Sanaa Gríðarleg mótmæli voru í höfuðborg Jemen í kjölfar loftárása Bandaríkjamanna og Breta í gærmorgun á hernaðarvirki Húta í Jemen.
Sanaa Gríðarleg mótmæli voru í höfuðborg Jemen í kjölfar loftárása Bandaríkjamanna og Breta í gærmorgun á hernaðarvirki Húta í Jemen. — AFP/MOD/Sgt Lee Goddard
Fyrir sólarupprás í gærmorgun gerðu Bandaríkjamenn og Bretar sameiginlega árás á hernaðarskotmörk Húta í Jemen í kjölfar margra vikna árása Húta á skip sem sigla með varning á Rauðahafinu. Árásirnar kostuðu fimm manns lífið og særðu sex manns að sögn talsmanna Húta í gær

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Fyrir sólarupprás í gærmorgun gerðu Bandaríkjamenn og Bretar sameiginlega árás á hernaðarskotmörk Húta í Jemen í kjölfar margra vikna árása Húta á skip sem sigla með varning á Rauðahafinu. Árásirnar kostuðu fimm manns lífið og særðu sex manns að sögn talsmanna Húta í gær.

Mikil mótmælaalda braust út í Jemen í gær og í höfuðborginni Sanaa var sagt að ein milljón mótmælenda hefði safnast saman undir fánum Jemen og Palestínu og kallað „dauði fyrir Bandaríkin, dauði fyrir Ísrael.“ Hútar styðja Hamas-hryðjuverkasamtökin og réttlæta þannig árásir sínar á skip í Rauðahafinu og segja árásirnar hefnd fyrir stríð Ísraels í Palestínu. Fréttamenn AFP sögðu að mótmæli hefðu einnig verið í borgunum Hodeida og Ibb, sem eru líkt og höfuðborgin á valdi uppreisnarmanna Húta. Þá voru einnig einhver mótmæli í Teheran í Íran.

„Ef Bandaríkin og bandamenn þeirra ákveða að lýsa yfir opnu stríði gegn okkur, þá erum við tilbúin. Við eigum ekki annarra kosta völ en að bera sigur úr býtum eða falla sem píslarvottar,“ sagði Abdel Azim Ali, einn mótmælenda, í samtali við AFP í gær.

Mótmælendur sögðu einnig að eftir árásirnar væru Bandaríkin og Bretland „lögmæt skotmörk“ þeirra og þau gætu búist við að þurfa að gjalda árásirnar dýru verði.

Bæði Bretar og Bandaríkjamenn réttlættu árásirnar og sögðu þær vera nauðsynleg viðbrögð við aðgerðum Húta á Rauðahafi og þær hefðu verið hóflegar. Bretar sögðu að viðvarandi árásir Húta á skipaflutninga á Rauðahafinu þar sem m.a. breskum skipum hefði verið ógnað sýndu lögmæti aðgerðanna í fyrrinótt.

Margar ríkisstjórnir sem eru lítt hallar undir vesturveldin fordæmdu árásirnar, eins og Íran og Rússland, en einnig Tyrkland sem er aðili að Nató. Nasser Kanani, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, sagði að árásirnar myndu ekki hafa neina aðra niðurstöðu en að auka óöryggi og óstöðugleika á svæðinu.

Tilkynning kom frá Hvíta húsinu í gær þar sem sagði að Bandaríkin væru ekki að leita eftir átökum við Íran, þrátt fyrir að Íran sjái Hútum fyrir vopnum og drónum til að ráðast á skipin þó að það sé gegn vilja stjórnvalda Bandaríkjanna. Seinna um daginn, eftir hótanir Húta um hefndir vegna árásanna, varaði John Kirby, öryggisráðgjafi Hvíta hússins, við hefndum og að forseti Bandaríkjanna myndi ekki hika við að grípa til frekari aðgerða ef þess þyrfti.

Árásir Húta á skipaflutninga í Rauðahafinu hafa þegar haft áhrif á viðskiptalíf heimsins með seinkunum á varningi milli staða á þessari mikilvægu siglingaleið. Talið er að um 12% heimsverslunar með skipum fari að jafnaði um svæðið en frá nóvember hafi umfang gámaflutninga minnkað um 70%.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti alla aðila til að auka ekki á spennuna og víst er að margir deila áhyggjum hans yfir ástandinu. Öryggisráð SÞ hélt neyðarfund vegna stöðunnar seint í gær.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir