og barnsfaðir hennar Gunnar Gunnarsson, börn þeirra eru Harpa, f. 18.6. 1983, Davíð Örn, f. 9.8. 1988, Sigurður, f. 10.5. 1993, og Sigurrós Ýr, f. 2.1. 2003. 4) Eiríkur, f. 2.9. 1971, fv. maki og barnsmóðir hans Elísabet Hildur Haraldsdóttir, börn þeirra eru Guðjón Helgi, f. 22.8. 2000, Margrét Rós, f. 4.5. 2005, og Ída Jóhanna, f. 10.12. 2010. Langömmubörnin eru þrettán.

Sigurrós Jóhanna fæddist í Skálholtsvík og var þar til eins og hálf árs aldurs en þá flutti hún í Bakkasel og bjó þar til 1956. Þá hófu þau Guðjón Ingvi búskap á Borðeyrarbæ og bjuggu þar allt til 2000 er þau fluttu á Kjörseyri. Árið 2002 fluttu þau í Borgarnes og voru þar til dánardags. Síðustu vikurnar dvaldi Sigurrós á Brákarhlíð og Höfða á Akranesi.

Sigurrós gekk í farskóla og 1951-52 í Reykjaskóla. Hún vann almenn heimilisstörf og bústörf meðan börnin voru heima við en eftir það í kertaverksmiðju á Borðeyri, barnaskólanum, Kaupfélagi Hrútfirðinga og við haustslátrun. Hún var virk í kvenfélaginu, handverkshópnum Grúsku og áhugamálin voru heimilið, búið og handverkið.

Útför hennar fer fram frá Prestbakkakirkju í dag, 12. janúar 2024, klukkan 14. Streymi:

https://www.mbl.is/go/rpcij

Það er alltaf erfitt að missa ástvin. Höggið verður samt aðeins mildara ef síðasta minningin af viðkomandi er góð. Og síðasta minningin mín af ömmu var góð.

Við fjölskyldan heimsóttum ömmu skömmu fyrir jól. Hún var orðin ansi lasburða og síðasta heimsókn þar á undan hafði verið erfið. Og þarna fyrst í stað virkaði hún lúin. En eftir að hún fékk kaffi og köku í kerfið hresstist hún töluvert og tók við sér. Ég sagði henni frá jákvæðum breytingum á mínum persónulegu högum; hún óskaði mér til hamingju, kyssti mig á kinnina og fór að rifja upp gamla tíma, frá því þau afi voru ung og að byrja sinn búskap.

Þetta var falleg stund og hún fékk aukna merkingu eftir að amma féll frá á gamlársdag. Síðasta minning mín af henni var góð eins og flestar minningar af henni voru.

Ömmu þótti vænt um fólkið sitt, samband þeirra afa var einstaklega fallegt og henni var annt um hag þeirra sem stóðu henni næst. Svo var hún gestrisin með eindæmum. Hver einasti dagur með henni var sannkölluð veisla enda lék eldamennska og bakstur í höndunum á henni. Hendurnar á henni voru líka eins og töfrasprotar þegar kom að hvers kyns föndri og handavinnu. Það var sama hversu litlir hlutirnir voru og hversu flókin framkvæmdin var.

Það er sárt að sjá á eftir ástvini en minningin lifir. Og minningarnar af ömmu eru góðar.

Ingvi Þór Sæmundsson.

Elsku amma Rósa.

Takk fyrir öll hlýju faðmlögin og tímann okkar saman. Við munum svo vel hvað var gott að koma til þín í Borgarnes og líka að þegar við nálguðumst bæinn þá spurðum við alltaf: Getum við stoppað hjá ömmu Rósu? Það var svo gott að koma til þín. Við fórum aldrei svöng út frá þér og þú áttir svo skemmtilegt dót. Gamlan bangsa sem þú hafðir eignast þegar þú varst sjálf barn og þú sagðir okkur söguna af því hvernig þú eignaðist hann. Við fengum alltaf sokka og/eða vettlinga með okkur heim. Við munum alltaf geyma þessar minningar. Elsku amma við söknum þín.

Bergjón, Ingvi og Ronja.

Elsku amma.

Ég man þegar ég var lítil í sveitinni og ég var að hlusta á plötur inn í stofu og svo söng ég með þegar lögin komu. Ég man að spilarinn hökti þegar einhver gekk inn í stofu. Ævintýrin í Maraþaraborg, Grimmsævintýri og fleiri sögur sem var hlustað á.

