Án titils Eitt af verkum Þórs Sigurþórssonar af sýningunni Vísar.
Án titils Eitt af verkum Þórs Sigurþórssonar af sýningunni Vísar.
Tvær sýningar verða opnaðar í dag, laugardaginn 13. janúar, kl. 14 í Hafnarborg. Annars vegar verður opnuð sýningin Flæðarmál, þar sem litið er yfir farsælan feril listakonunnar Jónínu Guðnadóttur, og hins vegar Vísar, einkasýning myndlistarmannsins …

Tvær sýningar verða opnaðar í dag, laugardaginn 13. janúar, kl. 14 í Hafnarborg. Annars vegar verður opnuð sýningin Flæðarmál, þar sem litið er yfir farsælan feril listakonunnar Jónínu Guðnadóttur, og hins vegar Vísar, einkasýning myndlistarmannsins Þórs Sigurþórssonar á nýjum verkum í Sverrissal safnsins. Flæðarmál standa til 29. apríl en Vísar til 24. mars.

Jónína Guðnadóttir (f. 1943) hefur „um árabil verið í framvarðarsveit íslenskra leirlistamanna og vakti snemma athygli fyrir einstaka nytjahluti“, eins og segir í tilkynningu. „Hún hefur jafnframt þróað sjálfstætt myndmál í listaverkum sem bera þekkingu hennar á leirnum gott vitni um leið og einstakt formskyn og hugmyndaauðgi eru áberandi.“ Yfirlitssýningin Flæðarmál spannar allan feril Jónínu en þar verður sýnt úrval af verkum listakonunnar, allt frá nytjahlutum sem hún vann á fyrstu árunum eftir útskrift til verka sem unnin voru á síðastliðnu ári.

Í verkum Þórs Sigurþórssonar (f. 1977) „má finna viss leiðarstef – vísa – sem áhorfandanum er látið eftir að sjá hvert leiða hann. Þá vinnur listamaðurinn gjarnan með fundna hluti eða hversdagslega hluti sem hann setur í nýtt samhengi svo að óvæntar tengingar myndast þvert á tíma og rúm. Efniviðurinn inniheldur leifar af tíma og vekur upp vangaveltur um endurtekningu, hringrás og gang tímans. Skilningi okkar á hversdagslegum hlutum er þannig snúið á hvolf,“ segir m.a. um sýninguna Vísar.