Hafsteinn Sigurbjörnsson fæddist 5. október 1931 í Hafnarfirði. Hann lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 29. desember 2023.

Foreldrar hans voru Margrét Berentsdóttir húsfreyja og Sigurbjörn Jónsson skipstjóri. Hafsteinn var elstur sinna alsystkina; næstir honum komu tvíburarnir Helga og Halldór Jón, fædd 1933 (bæði látin), síðan Ólafía, fædd 1938 og yngst Birna, fædd 1942 (látin). Hálfbróðir sammæðra var Rafn Kristján Kristjánsson, fæddur 1927 (látinn) og hálfsystkin samfeðra eru Helgi, fæddur 1957, Grétar, fæddur 1959 og Guðfinna, fædd 1969.

Hafsteinn kvæntist Láru Ágústsdóttur 21. maí 1956 (fædd 9. júní 1937, látin 31. mars 2012). Börn þeirra eru: 1) Jóhanna Guðrún, f. 1954, maki Ásgrímur Ragnar Kárason. Börn: Ursula Ragna, Arnþór og Valþór. 2) Sigurbjörn, f. 1956, maki Sesselja Laufey Allansdóttir. Börn: Hafsteinn Mar, Villimey Kristín Mist og Hrafnkell Allan. 3) Ingólfur, f. 1959, maki Heiðrún Hannesdóttir. Börn: Hannes Ágúst, Lára og Arnbjörn (látinn). 4) Hafdís Dögg, f. 1964, maki Jónas Geirsson. Börn: Trausti Geir og Dagmar Elsa. 5) Berent Karl, f. 1971, maki María Lilja Moritz Viðarsdóttir. Börn: Daney Lára og Viðar Örn fóstursonur.

Hafsteinn ólst upp á Akranesi og lauk þar barnaskóla og gagnfræðaskóla. Hann fór ungur á sjó með föður sínum og útskrifaðist 19 ára gamall úr Stýrimannaskólanum. Starfaði eftir það til sjós sem stýrimaður og skipstjóri á ýmsum bátum sem gerðir voru út frá Akranesi og Sandgerði. Hafsteinn hætti til sjós árið 1959 og hóf störf við Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi þar sem hann lærði vélvirkjun. Nokkrum árum síðar hóf hann nám í pípulögn og stofnaði síðar Pípulagningaþjónustuna þar sem hann starfaði fram á níræðisaldur.

Hafsteinn var virkur í félagsmálum og pólitísku starfi og lét til sín taka á þeim sviðum, sat m.a. í nefndum á vegum Akraneskaupstaðar og í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins. Hann var einn af stofnendum Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi og formaður Alþýðubandalagsins á Akranesi um tíma.

Hafsteinn og Lára byrjuðu sinn búskap á Sólmundarhöfða hjá foreldrum Láru, en fluttu síðar á Vesturgötu 19 á Akranesi á meðan þau byggðu sér heimili á Brekkubraut 26. Þangað fluttu þau árið 1962 og bjuggu til ársins 2002 þegar þau færðu sig um set að Höfðagrund 14. Hafsteinn flutti á Hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfða í maí 2023.

Útför Hafsteins fer fram frá Akraneskirkju í dag, 12. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju: https://mbl.is/go/cqzps

Elsku pabbi, það er komið að kveðjustund í þessu lífi og margs að minnast. Á uppvaxtarárum okkar sáum við þó lítið af þér og minnumst við þín sem sívinnandi ýmist í fjölskyldufyrirtækinu eða í félagsmálunum. Þó strákarnir hafi verið í sveit flest sumur eru minningar frá sumarfríum og helgidögum svo kærar. Við munum eftir sunnudögum þar sem farið var inn í stofu eftir steikina í hádeginu og sungið mis-lagvisst við undirspil mömmu á gítarinn. Við munum líka eftir líflegum umræðum við eldhúsborðið þar sem heimsmálin voru krufin og föstum skotum skotið í allar áttir. Þú innrættir okkur sterka réttlætiskennd og jöfnuð meðal manna þar sem allir skyldu hafa jafnan rétt til menntunar og lífsafkomu. Þú hafðir afskaplega gaman af því að ræða um heimsins gagn og nauðsynjar, við unga fólkið vini okkar og félaga og húsið stóð þeim alltaf opið og þau voru velkomin á öllum tímum sólarhringsins.

Þú varst allur af vilja gerður til að vera til staðar fyrir okkur, þó ekki hafi það alltaf gengið upp sbr. þessa vísu þegar Siggi hafði skilið eftir miða handa þér þegar þú komst heim seint um kvöld, um að mála bogann hans niðri í kjallara:

Þó að ég í þetta sinn,

þreyttur kemst ei ofan.

Seinna skal ég, Siggi minn,

sjálfsagt mála bogann.

Og alltaf gafstu góð ráð. Benni kann þér bestu þakkir fyrir að ala upp í sér það að gefast aldrei upp þótt á móti blási og hafa óbilandi trú á því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Siggi minnist þess þegar hann hætti í háskólanum og spurði hvort hann fengi vinnu hjá þér eftir það. Þá horfðir þú fast á hann og sagði svo: „Ég skal gera það með einu skilyrði – það er að þú látir það aldrei hljóma í mín eyru að þú sjáir eftir þessari ákvörðun að hafa hætt í háskóla.“ Og við það hefur Siggi staðið. Hafdís man þegar hún var skiptinemi í Sviss og að bugast af heimþrá og hringdi í þig og sagðist vilja koma heim. Þá sagðir þú: „Neeeeeii, Hafdís mín, þetta er eitthvað sem þú ætlar að fara í gegnum og þroskast af.“ Og það gerði hún svo sannarlega og sér ekki eftir því. Inga er minnisstæð þolinmæði þín þegar hann trekk í trekk var var áminntur af skólastjóranum fyrir ýmis óhöpp og óknytti í barnaskóla og þú sendir hann heim til skólastjórans til að biðjast afsökunar á framferði sínu. Og kann hann þér bestu þakkir fyrir það. Gunna man eftir því þegar hún var nýflutt inn á Víðigrund og allt orðið kalt og rafmagnslaust í brjáluðum snjóstormi, þá barðist þú labbandi með gaskút og lukt til hennar til að þau fengju smá birtu og yl. Og þetta finnst okkur lýsa þér vel – við áttum alltaf fremsta sætið í hjarta þínu.

Barnabörnin minnst þín með mikilli hlýju og ástúð alla tíð. Þú varst einstakur barnakarl og hafðir ákaflega gaman af því að leika við þau ungu og ræða við þau eldri. Föður- og afahlutverkið var þér alltaf afar hugleikið sbr. þessa vísu sem þú ortir til Inga þegar hann eignaðist frumburð sinn:

Oft ég áður augum leit,

ungan svein á beði.

En góðan föður engan veit,

jafn glaðan djúpt í geði.

Elsku pabbi – hafðu þakkir fyrir allt og allt.

Jóhanna Guðrún (Gunna), Sigurbjörn (Siggi), Ingólfur (Ingi), Hafdís og Berent (Benni).

Ég kynntist Hafsteini þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir 17 árum. Hann og Lára tóku mér opnum örmum og við Hafsteinn áttum einstaklega gott vinasamband sem einkenndist af virðingu og mikilli væntumþykju. Við gátum setið löngum stundum og spjallað enda hafði hann frá mörgu að segja, maðurinn sem hafði lifað hvern stóratburðinn á fætur öðrum á sinni löngu ævi.

Viðar minn var heppinn að eignast þau sem bónusömmu og -afa. Hafsteinn var stoltur af Viðari og lét hann oft vita af því og hrósaði honum fyrir vel unnin störf. Það var Viðari mikils virði og er hann þakklátur fyrir allar stundirnar og samtölin sem þeir áttu.

Daney Lára fæddist árið sem Lára féll frá og var Hafsteinn duglegur að koma í heimsókn, vildi hitta litlu afstelpuna sína sem oftast og nýtti tímann vel til að kenna henni ýmislegt. Hafsteinn sagði okkur oft að Daney Lára væri ljósið sem hjálpaði honum í sorginni.

„Ekki lengur einn á bekk

er ég meðal vina,

því aðra Láru aftur fékk

ekki síðri en hina.“

(Hafsteinn Sigurbjörnsson )

Eftir að hún byrjaði í skóla og fór að lesa var það regla að lesa fyrir afa, enda var yfirleitt einhver þóknun veitt eftir lesturinn sem var mjög vinsælt og kappkostað að lesa sem flestar blaðsíður. Það sama átti við þegar hún fór að læra á píanó, hún vílaði ekki fyrir sér að ferðast með skemmtarann sinn upp á Skaga til að spila fyrir afa. Þegar hann flutti á Dvalarheimilið Höfða var sem betur fer píanó þar sem hún spilaði á fyrir hann og alla nærstadda.

Þau áttu fallegt samband og nutu þess bæði að eyða tíma hvort með öðru og þótti þeim virkilega vænt hvoru um annað. Daney var mikil afastelpa og á eftir að sakna hans og samverunnar með honum mikið. Það sama á við okkur hin, við munum sakna afa um ókomna tíð.

„Ég þér óska góðu gengi

gleði, heilsu líf þitt allt.

Hamingju mikla lengi, lengi,

láns sem ekki er öllum falt.

Ég bið þess að þú ávallt njótir

afls að forðast lífsins sóttir.

Og dugnað, dáð í lífið hljótir

Daney Lára Berentsdóttir.“

(Hafsteinn Sigurbjörnsson)

Elsku Hafsteinn minn, góða ferð og takk fyrir mig.

Þín tengdadóttir,

María
Viðarsdóttir.

Ég hef alla mína tíð verið mikil afastelpa og afi alltaf verið stór partur af mínu lífi og barna minna. Þrátt fyrir mikinn aldursmun vorum við bestu vinir og áttum ótrúlega margt sameiginlegt og gátum talað saman um allt milli himins og jarðar. Við höfðum bæði rosalega gaman af börnum og vorum oft búin að ræða það hvort við ættum ekki að sækja um á leikskóla saman. Við elskuðum landið okkar Ísland og náttúruna og vorum sammála um að við byggjum á fallegasta landi í heimi. Uppáhaldið okkar var að fara í flyover Iceland og mun ég aldrei gleyma þeirri stund þegar við fórum með hann í afmælisferð í október 92 ára gamlan.

Ég var svo heppin að fá að fara í nokkur „road trip“ með afa eftir að amma dó og fékk að sjá nokkra af uppáhaldsstöðunum þeirra saman á Íslandi. Uppáhaldsstaðurinn minn var alltaf sumarbústaðurinn hjá þeim uppi í Ölveri, Tjarnarás. Við afi brölluðum margt og mikið þar enda elskuðum við Ölver og að vera úti í náttúrunni ásamt besta vini okkar, hundinum Vargi. Minningarnar úr Ölveri eru gull og fjarsjóður sem ég gleymi aldrei.

Við afi bjuggum bæði á Brekkubrautinni góðu og var ég líklega daglegur gestur hjá þeim þar þegar ég flutti þangað tíu ára gömul. Það var alltaf líf og fjör heima hjá ömmu og afa og margar minningarnar þaðan.

Amma og afi voru miklir klettar í mínu lífi og ávallt til staðar fyrir mig þegar eitthvað bjátaði á. Þau voru alltaf góð í að hífa mig upp þegar ég þurfti mest á því að halda.

Við afi ræddum mikið um lífið og tilveruna og hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Fjölskyldan og vinir eru okkur fjársjóður og allar þær minningar sem við eigum með þeim. Afi var alltaf duglegur að koma í heimsókn og hitta okkur. Börnin mín elskuðu þegar við kíktum til hans eða fórum með honum ísrúnt um bæinn okkar og hann sagði okkur sögur frá Akranesi. Er svo þakklát fyrir að börnin mín fengu að kynnast afa Hadda og afi að kynnast þeim. Að renna í gegnum allar myndirnar og minningarnar sem við áttum með honum fyllir hjarta okkar og þótt við vitum að hann sé kominn í faðm ömmu aftur eigum við alltaf eftir að sakna hans.

Elsku afi, takk fyrir að allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman og fyrir að vera svona frábær langafi fyrir börnin mín.

Við munum aldrei gleyma þér og öllum sögunum þínum og vináttu.

Ég veit að þú átt eftir að knúsa ömmu og Arnbjörn bróður frá mér og vera duglegur að kíkja niður til okkar.

Takk fyrir allt elsku afi, við elskum þig.

Að gleðja er gjöf sem öllum er fær

að gleðja er gjöf sem er hjartanu nær

að gleðja er gjöf sem sérhyggju slær

að gleðja er gjöf sem öllum er kær.

Eitt bros getur depurð í dugnað breytt

eitt bros getur tárum af hvörmum þér eytt

eitt bros getur hugsjúkum
hugrekki veitt

eitt bros er svo göfugt og kostar ei neitt.

(Hafsteinn Sigurbjörnsson)

Þín

Lára litla.

Látinn er á Akranesi Hafsteinn Sigurbjörnsson pípulagningameistari á 93. aldursári.

