Einbeittur Alireza Firouzja í þungum þönkum á Reykjavíkurskákmótinu 2019.
Einbeittur Alireza Firouzja í þungum þönkum á Reykjavíkurskákmótinu 2019. — Ómar Óskarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn endanlegi keppendalisti áskorendamótsins sem hefst 2. apríl í Toronto í Kanada er nú loksins kominn fram. Þar munu keppa: Nepomniachtchi, Caruana, Nakamura, Firouzja, Abasov, Vidit, Praggnanandhaa og Gukesh

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Hinn endanlegi keppendalisti áskorendamótsins sem hefst 2. apríl í Toronto í Kanada er nú loksins kominn fram. Þar munu keppa: Nepomniachtchi, Caruana, Nakamura, Firouzja, Abasov, Vidit, Praggnanandhaa og Gukesh. Ekki verður sagt að tilkoma þessa lista teljist góð meðmæli með því fyrirkomulagi sem notað er til að velja keppendur áskorendamótsins. Síðasti maður um borð, Íraninn Alireza Firouzsja, smokraði sér inn í mótið á þann hátt sem opinberar fullkomlega hve vitlaust það er að láta elo-stig hafa það vægi sem raun hefur orðið á. Kapphlaup Firouzja snerist um að komast upp fyrir fimmta mann á elo-lista FIDE í janúar, Wesley So. Í humátt á eftir So í byrjun desember sl. komu Lenier Dominguez og Anish Giri. Til þess að hækka nægilega á elo-stigum setti Firouzja á svið keppni og bauð til leiks þrem lítt þekktum skákmönnum. Hlaut hann þar 5½ vinning af sex mögulegum sem dugði þó ekki til að komast upp fyrir So á stigalistanum. Stuttu síðar ákvað FIDE að keppnin yrði ekki tekin til útreikninga fyrir janúarlistann. Nú voru góð ráð dýr fyrir Firouzja sem ákvað að hætta við þátttöku á HM í hraðskák/atskák en hélt þess í stað til smábæjarins Cartres í Frakklandi þar sem fram fór fremur veikt opið mót. Þátttaka hans þar hafði líka yfirbragð sviðssetningar; hann vann allar sjö skákir sínar og hækkaði um 5,6 elo-stig. Með því komst hann upp fyrir Wesley So svo munaði 2 elo-stigum og sætið í áskorendamótinu tryggt!

Eftir þennan skrípaleik vaknar spurningin hvort gamla keppnisfyrirkomulag FIDE, að halda svæðamót þar sem skákmenn allra aðildarþjóða FIDE eru gjaldgengir, þá millisvæðamót og loks áskorendakeppni, sé ekki besta og sanngjarnasta leiðin til að finna áskorendur heimsmeistarans.

Skákþing Reykjavíkur hafið – Mótið í Wijk aan Zee hefst í dag

Í opnunarræðu Skákþings Reykjavíkur 2024 minntist Gauti Páll Jónsson Ríkharðs Sveinssonar, formanns TR, sem féll frá á dögunum. Ríkharður var einn okkar besti alþjóðlegi skákdómari og fyrir TR er missirinn mikill en Ríkharður hafði starfað í stjórnum félagsins um áratugaskeið.

Í dag hefst svo stórmótið í Wijk aan Zee. Í kynningu mótsins hefur verið vakin athygli á skák sem tefld var í b-flokki keppninnar fyrir margt löngu:

WAZ 1995:

Roberto Cifuentes – Vadim Zvjaginsev

Slavnesk vörn

1. d4 e6 2. Rf3 d5 3. c4 Rf6 4. Rc3 c6 5. e3 Rbd7 6. Dc2 b6 7. Be2 Bb7 8. O-O Be7 9. Hd1 O-O 10. e4 dxe4 11. Rxe4 Dc7 12. Rc3?

Misráðinn leikur. Eftir 12. Rxf6+ Rxf6 13. c5! heldur hvítur traustu frumkvæði.

12. … c5 13. d5 exd5 14. cxd5 a6 15. Rh4 g6 16. Bh6 Hfe8 17. Dd2 Bd6 18. g3?

Siglir beint inn í slæma stöðu. Peðsfórnin 18. Rf5!? gaf betri möguleika.

18. … b5 19. Bf3 b4 20. Re2 Re4 21. Dc2 Rdf6 22. Rg2 Dd7 23. Re3 Had8 24. Bg2

Svartur er búinn að byggja upp yfirburðastöðu og lætur nú vaða…

24. … Rxf2! 25. Kxf2 Hxe3! 26. Bxe3 Rg4+ 27. Kf3 Rxh2+ 28. Kf2 Rg4+ 29. Kf3 De6! 30. Bf4

30. Bxc5 dugar skammt, 30. … Bxc5 31. Dxc5 Hxd5! og mátar.

30. … He8 31. Dc4

Veik tilraun til að halda stöðunni saman en nú kemur lokafléttan.

31. … De3+! 32. Bxe3 Hxe3+ 33. Kxg4 Bc8+ 34. Kg5 h6+ 35. Kxh6 He5!

Hótar máti á f8 eða h5. Það er engin vörn og hvítur gafst upp.