Pilsið Carrie Bardshaw er þekkt fyrir ballerínupilsið.
Pilsið Carrie Bardshaw er þekkt fyrir ballerínupilsið.
Ég er forfallinn aðdáandi þáttanna Beðmála í borginni (e. Sex and the City) og þekki líf stallnanna eflaust aðeins of vel og hef á tímum álitið mig fimmta…

Erna Ýr Guðjónsdóttir

Ég er forfallinn aðdáandi þáttanna Beðmála í borginni (e. Sex and the City) og þekki líf stallnanna eflaust aðeins of vel og hef á tímum álitið mig fimmta meðlim Cosmopolitan-klíkunnar, varla sú eina. Þættirnir, sem eru byggðir á fréttadálki og bókaseríu Candace Bushnell, fóru í loftið sumarið 1998 og fagna 26 ára útgáfuafmæli sínu í ár og var ég því aðeins 12 ára gömul þegar ég sá Carrie Bradshaw, sem bandaríska leikkonan Sarah Jessica Parker túlkaði af sinni alkunnu snilld, ganga um götur New York-borgar í „baby-bleika“ toppnum og ballerínupilsinu, sem heldur betur breytti tískuleiknum. Sjálf hef ég aldrei verið tískudrós en kann þó að meta skemmtilegar samsetningar og ferskar hugmyndir, þegar listræn augu fara út fyrir rammann. Búningahönnuðurinn Patricia Field, sem á heiðurinn af búningum Parker, Kim Cattrall, Cynthiu Nixon og Kristin Davis, í gegnum tökuferli þáttanna og kvikmyndanna, fann hið goðsagnakennda ballerínupils alveg óvart í afsláttarkörfu og greiddi einungis fimm bandaríkjadollara fyrir á sínum tíma, sem eru tæplega 700 krónur íslenskar á gengi dagsins. Í dag er pilsið mun verðmætara en þegar það lá á botni afsláttarkörfu og verður það meðal muna á uppboði hjá uppboðshúsinu Julien’s hinn 18. janúar næstkomandi. Búist er við að pilsið seljist fyrir allt að 2 milljónir íslenskra króna.