Sigurjón Vilhjálmsson fæddist 10. janúar 1925. Hann lést 30. desember 2023. Útför var 10. janúar 2024.

Kær vinur, Sigurjón Vilhjálmsson, fór heim 30. desember 2023 eins og við skátar tökum til orða þegar skáti deyr.

Sigurjón var mjög öflugur skáti, góður foringi og allt sem hann gerði gerði hann afbragðsvel.

Hann var giftur Guðrúnu Arnórs sem var fædd 1933 og dáin árið 2011. Þau hjónin voru mjög samrýnd. Þau áttu sumarbústað í Grímsnesi og ræktuðu þar mikið af trjám svo úr varð fallegur skógur. Skógrækt var áhugamál þeirra og mátti þar finna sjaldgæf tré sem og önnur tré.

Sigurjón kom víða við í skátastarfi sínu. Hann var ylfingaforingi í Njarðvíkum frá 1962-67, ylfingaforingi hjá Hraunbúum í Hafnarfirði í framhaldinu og síðan ylfingaforingi í skátafélaginu Vífli í nokkur ár. Hann fór til Englands á Gilwell Park og fékk viðurkenningu árið 1973 um að hafa staðist alþjóðlegt próf ylfingaforingja (Gilwell). Hann var félagsforingi skátafélagsins Vífils 1974 til 1982. Eftir það var Sigurjón kosinn í Bandalag íslenskra skáta sem formaður alþjóðaráðs. Í þessu starfi kom hann á góðu samstarfi við erlenda skáta sem gerði það að skátaforingjar hjá okkur fengu tækifæri til að fara á ýmis námskeið í Evrópu. Það var mjög gott að starfa með Sigurjóni, hann var mjög skemmtilegur, fyndinn og hafði góða frásagnargáfu. Þessir eiginleikar og lifandi og hressilegur karakter hans kom vel fram þegar hann var ritstjóri Skátablaðsins og Foringjans. Blöðin urðu rík að efnisinnihaldi og lifandi og áhugaverð vegna hans aðkomu.

Við skátarnir eigum honum mikið að þakka. Til dæmis það að samskipti við erlenda skáta tókust mjög vel meðan hann kom þar að málum. Hann þurfti oft að fara til Evrópu vegna atvinnu sinnar og notaði hann þá iðulega tækifærið til að hafa samband við skáta þar. Þetta bar mikinn ávöxt, samskipti íslenskra skáta og skáta í Evrópu urðu mjög góð. Af þessari upptalningu má sjá glögglega hversu dýrmætt starf Sigurjón innti af hendi.

Við Sigurjón áttum mjög gott samstarf og vorum góðir félagar í skátastarfi sem og utan þess.

Við sendum samúðarkveðjur til allra ættingja hans.

María Hjálmarsdóttir og Ágúst Þorsteinsson fyrrverandi skátahöfðingi.

Hann Sigurjón okkar Vilhjálmsson er farinn heim.

Þetta segjum við skátar þegar einhver okkar félaga kveður jarðvistina og við minnumst góðra tíma og gleðistunda sem við höfum átt með viðkomandi og öðrum skátasystkinum.

Sameiginleg saga okkar hófst 1969 þegar Sigurjón kom inn í skátastarf í Garðahreppi og varð strax driffjöður í starfi hins unga skátafélags. Hann, ásamt Sigmari Sigurðssyni, stýrði uppbyggingu og starfi ylfinga í félaginu en ylfingar var heiti þeirra stráka sem hófu skátaferil sinn á þessum árum. Saman sköpuðu þessir félagar ævintýraveröld í ylfingaherberginu á Hraunhólunum 12 með stjörnuhimni. Ylfingastarfið var
þá samofið ævintýri Rudyards Kiplings, um Mowgli skógarstrák og dýrin stór og smá í kringum hann. Gunnar Kristinn, sonur Sigurjóns, kom inn í ylfingastarfið með okkur á þessum fyrstu árum og hann málaði m.a. myndir úr Dýrheimum á alla veggi ylfingaherbergisins sem jók enn á ævintýrablæinn. Þessar myndir og minningar lifa enn í hugum okkar eldri skáta úr félaginu. Starfið var ekki bundið við húsið en Hraunhólarnir og svæðið í kringum félagsheimili okkar í Hraunhólunum var ævintýraveröld sem heillaði unga gutta eins og okkur. Sigurjón var snillingur í að segja okkur sögur, glæða þær lífi og tengja við ylfingastarfið. Þarna var lagður grunnur að starfi okkar beggja í skátahreyfingunni í Skátafélaginu Vífli en að þeim grunni búum við enn.

Samstarf Sigurjóns, Ágústs Þorsteinssonar og fleiri öflugra skáta í Garðahreppi á þessum tíma átti eftir að lifa lengi og setja mark sitt á skátastarfið og bæjarbraginn næstu áratugina og gerir í raun enn.

Framlag Sigurjóns til skátahreyfingarinnar var ekki bundið við félagið okkar því hann fylgdi Ágústi Þorsteinssyni í stjórn Bandalags íslenskra skáta þegar Ágúst tók við sem skátahöfðingi árið 1981 og saman unnu þeir frábært starf í þágu skátahreyfingarinnar. Þar stýrði Sigurjón alþjóðastarfi hreyfingarinnar en í gegnum störf sín sem fagmaður og skáti átti Sigurjón vini og kunningja úti um allan heim.

Þegar við hugsum til baka þá koma upp alls konar minningar sem tengjast Sigurjóni sem flestar fela í sér stuðning, reddingar og óeigingjarnt framlag til þessa unga skátafélags sem í dag er að nálgast sextugt. Húsamálun, efnisöflun, fermingarskeyti, útgáfa á Fermingarblaði Vífils, Vífilsmót og margt, margt fleira er meðal þess sem kemur upp úr minningabankanum þegar við hugsum til baka og var Sigurjón með okkur í þessu öllu.

Sigurjón varð félagsforingi Skátafélagsins Vífils árið 1981 og sat í stjórn félagsins í áraraðir auk þess að vera bakhjarl og óþreytandi leiðbeinandi þeirra sem tóku við starfinu í framhaldinu.

Árið 1985 var hann gerður að heiðursfélaga Skátafélagsins Vífils og fékk afhent gullmerki félagsins sama ár en það er æðsta viðurkenning sem félagið veitir.

Sigurjón var frábær skátaforingi, leiðtogi og vinur og var einstaklega lærdómsríkt og skemmtilegt að fá að kynnast honum og starfa með honum.

Sigurjón fylgdist alltaf vel með starfi félagsins síns og kom hann ávallt í kaffihlaðborðið á sumardeginum fyrsta og svo auðvitað í árlegt jólaboð Vífils meðan heilsan leyfði.

Um leið og við skátar í Skátafélaginu Vífli þökkum Sigurjóni fyrir allt þá sendum við fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Björn Hilmarsson
og Jónatan Smári
Svavarsson.