Ólafur Bjarnason fæddist 27. ágúst 1929. Hann lést 18. desember 2023. Útför fór fram 5. janúar 2024.

Öðlingurinn Ólafur Bjarnason, Olli, er nú allur eftir langt og farsælt líf. Hann var vart fyrr kominn í heiminn er heimskreppan mikla skall á og óhætt að segja að hann hafi lifað tímana tvenna. En lífshlaup Olla var í föstum skorðum, hann fylgdi þeirri stefnu sem hann tók ungur og hvikaði aldrei frá henni. Hann var sannarlega lánsamur maður bæði í einkalífi og starfi.

Hans mesta lán var að ganga að eiga æskuástina sína, Geirþrúði Kristjánsdóttur, á námsárunum í Vélskólanum. Eignaðist síðan með henni tvær yndislegar dætur sem ólust upp á fallegu heimili í barnvænu umhverfi á Írafossi og síðar á Álfhólsvegi í Kópavogi. Hann var vinmargur, hélt alla tíð tryggð við æskuvinina á Hverfisgötu og nágrenni og síðan vinnufélagana á Írafossi. Er hann komst á eftirlaunaaldur eignuðust þau hjónin enn nýja vini í sumarhúsabyggðinni við Minnivallalæk. Þá var hann alla sína starfsævi trúr vinnuveitanda sínum, Landsvirkjun, og síðast en ekki síst var hann við góða heilsu fram á síðustu ár.

Mitt lán var að kvænast Aðalbjörgu, eldri dóttur þeirra hjóna, og eignast tengdaforeldra sem tóku strax ástfóstri við börnin tvö sem fylgdu mér og litu á þau sem sín eigin barnabörn. Og tengdafaðirinn slíkur hagleiksmaður að allt lék í höndunum á honum og óspar á að hjálpa dóttur sinni og tengdasyni þegar á þurfti að halda, sem var reyndar alloft, þar eð sá síðarnefndi hafði sáralitla verkkunnáttu og enn minni tæknikunnáttu. Við urðum hluti af samheldinni fjölskyldu þar sem samband foreldranna og dætranna var afar náið og kærleiksríkt. Í hátt í hálfa öld höfum við með örfáum undantekningum komið saman öll aðfangadagskvöld og gamlárskvöld, ferðast mikið saman bæði erlendis og innanlands og dvalist löngum stundum hjá tengdaforeldunum í sumarbústað þeirra.

Hagleiksmaðurinn var einnig útsjónarsamur með afbrigðum. Fljótur að koma auga á einföldustu útfærsluna á flóknum verkum. Sá hæfileiki kom sér oft vel bæði í starfi og þeim verkum öðrum sem hann sinnti um ævina. Á sama hátt var hann fljótur að átta sig á kjarna hvers máls og mynda sér skoðun.

Olli var athugull og forvitinn að eðlisfari og hafði mikinn áhuga á ýmiss konar grúski. Hann hafði sérstakan áhuga á þjóðlegum fróðleik, ævisögum og ættfræði. Einnig las hann allt sem hann komst yfir um seinni heimsstyrjöldina, vel minnugur hernámsáranna. Þau hjónin komu sér með árunum upp miklu safni góðra bóka þar sem finna mátti flestar perlur íslenskra bókmennta.

Hann hafði gaman af að spjalla við hvern sem var um hvað sem var. Fylgdist alltaf vel með því sem var að gerast í þjóðfélaginu. Hafði frá mörgu að segja, enda stálminnugur og fróður. Var því fær um að rifja upp í smáatriðum ferðalög og atvik áratugi aftur í tímann.

Undir lokin var hann orðinn heldur hrörlegur en skýr í kollinum alveg fram í andlátið. Ferðum fækkaði í sveitina þar sem þau hjónin höfðu byggt sér bústað og ræktað lóð af einstakri kostgæfni á efri árum.

Að leiðarlokum kveð ég þennan öðling með hlýhug, virðingu og þakklæti.

Guttormur Ólafsson.

