Flutningskerfið Ráðherra segir nauðsynlegt að auka flutningsgetu raforkukerfisins sem krefst þess að lagðar verði nýjar raflínur.
Flutningskerfið Ráðherra segir nauðsynlegt að auka flutningsgetu raforkukerfisins sem krefst þess að lagðar verði nýjar raflínur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Til skoðunar er í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu að leggja fram frumvarp á Alþingi um sérlög til að greiða fyrir styrkingu flutningskerfis raforku á milli Norðurlands og Suðvesturlands. Til þess mun þó ekki koma verði gerðar nauðsynlegar breytingar á skipulagi í sveitarfélögum á Norðurlandi, sem ný flutningslína mun liggja um.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Til skoðunar er í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu að leggja fram frumvarp á Alþingi um sérlög til að greiða fyrir styrkingu flutningskerfis raforku á milli Norðurlands og Suðvesturlands. Til þess mun þó ekki koma verði gerðar nauðsynlegar breytingar á skipulagi í sveitarfélögum á Norðurlandi, sem ný flutningslína mun liggja um.

Þetta staðfestir Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra málaflokksins í samtali við Morgunblaðið. Hann hitti sveitarstjórnarfólk á Akureyri, í Hörgársveit, Skagafirði og Húnabyggð fyrr í vikunni þar sem þessi mál voru rædd. Segir hann samtölin hafa verið góð og að sveitarfélögin séu þegar búin að leggja mikla vinnu í verkefnið og hann vænti góðs af samstarfi við þau.

„Nauðsynlegar endurbætur á flutningskerfi raforku krefjast þess að lagðar verði nýjar raflínur til að auka flutningsgetu kerfisins, en til að svo megi verða þarf að gera breytingar á skipulagi í sveitarfélögunum til að heimila lagningu línanna. Þar má ekkert út af bregða og okkur liggur á,“ segir Guðlaugur Þór og segist hafa fundið fyrir skilningi sveitarstjórnarfólksins á því að þarna sé um þjóðaröryggismál að ræða.

Liggur á í orkumálum

„Ég og forstjóri Landsnets töluðum milliliðalaust við sveitarstjórnarfólkið og ástæðan er mjög einföld; okkur liggur mjög á í orkumálum vegna þeirrar kyrrstöðu sem verið hefur undanfarin 15 til 20 ár. Einn liður vandamálsins liggur í flutningskerfinu,“ segir Guðlaugur Þór.

„Vegna mikilvægis málsins lét ég líka vita af því að eitt af því sem verið er að skoða er lagasetning til að heimila nauðsynlega styrkingu á flutningskerfinu, en ég vona að til þess þurfi ekki að koma. Ég hef fulla trú á forystufólki og íbúum þessara svæða, að það vinni með okkur að framgangi málsins,“ segir hann.

Guðlaugur Þór bendir á að ef skipulagsvinna vegna styrkingar flutningskerfisins gangi vel og að aðrir þættir sem þessu tengjast, svo sem samningar við landeigendur, megi búast við því að endurbætt tenging verði komin á milli Akureyrar og Grundartanga í Hvalfirði árin 2027 eða 2028, enda sé framkvæmdin stór og línurnar margar.

„Vandinn er þessi: Það er komið að skuldadögum, vegna þess að við gerðum ekkert í grænum raforkumálum í 15 ár og í hitaveitunni í 20 ár. Það tekur tíma að vinda ofan af þessu og við verðum að vinna eins hratt og mögulegt er,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson