Liðskiptaaðgerð Mikil aukning varð í liðskiptaaðgerðum í fyrra.
Liðskiptaaðgerð Mikil aukning varð í liðskiptaaðgerðum í fyrra. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjöldi liðskiptaaðgerða var nær tvöfalt meiri í fyrra en árið 2022, en alls voru aðgerðirnar á hné og mjöðm 2.138 á síðasta ári samanborið við 1.344 árið áður. Flestar aðgerðirnar voru gerðar á Klíníkinni, 706 talsins, næstflestar á Landspítalanum…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fjöldi liðskiptaaðgerða var nær tvöfalt meiri í fyrra en árið 2022, en alls voru aðgerðirnar á hné og mjöðm 2.138 á síðasta ári samanborið við 1.344 árið áður. Flestar aðgerðirnar voru gerðar á Klíníkinni, 706 talsins, næstflestar á Landspítalanum 587, á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi voru gerðar 357 aðgerðir, 297 á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en fæstar á Handlæknastöðinni í Glæsibæ, 191. Þetta kemur fram á vef landlæknisembættisins.

Um áramót biðu alls 1.592 einstaklingar eftir liðskiptaaðgerð, þar af biðu 1.092 eftir hnjáskiptum en 500 eftir mjaðmaskiptum. Flestir bíða eftir liðskiptum á Landspítalanum eða 997 manns, 266 bíða eftir liðskiptum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, 233 eru á biðlista Sjúkrahússins á Akureyri. Stystur er biðlistinn hjá einkareknu stöðvunum tveimur; 65 hjá Kíníkinni og 31 hjá Handlæknastöðinni.

Nær 500 fleiri hnjáskiptaaðgerðir en mjaðmaskiptaaðgerðir voru gerðar í fyrra en árið áður.

Verulega hefur gengið á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum, en í byrjun október í fyrra biðu tæplega 2.000 manns eftir þessari þjónustu. Má þakka það átaki sem farið var í á síðasta ári með því að veita 700 milljónir króna aukalega til liðskiptaaðgerða og semja jafnframt við einkafyrirtæki um þjónustuna.

Við afgreiðslu fjárlaga í desember sl. var veittur milljarður króna til lýðheilsutengdra aðgerða til að vinna á biðlistum eftir ýmsum læknisaðgerðum, þ.m.t. liðskiptaaðgerðum. Unnið er að skiptingu fjárins á milli aðgerðaflokka, en einkareknu læknastöðvarnar tvær vinna enn á grundvelli fyrri samnings.

„Þetta gengur vel hjá okkur og fólk er ánægt með þjónustuna, við erum opin fyrir áframhaldandi samstarfi við hið opinbera til þess að hjálpa til og létta á kerfinu þar sem þörf er á,“ segir Guðrún Ása Björnsdóttir framkvæmdastjóri Klíníkurinnar í samtali við Morgunblaðið.

„Það saxaðist á biðlistann í fyrra sem er ánægjulegt, en það má ekki slaka á núna á meðan verið er að vinna niður biðlistann. Við þurfum a.m.k. að halda sama dampi og var í fyrra, en helst að bæta í til þess að koma biðtímanum undir viðunandi mörk. Við viljum hjálpa sem flestum sem fyrst. Við myndum fagna því markmiði og leggja okkar af mörkum,“ segir hún.

„Hefði ekki verið farið í átak í liðskiptum og ríkið ekki ákveðið að kaupa þjónustuna af fleiri aðilum innan heilbrigðiskerfisins, væri biðlistinn enn lengri,“ segir Guðrún Ása.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson