— Morgunblaðið/Ásdís
Nú verður þú áttræður í vikunni, hvernig leggst það í þig? Já, á þriðjudaginn verð ég kominn á níræðisaldurinn og það leggst mjög vel í mig. En það sem gerir mig dálítið undrandi er hvað lífið hefur liðið gífurlega fljótt og alltaf hraðar og hraðar með aldrinum

Nú verður þú áttræður í vikunni, hvernig leggst það í þig?

Já, á þriðjudaginn verð ég kominn á níræðisaldurinn og það leggst mjög vel í mig. En það sem gerir mig dálítið undrandi er hvað lífið hefur liðið gífurlega fljótt og alltaf hraðar og hraðar með aldrinum. Þegar ég lít til baka geri ég mér grein fyrir því hvað lífið er stutt. Það að lifa og vera hluti af þessu lífsundri fyllir mig lotningu. Og að vera tónlistarmaður í ofanálag er gjöf því tónlistin er geysilega sterkt og heilandi andlegt afl.

Ertu enn að kenna?

Ég hætti að kenna fyrir rúmu ári þegar ég var búinn að kenna í tæp sextíu ár, en ég byrjaði að kenna nítján ára gamall og fékk strax gífurlegan áhuga á kennslu. Ég veit ekki hvað ég hef kennt mörgum en þeir eru ansi margir. Einhver sagði við mig að ég hefði kennt um 95% af öllum sellóleikurum í Sinfóníuhljómsveitinni og svo eru aðrir nemendur mínir sellókennarar úti um allt land. Ég er svo heppinn maður og hef fengið að umgangast svo mikið af góðu fólki og nemendur mínir eru mér mjög dýrmætir.

Nú heldur þú afmælistónleika, en hvað annað ætlar þú að gera í tilefni dagsins?

Ég ætla að fara út að borða með konunni minni og börnunum. Við höfum haldið stórar afmælisveislur í gegnum áratugina og mér fannst það orðið gott. En svo langaði mig að halda þrenna tónleika á afmælisárinu.

Hvernig verða þessir tónleikar?

Fyrstu tónleikarnir af þrennum verða næstu helgi í Seltjarnarneskirkju en svo mun ég halda tvenna aðra tónleika á árinu; einleikstónleika í september og síðan lokatónleika með konunni minni, fiðluleikaranum Guðnýju Guðmundsdóttur, í nóvember. Svo sé ég hvað verður eftir af gamla manninum þegar þessu er lokið. Líkaminn eldist og orkan minnkar og þó ég sé í ágætu formi þá er ég áttræður. En ég hef alltaf þessa ástríðu eins og ég væri ungur maður og hún rekur mann áfram.

Í tilefni af stórafmælinu heldur Gunnar tónleika laugardaginn 20. janúar kl. 16 í Seltjarnarneskirkju. Meðleikari á þessum tónleikum er píanóleikarinn Jane Ade Sutarjo. Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir. Að tónleikum loknum verður boðið upp á léttar veitingar.