Sauðburðurinn, kettirnir, hundarnir og öll dýrin sem bjuggu í sveitinni sem þér þótti svo ofboðslega vænt um. Hver einasta kind og hrútur áttu sitt nafn og þú þekktir meiripartinn ef ekki allt með nafni. Allt samviskusamlega skráð niður í stílabók.

Ég man líka óteljandi rommíspilin þar sem voru háðar rosalegar viðureignir og ein mjög mikilvæg regla, en það var bannað að leggja niður í fyrsta spili. Einhverra hluta vegna var þeirri reglu komið á, mögulega hef ég átt stóran þátt í þeirri reglugerð þá líklegast sökudólgurinn á bak við nauðsyn þeirrar reglu.

Veisluborðið sem beið alltaf, alveg sama hvaða vikudagur var, það svignaði undan kræsingum og allt heimabakað, soda stream í búrinu og mögulega möffins með, já eða bestu ástarpungar í heimi. Þú varst sú allra besta húsmóðir sem ég hef kynnst. Þú varst líka ansi nýjungagjörn og ég man eftir kúmenkleinutímabilinu, það var skemmtilegur tími, við afi borðuðum þetta bara, mögulega hef ég kvartað meira en hann. Svo áttirðu brauðvél sem úr kom brauð sem var eins og sveppur í laginu. Bakkarnir í jólaboðinu á jóladag. Ananasfrómasinn sem ég kunni kannski ekki að meta þegar ég var lítil en hann óx í áliti og er gerður árlega á mínu heimili kannski munu krakkarnir mínir kunna að meta hann einhvern tímann.

Að fá hundakex og sitja í kjallaraopinu og þá var nú veisla fyrir hunda og barn. Ferðir í kaupfélagið á Borðeyri.

Þegar komið var að heimferð úr sveitinni þá var það oft með miklum trega og en ég var leyst út með blómvendi úr garðinum þínum og bakkelsi, ásamt faðmlögum og kossum.

Mér fannst alltaf svo magnað að þú skyldir ekki vera með bílpróf en þú keyrðir traktor, ég sagði líka öllum frá sem vildu og ekki nenntu að hlusta.

Þú varst mikil handavinnukona og varst alltaf með eitthvað til að dunda við. Það var alltaf hægt að föndra eitthvað með þér og þú varst alltaf til staðar þegar ég þurfti ráðleggingar við prjónana. Heimagerðar gjafir fengum við krakkarnir alltaf frá þér og afa sem er svo ofboðslega dýrmætt.

Mér finnst ég vera svo heppin að þú hafir verið amma mín því þú áttir alltaf tíma og það var svo gott að tala við þig. Ég gat alltaf leitað til þín. Þú elskaðir að sjá afkomendur þína vaxa og dafna og þú varst svo stolt af öllum. Þið afi eruð nú sameinuð á ný en ást ykkar var falleg og hrein.

Takk fyrir öll faðmlögin, samtölin, hlýjuna og að vera alltaf til staðar. Takk fyrir allan tímann okkar saman. Þú ert mín allra besta.

Þín

Eva Björk.

Leiðir okkar Rósu lágu saman nokkru eftir að ég hóf störf hjá Pósti og síma á Brú í Hrútafirði. Örlagavaldurinn var dansleikur í Búðardal þar sem ég kynntist Sæmundi elsta syni Rósu. Ég man að ég var nokkuð kvíðin í fyrsta sinn sem ég kom á heimili þeirra á Borðaeyrarbæ. Það reyndist ástæðulaust því það var vel tekið á móti mér og gestrisni í hávegum höfð.

Rósa og Ingvi bjuggu á Borðeyrarbæ í hartnær hálfa öld. Þau hjón brugðu búi árið 2002 og fluttu í Borgarnes þar sem þau undu hag sínum vel. Rósa var virk í félagsstarfi aldraðra og tók þátt í handavinnu og félagsvist.

Rósa var mjög flink í höndunum, prjónaði peysur, vettlinga og margt fleira. Fyrir jólin föndraði hún af krafti og bjó meðal annars til öll jólakort sem hún sendi og voru þau ófá.

Hugur Rósu leitaði oft norður í Hrútafjörð og hún fór jafnan í réttir á haustin með Guðnýju dóttur sinni og hafði gaman af.

Blessuð sé minning Rósu.

Valdís Þ. Vilhjálmsdóttir.

hinsta kveðja

Elsku langamma.

Ég mun sakna þín svo mikið. Hvíldu í friði amma mín. Takk fyrir allan tímann sem við áttum saman.

Breki Örn.