Grjót Steinn kynnist Urði og Bergi.
Grjót Steinn kynnist Urði og Bergi.
Ég heiti Steinn nefnist barnasýning eftir Lucas Rastoll-Mamalia í leikstjórn höfundar sem leikfélagið Reine Mer frumsýnir í Tjarnarbíói á morgun, sunnudag, kl. 14. Samkvæmt upplýsingum frá leikhúsinu er verkið leikið án orða, en um er að ræða…

Ég heiti Steinn nefnist barnasýning eftir Lucas Rastoll-Mamalia í leikstjórn höfundar sem leikfélagið Reine Mer frumsýnir í Tjarnarbíói á morgun, sunnudag, kl. 14.

Samkvæmt upplýsingum frá leikhúsinu er verkið leikið án orða, en um er að ræða hálfgrímusýningu „þar sem notast er við trúðatækni til að fjalla um leit persónu að sjálfinu, um fjölbreytileika, umburðarlyndi, samskipti og inngildingu“, eins og segir í viðburðarkynningu.

Þar kemur fram að Steinn er lítil steinvala sem er að reyna að fóta sig í heimi stórgrýtis. „Hann hittir fyrir grjótið Urði og hnullunginn Berg og fyrst um sinn kemur þeim síður en svo vel saman. En eftir því sem líður á söguna átta þau sig á því að þó þau séu ólík geta þau vel verið vinir. Saman eru þau sterkari og geta tekist á við hvað sem er. Verkið gerist á óræðum stað þar sem skuggar og ljós mæta rafmögnuðum hljóðheimi.“

Sýningin er ætluð börnum á aldrinum fimm til tólf ára. Hún er 60 mínútur að lengd án hlés. Leikarar sýningarinnar eru Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, Sumarliði V. Snæland Ingimarsson og Lucas Rastoll-Mamalia. Um gervi sér Francesca Lombardi. Lýsing er í höndum Juliette Louste og Lucas Rastoll-Mamalia á heiðurinn af vídeóhönnun verksins. Sacha Bernardson samdi tónlistina og syngur einnig. Listrænn ráðunautur er Dor Mamalia sem jafnframt sá um hreyfihönnun. Næstu sýningar verða sunnudagana 28. janúar og 4. febrúar kl. 14 báða daga.