Einar Jörgens Hansson fæddist 23. apríl 1936. Hann lést 21. desember 2023. Útför fór fram 9. janúar 2024.

Ástkær móðurbróðir minn Einar Jörgens Hansson er fallinn frá eftir farsæla ævi. Mínar fyrstu minningar um Einar eru af honum gantast við mig á heimili afa og ömmu, Lóu og Hans, á Garði. Það var eftirsóknarvert að alast upp í alfaraleið á Austurvegi í hjarta Selfoss og fylgjast með þorpinu þróast úr sveit í bæ. Einar tók virkan þátt í þróunar bæjarins með byggingu íbúðarhúsa fyrir sig og fjölskylduna og námi og starfi í bæjarfélaginu. Hann hafði metnað fyrir hönd samfélagsins og sagði ætíð nýjustu fréttir af þróun þess. Oft var kátt á Garði og mikill gestagangur. Einar veitti okkur krökkunum alltaf athygli og hafði gaman af því að stríða okkur. Við tefldum við afa og amma stóð í eldhúsinu og skrafaði við gesti og reyndi að hafa hemil á ærslaganginum í okkur. Einar tók virkan þátt í bústörfum foreldranna fyrstu árin á Garði og ég náði að upplifa vinnu við kartöfluuppskeru í stórum kálgarði við húsið í miðjum bænum.

Það var ætíð kært milli systkinanna fjögurra á Garði og mikill samgangur milli allra heimilanna þegar við krakkarnir vorum að alast upp. Einar hélt alla tíð góðum tengslum við systur sínar og var reglulegur gestur hjá Gunnu í Þrándarholti, Lóló á Selfossi og síðar á Höfn og heima á Ægissíðu. Einar og móðir mín Þorbjörg (Obba) voru náin á uppvaxtarárunum og alla tíð var einkar hlýtt milli þeirra. Virðing og væntumþykjan sem þau báru hvort til annars er til eftirbreytni.

Barnaafmælin hjá Einari og Hrönn í Stekkholti eru minnisstæð. Veisluborðið svignaði undan hnallþórum og þegar líða tók á afmælið var fátt skemmtilegra en að fara með Einari að frystikistunni þaðan sem hann dró fram dýrindis íspinna. Einar var mjólkurfræðingur að mennt og starfaði hjá Mjólkurbúi Flóamanna austast á Austurveginum. Hann undi sér vel við starf sitt og hefði rétt eins og afi Hans viljað geta unnið allt fram á síðasta dag. Hann lagði metnað sinn í að vinna hágæðavörur eins og fram kom þegar hann lét af störfum eftir 56 ár hjá mjólkurbúinu. Það var ætíð gott að koma í Stekkholt og vel hugsað um okkur krakkana hvort sem við dvöldum þar í skemmri eða lengri tíma. Það var tilbreyting fyrir sveitastrák að dvelja á Selfossi og eiga góða leikfélaga í Óla og vinum hans.

Eftir að móðir mín lést fyrir tíu árum fórum við Einar að heyrast oftar og við Felix komum við hjá þeim Hrönn og seinna hjá honum. Einar var mikill fjölskyldumaður og þau hjónin mjög samhent og höfðingjar heim að sækja. Hann var einkar stoltur af börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Hann sagði okkur ætíð fréttir af þeim og þeirra afrekum í námi, störfum og íþróttum.

Það sem er eftirminnilegast við Einar er hversu mikill húmoristi hann var. Það var alltaf létt yfir honum. Hann sá alltaf það jákvæða við lífið og tilveruna og gantaðist í hverju einasta samtali. Húmorinn var Einari í blóð borinn. Hann sagði skemmtilega frá og endaði oftast okkar samtöl á hnyttinn hátt.

Við Felix vottum fjölskyldu Einars okkur dýpstu samúð. Minning um mætan mann mun lifa með okkur öllum.

Baldur Þórhallsson.

Einar Jörgens Hansson mjólkurfræðingur verður jarðsunginn frá Selfosskirkju í dag 9.1. 2024. Okkur langar til að minnast þess með nokkrum orðum. Hversu lánsöm við vorum þegar við eignuðumst nýja nágranna og vini, þau Einar Jörgens Hansson og konu hans Hrönn Pétursdóttur. Það var upp úr aldamótum sem við fjölskyldan létum draum okkar rætast um að fara í einbýlishús og keyptum hús sem var við hliðina á þeirra húsi. Frá fyrsta degi fundum við hversu velkomin við vorum í þetta nágrenni. Við höfðum ekkert þekkt þau áður en við fluttum en við komum með þrjú ung og fjörug börn með okkur og hund í nágrenni við þessi sómahjón. Þau voru komin vel yfir miðjan aldur og farið að róast í kringum þau en aldrei bar skugga á okkar sambýli öll þau ár sem við vorum nágrannar og vinskapurinn óx með ári hverju, þrátt fyrir að nokkur aldursmunur væri á okkur.

Einar var einstaklega glaðlyndur og hjálpsamur, lagði oft til góð ráð við framkvæmdir okkar á húsinu og í garðinum og gaf sér alltaf góðan tíma við að spjalla við krakkana. Við dáðumst alltaf að því hvað þau hjón voru natin við að halda öllu snyrtilegu og fallegu í kringum sig. Gaman var að fá allar ferðasögurnar frá ferðum þeirra um landið í húsbílnum sínum og einnig frá ferðum þeirra erlendis. Við skiptumst líka á að sinna nágrannavörslu við húsin okkar þegar við brugðum okkur af bæ.

Einar var einstaklega duglegur við að samgleðjast okkur við ýmis tækifæri, hvort sem það snerti framvindu okkar við að koma húsinu okkar eða garði í endanlegt horf, nýr bíll var keyptur eða það sem snerti framgöngu og sigra krakkanna okkar í leik og starfi, enda dáðu krakkarnir þau hjón og virtu. Einar var líka mjög stoltur af sínum afkomendum og deildi þeirri gleði með okkur með því að segja okkur frá þeirra framvindu.

Einar laumaði iðulega inn um bréfalúguna hjá okkur Fréttablaðinu og Dagskránni eftir að hætt var að bera þau blöð í hús, um leið og hann náði í blöðin fyrir sig, yfirleitt snemma dags. Ýmsu öðru laumaði hann að okkur sem hann taldi sig ekki lengur hafa not fyrir. Þannig var Einar alltaf elskulegur og kátur og tilbúinn að gefa af sér.

Segja má að erindið hér að neðan úr Hávamálum hafi átt mjög vel við hann.

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum)

Eftir að þau hjón fluttu úr húsinu sínu 2018 í minna og hentugra húsnæði héldum við áfram að vera í sambandi og fylgdumst hvert með öðru. Hrönn eiginkona Einars lést árið 2019.

Við verðum ævinlega þakklát fyrir að hafa eignast svona góða nágranna og vini.

Við sendum innilegar samúðarkveðjur til allra aðstandenda.

Hvíl í friði elsku Einar okkar.

Olga og Jóhann
í Hólatjörninni.

Nýtt ár heilsar, jólaljósin lýsa upp myrkrið og þau setja svip á bæinn okkar Selfoss. Á aðventunni kvaddi vinur okkar hjóna og fyrrverandi samstarfsmaður Einar Jörgens Hansson þetta jarðlíf á 87. aldursári. Einar byrjaði ungur að vinna í Mjólkurbúi Flóamanna, störfin þar vöktu áhuga hans á mjólkurfræði og hann hóf nám í Iðnskóla Selfoss. Eftir námið gerðist hann mjólkurfræðingur í MBF og vann við framleiðslu á vörum úr mjólk í ýmsum deildum en lengst af vann hann í mjölvinnslunni en þar varð til undanrennuduft og kálfamjöl. Hann var traustur starfsmaður, duglegur, félagslyndur og hafði góðan húmor og stundum til í smá stríðni.

Hann vann í MBF í rúm 50 ár og upplifði því miklar breytingar á uppbyggingu og vinnsluaðferðum á mjólk. Hann lét til sín taka í félagsmálum og starfaði um árabil í stjórn starfsmannafélags MBF. Þar lágu leiðir okkar saman, það var gott að vinna með Einari, hann var duglegur og úrræðagóður.

Eitt eftirminnilegasta verkefni okkar var þegar starfsmannafélagið ákvað að byggja sumarhús og síðan hvar reisa ætti húsið, fyrir valinu varð lóð í landi Hæðargarðs við Kirkjubæjarklaustur. Í þessu verkefni voru ótal hlutir sem þurfti að leysa, margar ferðir voru farnar og oft var komið við í Vík hjá Fjólu og Birgi Hinrikssyni sem jafnan slóst með í för okkar. Ógleymanleg er helgin sem við fórum með hlaðinn bíl af innréttingum og innbúi í húsið, öll stjórnin mætt til að koma þessu öllu fyrir, og um hádegi á sunnudeginum var allt tilbúið þegar rútan með félaga okkar frá Selfossi renndi í hlaðið í vígsluna á húsinu. Þetta var stór stund og vinur okkar Einar ljómaði af ánægju. Einar tók þátt í öllum ferðum vor og haust til að gera bústaðinn tilbúinn til útleigu, minningarnar frá þessum ferðum eru ógleymanlegar.

Í nokkur ár var rekið pöntunarfélag starfsmanna MBF. Einar var umsjónarmaður í því félagi og naut sín í innkaupum og afgreiðslu á vörum, ég átti þess kost að vera gjaldkeri í því félagi og var samstarfið við Einar mjög gott.

Einar giftist Hrönn Pétursdóttur, voru þau samhent hjón og oft nefnd í sama orðinu. Þau bjuggu alla sína tíð á Selfossi og fjölskyldan stækkaði. Föðurhjartað var stórt, hann hvatti börnin áfram í leik og starfi. Hann var mikill fjölskyldumaður og fylgdist vel með hvað hver og einn var að fást við. Einar bjó síðustu árin á Hjúkrunarheimilinu Ljósheimum en samt svo ern að á hverjum degi tók hann göngutúr og kom þá jafnan við í íbúðinni sinni á Austurvegi 39a.

Við Óli kveðjum vin okkar Einar Jörgens Hansson með virðingu og þökk fyrir góða vináttu í gegnum árin.

Pétur, Hans, Ólafur, Kristín og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Megi kærleiksljósið senda birtu og yl í hjörtu ykkar.

Kristín Björnsdóttir.

Fallinn er frá góður vinur og félagi, Einar Hansson. Hann lést eftir stutt veikindi.

Einar vann hjá Mjólkurbúi Flóamanna í yfir 50 ár. Þessi árafjöldi segir meira en mörg orð um dugnað hans, hæfi og áreiðanleika og traust fyrirtækisins á honum. Allt þetta þekkjum við, vinnufélagar hans til margra áratuga. Við hugsum líka um það, að í atvinnulífi samtímans er þetta varla hægt, svo ekki sé talað um árafjöldann hjá sama fyrirtæki. Einnig vann hann lengi og mikið fyrir starfsmannafélagið

Einar var mikill gæfumaður í einkalífinu, hann saknaði þess mikið þegar hann missti konu sína, en það hvað hann var félagslyndur, ræðinn og jákvæður stytti daginn mikið. Öllum þessum eiginleikum kynntumst við vel.

Hans verður sárt saknað í hópnum okkar. Tilsvör hans og athugasemdir, við hin ýmsu tilefni, léttu mjög oft hláturtaugarnar, enda komu þær á hárréttu augnabliki.

Í okkar hópi, gamalla vinnufélaga sem hittast reglulega, var Einar miðpunkturinn.

Samfylgdina, samstarfið, samveruna og glaðværðina þökkum við af alhug.

Fyrir hönd hópsins sendum við börnum Einars og aðstandendum öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur Eiríksson, Gunnar Kjartansson.