Vinnumarkaður Samningar stórs hluta launafólks losna í lok janúar.
Vinnumarkaður Samningar stórs hluta launafólks losna í lok janúar. — Morgunblaðið/Eggert
Ekki hefur dregið til tíðinda í viðræðum Fagfélaganna, Rafiðnaðarsambandsins, VM og Matvís, við Samtök atvinnulífsins. Þegar rætt var við Kristján Þórð Snæbjarnarson formann RSÍ var búið að halda þrjá samningafundi í kringum áramótin og á nýju ári…

Ekki hefur dregið til tíðinda í viðræðum Fagfélaganna, Rafiðnaðarsambandsins, VM og Matvís, við Samtök atvinnulífsins. Þegar rætt var við Kristján Þórð Snæbjarnarson formann RSÍ var búið að halda þrjá samningafundi í kringum áramótin og á nýju ári en hann átti von á að boðað yrði til næsta fundar á allra næstu dögum. Sameiginleg samninganefnd félaganna er ekki með í viðræðum breiðfylkingar stéttarfélaga í ASÍ við SA og hefur engin breyting orðið á því að sögn Kristjáns.

Hann segir að skiljanlega fari þó nokkur tími í viðræður SA við hinn hópinn „Ég neita því ekkert að við höfum viljað komast lengra inn í samtalið og hraðar. Þetta tekur alltaf sinn tíma,“ segir hann. SA og breiðfylkingin funduðu í gær og annar fundur er boðaður í dag.

Kristján segir félögin sammála hinum hópnum að langflestu leyti hvað varðar umgjörðina og mikilvægi þess að ná fram breytingum í samfélaginu til að koma á stöðugleika, ná niður verðbólgunni og vöxtunum, sem sé mikilvægast. „Auðvitað er síðan gríðarlega mikilvægt að ef á að reyna að ná breiðri sátt þá þurfa fleiri aðilar að koma að því borði og ná breiddinni svo að sáttin myndist á vinnumarkaði. Ég vona að það eigi eftir að gerast.“

Sameyki, stærsta félag opinberra starfsmanna, er með nokkra samninga við SA sem renna út í lok janúar, m.a. vegna Isavia, Orkuveitu Reykjavíkur og Fríhafnarinnar. Skv. upplýsingum félagsins í gær eru viðræður ekki hafnar en þær ætttu þó að fara í gang fljótlega. Aðeins tvær og hálf vika eru til stefnu þar til samningar losna.omfr@mbl.is