Um miðbik síðustu aldar skráði frændi minn Hafsteinn nafn sitt í afmælisdagbók mína með stjörnuspám eins og þær tíðkuðust hjá unglingum þess tíma. Þar segir að maðurinn sé framsækinn, vandvirkur og ábyggilegur, hafi góða framkvæmdahæfileika og eigi gott með að vinna með öðrum, hafi gott lag á að gera aðra hamingjusama jafnvel á eigin kostnað og muni eiga farsælt hjónaband.

Ekki verður annað sagt en að spádómarnir hafi gengið vel eftir, er brugðið er á þá ljósi eftir rúma sjö áratugi.

Það er sjónarsviptir að honum systrungi mínum, er hann hverfur af sjónarsviðinu eftir langa og farsæla vegferð. Hann var alla tíð sannur Skagamaður í bestu merkingu þess orðs, virkur í mannlífinu á Skaga, stundaði sjóinn, eins og margur garpurinn úr þessu þróttmikla sveitarfélagi, stýrimaður á síðutogurum og á sanddæluskipum við öflun hráefnis til Sementsverksmiðjunnar heitinnar. Hann sló hvergi af í þátttöku sinni í atvinnulífinu og var krafti hans og þreki við brugðið í því efni. Eftir að hann komst á miðjan aldur breytti hann nokkuð um starfsvettvang, bætti við menntun sína í sjómennskufræðum, iðnmenntun í pípulagningum og vélvirkjun og stofnaði fyrirtæki utan um þá starfsemi. Þjónustaði hann samborgara sína í þeim efnum á meðan kraftarnir entust og afkomendur og samstarfsmenn tóku við keflinu.

Óneitanlega er fjölbreyttur atvinnuferillinn glæsilegur ekki síður en þátttaka Hafsteins í mannlífinu. Hann var maður félagslyndur og frændrækinn, fróðleiksfús náttúruunnandi, víðlesinn og hagmæltur, áhugasamur um bætt kjör samborgara sinna, ekki síst þeirra sem minna máttu sín. Hann var rammpólitískur svo því sé haldið til haga og gaf engan afslátt á skoðunum sínum í þeim efnum, eindreginn sósíalisti og taldi þann vettvang farsælastan til að ná æskilegum jöfnuði í mannlífinu. Hann var virkur í starfsemi verkalýðsfélaga, sat í ýmsum ráðum og nefndum sveitarfélagsins á sínum tíma og í stjórn Sementsverksmiðjunnar, var ræðumaður á fyrsta maí-hátíðahöldum og var þá ekkert að skafa af hlutunum. Samt tókst honum að vera vinmargur, sem ber hæfileikum hans til að eiga góð samskipti við fólk með ólíkar skoðanir gott vitni. Hann var enda mannvinur og drengur góður.

Það má segja að hann frændi minn hafi látið sér fátt óviðkomandi. Hugurinn var jafnan opinn á langri vegferð, hann skrifaði fjölda blaðagreina um ólík málefni og var ófeiminn við að fara ótroðnar slóðir í þjóðfélagsumræðunni.

Genginn er dugmikill framkvæmdamaður, framsækinn, vandvirkur og ábyggilegur eins og stjörnuspáin segir, afburða fjölskyldumaður, farsæll í hjónabandi með henni Láru sinni og ættrækinn svo af bar. Átti ég því láni að fagna að vera heimagangur hjá þeim hjónum um eins árs skeið eftir að stofnað hafði verið embætti bæjarritara á Akranesi á því herrans ári 1963. Vinátta þeirra hjóna var mér jafnan síðan til mikillar gæfu.

Það er ljúft að mega geyma þessa minningu í huga sér um ókomin ár.

Sverrir
Ólafsson.

Húmar að kveldi, hljóðnar dagsins ys,

hnígur að Ægi gullið röðulblys.

Vanga minn strýkur blærinn blíðri hönd,

og báran kveður vögguljóð við fjarðarströnd.

Ég er þreyttur, ég er þreyttur,

og ég þrái svefnsins fró.

Kom, draumanótt, með fangið fullt af friði og ró.

Syngdu mig í svefninn, ljúfi blær.

Sorgmæddu hjarta er hvíldin jafnan vær.

Draumgyðjan ljúfa, ljá mér vinarhönd,

og leið mig um þín töfraglæstu friðarlönd.

Ég er þreyttur, ég er þreyttur,

og ég þrái svefnsins fró.

Kom draumanótt, með fangið fullt af friði og ró.

(Jón frá Ljárskógum)

Góða ferð í sumarlandið kæri vinur.

Viðar og Dana.