Laugardalshöllin Byggingin stenst ekki lengur alþjóðlegar kröfur.
Laugardalshöllin Byggingin stenst ekki lengur alþjóðlegar kröfur. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Talsmenn Handknattleiks- og Körfuknattleikssambands Íslands fagna yfirlýsingu stjórnvalda um að ráðast skuli í að byggja nýja þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir, en eftir áralanga baráttu fyrir mannvirkinu eru þeir varkárir í yfirlýsingum um hvenær þeir telja að höllin verði tilbúin til notkunar

Sviðsljós

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Talsmenn Handknattleiks- og Körfuknattleikssambands Íslands fagna yfirlýsingu stjórnvalda um að ráðast skuli í að byggja nýja þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir, en eftir áralanga baráttu fyrir mannvirkinu eru þeir varkárir í yfirlýsingum um hvenær þeir telja að höllin verði tilbúin til notkunar.

Þrjú ráðuneyti, forsætis-, fjármála-, mennta- og barnamálaráðuneytið, og Reykjavíkurborg kynntu á miðvikudaginn samkomulag um byggingu nýrrar þjóðarhallar í fréttatilkynningu. Til stendur að byggja hana í Laugardalnum og verður mannvirkið 55% í eigu ríkisins og 45% í eigu höfuðborgarinnar.

Hannes S. Jónsson er framkvæmdastjóri KKÍ en þegar hann gegndi formennsku hjá KKÍ kallaði hann ítrekað eftir aðgerðum í málinu. Eins og málið blasir við Hannesi telur hann að ríki og borg hafi náð samkomulagi um viðkvæmasta atriðið í ferlinu.

„Nú hafa þau náð samkomulagi um skiptinguna en það hefur á undanförnum árum verið helsta ágreiningsmálið,“ sagði Hannes þegar Morgunblaðið bar þetta undir hann í gær.

Mun rúma 8.600 áhorfendur

Lesendur kannast ef til vill við ýmsar viljayfirlýsingar og fréttatilkynningar í gegnum árin um að til standi að ráðast í byggingu nýrrar hallar sem landsliðin í körfuknattleik og handknattleik muni njóta góðs af. Viljayfirlýsing var til að mynda undirrituð í maí 2022 þar sem stefnt var að því að húsnæðið yrði tilbúið árið 2025 en síðar var því markmiði ýtt aftur til 2026. Það sem er nýtt í málinu er samkomulagið um skiptinguna sem áður hefur verið minnst á og um leið hefur félagið Þjóðarhöll ehf. verið stofnað.

Fyrsta verk Þjóðarhallar ehf. er að efna til forvals og samkeppni um hönnun og byggingu þjóðarhallarinnar. Auk þess tekur félagið við verkefnum framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal sem lætur af störfum samkvæmt tilkynningunni.

Segir þar enn fremur að í samningnum sé byggt á tillögum starfshóps um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga í íþróttum. Höllin mun rísa sunnan við Laugardalshöll upp að Suðurlandsbraut og verður 19.000 m2 að stærð. Samkvæmt frumathugun framkvæmdanefndar er miðað við að byggingin muni taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 á tónleika.

Málið var á hreyfingu

„Gerð var úttekt á þörfinni fyrir húsnæði eins og þetta. Vel hefur verið farið yfir það. Mikil vinna hefur verið í gangi síðasta árið þar sem fundað hefur verið með sérsamböndunum og íþróttafélögunum í Laugardalnum. Fólk heldur kannski að ekkert hafi verið að gerast því það sér ekki þessa vinnu. Þetta er eitt af þeim skrefum sem þarf að taka þótt okkur í íþróttahreyfingunni finnist mál sem þetta aldrei hreyfast nógu hratt. Þetta eru góð tíðindi og nú treystir maður því að málið haldi áfram á fullri ferð. Ég hef trú á því að innan nokkurra ára verði þjóðarhöllin orðin að veruleika,“ segir Hannes.

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ tekur í svipaðan streng og segir að næst á dagskrá hljóti að vera að setja framkvæmdahliðina af stað.

„Ég fagna því að enn eitt skrefið hafi verið tekið svo þetta verði að veruleika. Vonandi fer verkefnið að komast af stað en við hjá HSÍ þurfum að fá svör við því hvað stendur til að gera í ljósi þess að við höfum sýnt því áhuga að taka þátt í að halda HM 2029 eða 2031,“ segir Guðmundur en hann og Hannes hæla báðir Ásmundi Einari Daðasyni ráðherra íþróttamála og segja hann hafa keyrt málið áfram.

Kom ekki til af góðu

Kröfur um nýja þjóðarhöll komu ekki til af góðu. Landsliðin í handknattleik og körfuknattleik hafa leikið landsleiki í undankeppni stórmóta í nokkur ár á sérstökum undanþágum frá evrópsku samböndunum í viðkomandi greinum.

Laugardalshöllin var tekin í notkun árið 1965 og þjónaði landsliðunum vel í áratugi auk þess sem gerðar voru breytingar á henni vegna HM í handknattleik 1995. En kröfur alþjóðasambandanna vegna landsleikja hafa breyst í áranna rás og sú staða getur komið upp að Íslandi verði gert að leika heimaleiki sína erlendis.

Höf.: Kristján Jónsson