Í minningunni var það sólríkur sumardagur því ekkert gat skyggt á gleði sjö ára stelpuskotts sem beið í eftirvæntingu í innkeyrslunni þar sem við bjuggum á Akranesi eftir stórum flutningabíl sem var á leiðinni frá Reykjavík með flottasta „kofa“ sem sést hafði. Elsku afi minn hafði eytt öllum sínum frítíma í marga mánuði í að teikna, smíða og mála kofa handa mér sem var engum líkur. Hvítur með rauðu þaki, fallegum kvisti og matjurtagarði ásamt svölum fyrir framan innganginn. Allt þetta gerði hann og lagði á sig til að gleðja mig. Afi var svo einstakur, alltaf að samgleðjast, alltaf tilbúinn að hjálpa hvort sem það var að mála fyrstu íbúðina sem ég keypti og ekki einu sinni, heldur tvisvar sama dag þar sem vitlaus litur hafði verið afhentur í málningarbúðinni og afi hélt bara að ég hefði ákveðið að mála alla íbúðina í bleikum lit. Eða smíða handa mér spegil, laga það sem þurfti að laga hverju sinni og svo auðvitað smíða öryggishlið fyrir stigann hjá mér svo langafabörnin færu sér ekki að voða. Hann lagði alltaf mikla áherslu á að allt væri öruggt fyrir okkur, ef hann var ekki alveg 100% sáttur þá var hann mættur næsta dag með tól og tæki til að laga það sem þurfti.

Nákvæmur í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur, hlýr, handlaginn og hjálpsamur það varstu elsku besti afi minn. Á sama tíma og ég á eftir að sakna þín þá er ég glöð að þú hafir fengið hvíldina sem þú þráðir og sért kominn í fangið á frænku og Kristjáni.

Takk fyrir allar góðu stundirnar elsku afi minn.

Geirþrúður
Guttormsdóttir.

Helstu minningar okkar tveggja af honum afa tengjast flestar sumarbústað fjölskyldunnar. Enda er það kannski ekki furða, því stórum hluta sumranna, eftir að byrjað var að reisa bústaðinn árið 1996, var varið þar. Afi stýrði þar allri fjölskyldunni við að reisa bústaðinn og fáar stundir aflögu fyrir leiki eða aðra skemmtan. Við kölluðum þar af leiðandi sumarbústaðinn kæra „þrælabúðir fjölskyldunnar“. Þrátt fyrir þetta einkennilega viðurnefni áttum við óteljandi margar ógleymanlegar stundir þar í faðmi fjölskyldunnar. Hvort sem það var að smíða, mála, slá grasið, koma díselvélinni í gang eða bara að setjast niður og borða saman eða spila.

Mörgum kvöldum var eytt í spil með afa og ömmu. Afi tapaði yfirleitt og sakaði þá gjarnan ömmu um að svindla. Hann spilaði þó eflaust bara illa til þess að leyfa okkur barnabörnunum að vinna. Hann kenndi okkur mannganginn í skák en okkur fannst hann ekkert sérlega góður skákmaður. Það var ekki fyrr en við vorum orðnir aðeins eldri að hann varð allt í einu mjög góður.

Afi var þúsundþjalasmiður sem hafði alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin. Það voru mörg sumur þar sem margt var smíðað, kassabílar, sumarbústaðir og pallar og auðvitað vorum við með. Þótt margt hafi verið vitlaust sagað eða skakkt þá gat afi samt lagað það og notað það sem gert hafði verið. Eitt sinn smíðuðum við glugga í sumarbústaðinn og eitthvað voru listarnir skakkir en það var ekki mikið mál, afi reddaði því eins og skot. Þegar unnið var að sumarbústaðnum virtist hann vera með lausnir á öllu og við munum einnig eftir því að þegar einhverjir meðlimir fjölskyldunnar komu til afa með hvers konar verkleg vandamál þá gat hann yfirleitt leyst snarlega úr því.

Afi var með mikinn pabbahúmor. Hann ók alltaf af stað þegar við opnuðum hliðið fyrir bílinn í sveitinni og var okkur sagt að hann hefði alla tíð leikið þennan sama leik við mömmur okkar og að hann hefði í rauninni aldrei hætt, ekki einu sinni eftir að þær voru komnar á eftirlaunaaldur. Sem börn fengum við stundum að stýra bílnum eftir að ekið var í gegnum hliðið en allt fór það fram undir vökulum augum afa.

Afi var einnig prakkari mikill. Við spurðum hann einhverju sinni af hverju hurðarsprengjur heita hurðarsprengjur, þar sem engin hurð væri á þeim? Afi svaraði með því að sýna okkur hvernig hægt væri að festa tvo pakka af hurðarsprengjum við hurðarhúninn og dyrakarminn og svo biðum við spenntir eftir því að amma kæmi heim.

Afi var mjög vel lesinn og fróður um mannkynssöguna. Hann sagði okkur frá hinum ýmsu viðburðum sem gerðust fyrir hundruðum ára og oft svo vel að við veltum því stundum fyrir okkur hvort afi hefði verið viðstaddur þessa sögulegu viðburði. Afi hafði alltaf tíma til að kenna okkur og var iðulega mjög þolinmóður þrátt fyrir athyglisbrest og óþolinmæði nemendanna á stundum.

Elsku afi, þín er sárt saknað.

Höskuldur Hrafn og Ólafur Ragnar.

Þegar ég hugsa til Olla frænda kemur fyrst upp í hugann hversu skemmtilegur hann var. Ekki vegna þess að hann væri sífellt að reyta af sér brandara eða segja skemmtisögur heldur af því hversu kvikur og lifandi hann var alla tíð. Hann hafði einlægan áhuga á svo mörgu og ekki síst fólkinu sínu, hvort sem það vorum við ættingjar hans eða einhver af hans fjölmörgu vinum. Þessu fékk ég sjálfur oft að kynnast þegar hann spurði áhugasamur um það sem ég var að fást við þá stundina og maður fann að þessum áhuga fylgdi jákvæðni og hlýlegur velvilji.

Ég er sannfærður um að öll þau sem þekktu hann hugsi nú til hans með söknuði og eftirsjá þó æviárin hans hafi orðið mörg og margir sem betur fer fengið að njóta langrar samfylgdar við hann. Ég þekkti hann auðvitað alla mína tíð og á ótal fallegar minningamyndir um hann frá barnæsku minni og þar til ég sá hann í síðasta sinn. Hann var þá auðvitað orðinn þreyttur en það stóð ekki í veginum fyrir því að hann sýndi því einlægan áhuga sem ég hafði frá að segja og væri góði frændi minn sem mér þótti alla tíð vænt um.

Við munum öll hvað Olli var léttur á fæti og snar í snúningum. Það rifjast upp fyrir mér þegar ég fór hringveginn ásamt foreldrum mínum og þeim Olla og Dúddu sumarið 1974. Við tókum góðan tíma í þetta skemmtilega ferðalag og fórum okkur hægt en þegar við komum í Hallormsstað vorum við flest orðin ferðalúin og nutum þess að geta slakað á í sólinni. Olli vildi hins vegar endilega skokka upp á næstu kletta til að virða fyrir sér útsýnið þó að þangað upp væri töluverð ganga og brött. Þarna kynntist ég fyrst orðinu þindarlaus þegar mamma horfði á eftir honum, leit svo á mig og sagði brosandi: „Hann frændi þinn, hann hefur nú alltaf verið þindarlaus!“ Og það er einmitt það sem hann var, óþreytandi. En ekki bara í gönguferðum heldur líka því að lifa lífinu lifandi og að hugsa vel um sig og fjölskyldu sína.

Olli var úrvalshandverksmaður og átti auðvelt með smíðar hvort heldur sem var úr járni eða tré. Ég fór stundum með pabba niður í rafstöð í Elliðaárdalnum þar sem Olli vann lengi og í einni slíkri ferð var erindið að biðja Olla að sjóða í eitthvað í bílnum hans pabba. Pabbi var ánægður með afraksturinn og sagði mér með aðdáun á heimleiðinni að hann vissi ekki um betri suðumann en hann bróður sinn. Pabbi var kannski ekki alveg hlutlaus þarna, því hann bar alla tíð hlýjar tilfinningar til bróður síns, en ég veit að það var satt að verkin hans Olla báru vitni um vandvirkni og einstakt handbragð. Hver man til dæmis ekki eftir handfanginu á fataskápnum á Álfhólsveginum sem var bæði frumlegt og einstaklega fallegt?

Ég kveð þig nú, elsku frændi minn, þakklátur fyrir þau ár sem ég fékk að þekkja þig og eiga þig sem föðurbróður. Velvild þín og vinsemd hefur alltaf verið mér dýrmæt og heldur áfram að vera það. Þú ert farinn í lengsta ferðalagið þitt og ég veit þú fetar þína slóð, óþreytandi og þindarlaus, þangað til þú finnur fyrir þau pabba og systur þínar. Vertu svo góður að bera þeim kveðju mína.

Hvíl í friði, elsku frændi!

Bjarni Kristjánsson.

Margs er að minnast þegar ég kveð vin minn Ólaf Bjarnason. Við Heimir minn og þau hjónin Ólafur og Geirþrúður, sem við reyndar kölluðum aldrei annað en Olla og Dúddu, vorum samferða á lífsins leið og sannir vinir. Olli og Heimir voru, ásamt Kristjáni tvíburabróður Olla, bernskuvinir, ólust upp við Hverfisgötuna og brölluðu margt, eftir því sem þeir hafa lýst fyrir afkomendum. Leikvöllurinn var Arnarhóll og Skuggahverfið á fjórða áratugnum. Hér kemur ein minning, sögð með orðum Heimis. „Þegar við tvíburarnir Olli og Kristján vorum tíu ára datt okkur í hug að veiða dúfur í portinu hjá mér og selja þær vægu verði. Við veiddum dúfurnar í bakdyraforstofuganginum hjá mér og seldum þær svo strákunum í Skuggahverfinu. Á þessum árum átti næstum því hver einasti strákur dúfur. Gildran var nú ekki merkileg, sæmilegur kassi sem náði utan um dúfuna, stutt prik og langt snæri og svo auðvitað agnið sem var dúfnakorn en það fékkst alls staðar í lausu. Dúfurnar alveg hámuðu kornið í sig. Það þarf ekkert endilega að geta þess að við veiddum sömu dúfurnar aftur og aftur og seldum þær strákunum aftur og aftur. En við vorum sérlega ódýrir á þessu og gættum þess að enginn færi á hausinn.“ Þegar vinirnir eignuðust fjölskyldur myndaðist vinátta milli okkar eiginkvennanna og síðar dætra okkar. Fyrstu árin skruppum við á milli húsa með barnavagna til að spila og spjalla, oft langt fram á kvöld. Seinna, þegar Olli og Dúdda voru flutt með dæturnar austur á Írafoss og við Heimir til Keflavíkur með okkar dætur, voru þær margar helgarferðirnar og mikið hlegið og leikið sér. Ef Olli var á vakt þegar við komum austur stökk Heimir strax niður á stjórnstöð virkjunarinnar til að hitta vin sinn. Stelpurnar okkar fylgdust að í alls kyns ævintýrum, fóru á skauta á ísi lögðu Þingvallavatni, sóttu egg í hænsnakofann og ógleymanlegar eru sumarbústaðarferðirnar upp í Ölver. Á seinni árum skruppu vinirnir stundum í bíó, eins og þegar þeir voru strákar í miðbænum, á meðan við Dúdda vorum í saumaklúbb. Barnabörnin okkar tengdust hvert öðru líka í gegnum þessa góðu vináttu, enda samverustundirnar óteljandi, alveg fram á þennan dag. Aldrei hefur slitnað þráðurinn á milli fjölskyldnanna. Það er mikil gjöf að eiga slíka vini.

Samúðarkveðja kær,

Ólöf Sigurjónsdóttir og dætur.