Djúpa laugin „Alla nema þig er byggð á gamanleiknum Mikið fjaðrafok um ekki neitt eftir William Shakespeare.“
Djúpa laugin „Alla nema þig er byggð á gamanleiknum Mikið fjaðrafok um ekki neitt eftir William Shakespeare.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin og Smárabíó Anyone But You / Alla nema þig ★★★½· Leikstjórn: Will Gluck. Handrit: Ilana Wolpert og Will Gluck. Aðalleikarar: Sydney Sweeney, Glen Powell, Alexandra Shipp, Gata og Hadley Robinson. 2023. Bandaríkin. 93 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Nýjasta rómantíska gamanmyndin, Alla nema þig, eftir Will Gluck var markaðssett skringilega. Það eina sem áhorfendur vissu um myndina fyrir fram var að leikaraparið hefði mögulega sofið saman þrátt fyrir að vera bæði í sambandi, straumarnir á milli þeirra í viðtölum virtust einfaldlega vera of raunverulegir. Síðan kom stiklan sem var svo kjánaleg og klisjukennd að Emmu Stone og Nathan Fielder fannst þau knúin til að endurleika aðalparið og gera um leið grín að stiklunni í kynningu sinni á þáttum sem kallast Bölvunin (Nathan Fielder og Benny Safdie, 2023-). Það má því segja að undirrituð hafi farið efins á myndina enda lítill áhugi fyrir því að horfa á sykursæta leikara, sem eru kannski báðir að halda fram hjá mökum sínum, í lélegri Hallmark-líkri kvikmynd. Myndin kom hins vegar skemmtilega á óvart en undirritaðri hefði ekki dottið í hug að draga móður sína með sér á annað eins rusl. Hins vegar eftir sýninguna hvatti hún móður sína til þess að fara á myndina í bíó með vinkonum sínum enda þrælgóð skemmtun þótt hún sé ekkert meira en það.

Alla nema þig er byggð á gamanleiknum Mikið fjaðrafok um ekki neitt eftir William Shakespeare og líkist þannig öðrum rómantískum gamanmyndum sem byggðar eru á leikritum Shakespeares sem gerðar voru í kringum 2000, eins og 10 hlutir sem ég hata við þig (1999) eftir Gil Junger. Það er einnig einhver sjarmi yfir Alla nema þig sem minnir á myndir frá þeim tíma. Leikstjórinn, Will Gluck, er góður í sinni grein en margir þekkja eflaust gaman- og unglingamyndina Auðveld A (2010) með Emmu Stone en sú mynd er að verða eins konar klassík líkt og Slæmar stelpur (Mark Waters, 2004). Líkt og Auðveld A er Alla nema þig mjög fyndin mynd sem kom á óvart en allur salurinn, þar sem meirihlutinn var konur, hló hástöfum stóran hluta af myndinni.

Kvikmyndin segir frá Bea (Sydney Sweeney) og Ben (Glen Powell) sem þola ekki hvort annað eftir að einnar nætur gaman fer úrskeiðis. Bea og Ben eiga hins vegar erfitt með að forðast hvort annað þar sem systir Bea, Halle (Hadley Robinson), og besta vinkona Bens, Claudia (Alexandra Shipp), eru að fara að gifta sig í Ástralíu og þeim er boðið. Eftir nokkrar tilraunir brúðkaupsgestanna til að koma þeim saman ákveða þau að þykjast vera par í von um að gera lífið bærilegra og um leið gera fyrrverandi Bens, Margaret (Charlee Fraser), afbrýðisama. Þessi saga er engan veginn ný af nálinni en Shakespeare klikkar yfirleitt ekki.

Sydney Sweeney og Glen Powell sem fara með aðalhlutverkin hafa bæði verið í „alvöru“ verkefnum en skvísumyndir eins og þessi fá sjaldan eins mikla viðurkenningu og gauramyndir. Það er því viðeigandi að nefna það að Glen Powell lék nýlega í vinsælu kvikmyndinni Þau bestu: Einfari eða á ensku Top Gun: Maverick (2022) eftir Joseph Kosinski. Sydney Sweeney hefur leikið í mörgum virtum þáttaseríum eins og Hvíta Lótusnum (2021-2025) eftir Mike White og Sögu ambáttarinnar (2017-) eftir Bruce Miller. Sydney Sweeney er hins vegar líklegast þekktust fyrir að leika Cassie Howard í Sæluvímu (2019-) eftir Sam Levinson. Sweeney var frábær í Alla nema þig en samt ekki eins góð og Powell en hann er einmitt týpan í að leika í rómantískri gamanmynd enda bæði rosalega sætur og fyndinn. Það varð strax ljóst þegar hann lék Charlie í sætu Netflix-myndinni Settu það upp (2018) eftir Claire Scanlon.

Alla nema þig er ekki saga sem þurfti að segja eða einhver algjörlega ný tilraun á verki Shakespeares en allt teymið bak við og fyrir framan tökuvélina virðist vera fullkomlega meðvitað um það. Ekki er reynt að gera kvikmyndina neitt meira en hún er. Þetta er bara mynd um ríkt, hvítt og óeðlilega fallegt fólk sem verður ástfangið í þykjustuleik. En jafnvel þó að Alla nema þig sé algjör klisja þá eiga þeir sem horfa óneitanlega góða kvöldstund.