Jón M. Óskarsson fæddist á Akureyri 8. september 1941. Hann lést á FSA 25. desember 2023.

Foreldrar Jóns voru Óskar Stefánsson, f. 18. maí 1907, d. 8. ágúst 1977, og Vigdís Guðmundsdóttir, f. 27. maí 1909, d. 2. júní 1989. Systkin Jóns eru: Guðrún Sigríður, f. 31. október 1929, d. 8. apríl 2020, Kristín Aðalheiður, f. 8. ágúst 1931, d. 16. ágúst 2007, Kristinn, f. 28. október 1932, d. 17. janúar 1990, Ósk, f. 24. júní 1935, d. 30. ágúst 2020, Grétar Guðmundur, f. 16. október 1938, d. 27. maí 2023, Stefán Sigmar, f. 1. september 1944, og Sigurrós Rannveig, f. 12. mars 1948.

Eiginkona Jóns er Ragnheiður Brynjólfsdóttir, f. 17. desember 1943. Börn þeirra eru: Inga Bryndís, f. 10. febrúar 1964, maki Birgir Örn Arnarson, f. 16. maí 1961, og Brynjólfur, f. 14. febrúar 1965, maki Inga Dóra Jóhannsdóttir, f. 18. júní 1964. Barnabörn eru sex, barnabarnabörn níu.

Útför Jóns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 12. janúar 2024, klukkan 13.

Hjartans pabbi minn!

Þarna komstu okkur á óvart og þó ekki. Þú kvaddir á jóladag. Við fjölskyldan þín göntuðumst með Jón á jólum, Skrögg og tröllið sem stal jólunum. Þú fussaðir gjarnan yfir hégómleika jólanna, þau væru komin svo langt frá kærleiksboðskapnum. Þú pabbi minn varst í raun mesta jólaljósið í fjölskyldunni. Sterk réttlætiskennd, heiðarleiki og samviskusemi, þetta þrennt einkenndi þig. Þegar ég vældi yfir því að þurfa að greiða svo háa skatta horfðir þú beint í augu mín og sagðir: Hefur þér aldrei dottið í hug að þakka fyrir að geta borgað skattana þína? Ég er svo þakklát fyrir að þú gast verið heima nánast fram á síðasta dag. Þar eigum við elsku mömmu allt að þakka. Hún hugsaði svo vel um þig þessi síðustu ár í veikindunum þínum. Yndislegi pabbi minn, þú verður alltaf svo stór hluti af hjarta mínu. Ég kveð þig með virðingu, vitandi með fullri vissu að þú ert genginn inn í dýrð jólanna.

Þín jólastelpa og dóttir,

Inga Bryndís Jónsdóttir.

Það eru mikil viðbrigði að þú elsku pabbi skulir vera horfinn af sjónarsviðinu,

þú varst ákaflega réttsýnn og strangheiðarlegur maður. Nú fara í gegnum hugann allar þær yndislegu stundir sem við áttum saman þegar við fórum að veiða í Fnjóská, rjúpnaferðirnar okkar og þá sérstaklega ferðirnar sem farnar voru austur á Kópasker með syni mínum og fyrrverandi tengdasyni, og var þá gist í sumarbústaðnum hjá Sigga frænda. Undir það síðasta, þegar heilsan fór að gefa sig og þú treystir þér ekki til að labba með okkur, þá varstu í bílnum með kaffibrúsann og kíkinn og skannaðir svæðið.

Elsku pabbi minn, þú varst mjög góður vinur og vorum við saman til sjós í fjöldamörg ár og er sá vandfundinn sem gat snyrt flök jafn hratt og vel og þú, enda gjarnan kallaður flakaþeytir.

Þín verður sárt saknað elsku pabbi minn, takk fyrir allt.

Þinn sonur,

Brynjólfur Jónsson.

Ég kynntist Jóni árið 1979 er hann bauð mig velkominn í fjölskylduna. Fljótlega tókst með okkur góður vinskapur er stóð ævilangt. Líflegar umræður voru oft yfir kaffibolla, þar sem Jón var ávallt tilbúinn að verja þá sem minna mega sín. Þannig var honum best lýst.

Hann byrjaði ungur að vinna fyrir sér sem sjómaður, fljótlega hóf hann nám við Iðnskólann og lærði rafvélavirkjun sem hann starfaði við í mörg ár. Sjómannsblóðið sagði þó til sín og stundaði hann sjómennsku síðustu áratugina allt til starfsloka. Við vorum skipsfélagar í nokkur ár og var duglegri sjómaður vandfundinn.

Jón hafði mikinn áhuga á bæði stangveiði og skotveiði, áttum við saman margar ánægjustundir á bökkum Laxár í Aðaldal að ógleymdum rjúpnaferðum austur á land.

Á miðjum aldri leggur hann stund á golfíþróttina þar sem keppnisskapið skilaði ótrúlegum árangri á skömmum tíma, enda var tengdamóðir mín honum innan handar, dró kerruna og valdi kylfurnar. Jón var einnig liðtækur skákmaður á yngri árum.

Í baráttu við veikindi hafði hann fá áhugamál, enski boltinn var þó alltaf ofarlega í huga. Það átti vel við að Arsenal skyldi vera á toppi deildarinnar síðustu dagana.

Ég kveð með söknuði tengdaföður, góðan vin og félaga.

Birgir Örn Arnarson.

Elsku tengdapabbi, nú hefur þú kvatt þennan heim. Ég kynntist þér fyrir 37 árum þegar við Brynjólfur sonur þinn byrjuðum saman. Þú varst alveg einstakur maður, aldrei heyrði ég þig hallmæla nokkrum manni en þú varst alveg með þínar skoðanir varðandi pólitík og fótbolta. Þú varst strangheiðarlegur maður og réttsýnn, og manni þótti virkilega vænt um þig, þú sýndir alltaf barnabörnunum og barnabarnabörnunum áhuga og þau hændust að þér.

Ég er svo óendanlega þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman haustið 2022 þegar þú dvaldir hjá mér og Ástþóri Vilmari, mínum yngsta syni, í tíu daga. Binni var á sjónum og tengdamamma fór til útlanda vegna brúðkaups en þú treystir þér ekki til að fara með. Við áttum svo yndislegan tíma saman, alltaf eftir kvöldmat fengum við okkur einn Bailys-kaffi, sem þér þótti svo gott og er mitt uppáhald. Nærvera þín var einstök og gátum við setið saman svo tímunum skipti án þess að segja orð, manni leið alltaf vel í kringum þig. Ástþór Vilmar fékk afa sinn til að horfa á heila þáttaseríu þennan tíma, og tóku þeir einn til tvo þætti á kvöldin af Peaky Blinders, og myndaðist einstakt samband þeirra á milli, sem fallegt var að fylgjast með.

Elsku tengdapabbi, ég mun ávallt minnast þín með dýpstu virðingu og hjartans hlýju fyrir allt og allt. Mig langar að ljúka þessum orðum með fallegu ljóði eftir Gísla Gíslason frá Uppsölum:

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli Gíslason á Uppsölum)

Þín tengdadóttir,

Inga Dóra

Jóhannsdóttir.

Jón Óskarsson, elsku hjartans afi okkar. Nú hefur þú kvatt þennan heim en lifir áfram í hjörtum okkar.

Við systkinin eigum ótal góðar minningar þar sem við eyddum tíma með þér og ömmu. Þið létuð okkur alltaf líða eins og heimilið ykkar væri okkar eigið.

Þar sem við systurnar stunduðum nám við Háskólann á Akureyri var heimili ykkar í Skálatúninu okkur alltaf opið og tókuð þið við okkur með opnum örmum.

Við eigum ótal minningar um samræður yfir ófáum kaffibollum þar sem þú varst mikið fyrir gott kaffi og sagðir aldrei nei við eins og einum eða tveimur kaffibollum.

Okkur finnst svo stutt síðan þú varst eldhress og þrammandi um fjöll á rjúpnaveiðum og þið Jón Már áttuð margar góðar stundir í rjúpnaveiðiferðum.

Þú varst alltaf mikill golf- og fótboltaáhugamaður og fannst þér ekki leiðinlegt að ræða fótboltann, þá sérstaklega þegar Liverpool og Arsenal mættust í leik.

Það er okkur einnig eftirminnilegt hvað þú gafst þér alltaf tíma til að spjalla og leika við börnin okkar og sýndir þeim alltaf áhuga, jafnvel þótt heilsunni væri farið að hraka.

Elsku afi, það er ljúfsárt að þú hafir fengið að fara, en þú varst orðinn þreyttur, nú hefur þú fengið hvíldina. Þú varst gull af manni og munum við minnast þín um ókomna tíð.

Við gætum haldið endalaust áfram að rifja upp minningar og góða tíma, en okkur langar að ljúka þessum orðum með línum úr ljóði Oddnýjar Kristjánsdóttur í Ferjunesi.

Hverfur margt

huganum förlast sýn,

þó er bjart

þegar ég minnist þín.

Allt er geymt,

allt er á vísum stað

engu gleymt,

ekkert er fullþakkað.

Þín barnabörn,

Elsa Rut, Jón Már, Ragnheiður Ásta og Ástþór Vilmar.

Það er ómögulegt að hugsa sér jafn góðan og hjartahlýjan mann eins og elsku afa. Við systkinin kölluðum hann alla tíð afa jeppa en það var viðurnefnið sem hann fékk þegar Jónatan gaf öllum ömmum og öfum slíkt nafn. Afi ók alltaf um á jeppa svo hann hlaut það frumlega viðurnefni.

Okkur hlýnar við tilhugsunina um allar ferðirnar norður til ömmu og afa. Jólin með afa á Akureyri voru ævintýraleg og hann ævinlega úti að moka snjó svo við gætum leikið okkur í garðinum. Göngutúrar í Kjarnaskógi og gamlárskvöld þar sem afi sá alltaf um flugeldasýninguna er eftirminnilegast. Það var sárt að missa hann á jóladag, en á þeim degi áttum við oft saman ánægjulegar stundir.

Við munum geyma minningarnar áfram í hjörtum okkar. Blessuð sé minning þín, elsku afi okkar.

Stella Birgisdóttir,
Jónatan Birgisson.